Í tilefni af 40 ára afmæli Ferðamálaráðs Íslands, sem haldið var á Hótel Sögu þann 7. júlí s.l., hélt samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson eftirfarandi ávarp:

Ágætu afmælisgestir!

Það er ánægjulegt að fagna þessum tímamótum Ferðamálaráðs. Ferðamálaráð er ein þeirra ríkisstofnana, sem láta lítið yfir sér en vinna sitt verk og ná árangri.

Það má segja að grunnurinn að Ferðamálaráði, í núverandi mynd, hafi verið lagður árið 1936 með lögum um Ferðaskrifstofu ríkisins, en þar segir m.a. að skrifstofan skuli veita fræðslu um landið, innanlands og utan, með fræðsluritum, útvarpserindum, fyrirlestrum og kvikmyndum, með það fyrir augum að vekja athygli ferðamanna á landinu.

Í lögunum kemur einnig fram að Ferðaskrifstofan skuli hafa eftirlit með hreinlæti á gistihúsum og veitingahúsum, prúðmannlegri umgengni og aðbúnaði ferðamanna.

Í núgildandi lögum um skipulag ferðamála segir í fyrstu grein:

,,Tilgangur laga þessara er að stuðla að þróun ferðamála sem atvinnugreinar og skipulagningu ferðaþjónustu fyrir íslenskt og erlent ferðafólk sem mikilvægs þáttar í íslensku atvinnu- og félagslífi, bæði með hliðsjón af þjóðhagslegri hagkvæmni og umhverfisvernd.“


Þó að margt hafi breyst þá er grunnurinn enn sá sami og Ferðamálaráð hefur frá stofnun þess, árið 1964, í raun sinnt þessum sömu verkefnum en unnið að þeim í takt við þann tíðaranda sem atvinnugreinin hrærist í hverju sinni. Á þessum fjörtíu árum hefur Ferðamálaráð í samstarfi við fyrirtæki og fjölmarga einstaklinga náð að efla íslenska ferðaþjónustu og gera hana jafn þróaða og öfluga atvinnugrein og raun ber vitni.

Síðustu árin hafa markaðsaðgerðir Ferðamálaráðs tekið miklum breytingum. Sýnist mér sem fjöldi samstarfsverkefna í markaðssókn, innanlands og utan, sem og Iceland Naturally í Bandaríkjunum, séu að skila góðum árangri. – Skilaboð mín til afmælisbarnsins er að þessari sókn verði haldið áfram og hún styrkt enn frekar í Evrópu auk þess sem sótt verði á fjarlægari markaði í auknum mæli. Við Íslendingar þurfum á því að halda að skjóta sterkari stoðum undir ferðaþjónustuna og til þess þurfum við að nýta og nota allar leiðir sem færar eru.

Umhverfismálin eru mikilvæg fyrir ferðaþjónsutana
Ferðamálaráð Íslands hefur sinnt umhverfismálum ötullega frá upphafi og nýtur þar algjörrar sérstöðu miðað við sambærilegar stofnanir í öðrum löndum. En það er engin tilviljun að umhverfismál á ferðamannstöðum séu eitt lögbundinna verkefna Ferðamálaráðs hér á landi. Allir vita að íslensk ferðaþjónusta byggir á náttúru landsins. Greinin má því aldrei hafa skammtímamarkmið að leiðarljósi og verður að dafna í anda sjálfbærrar þróunar. – Ég tel því mikilvægt að umhverfisvottun og efling umhverfisfræðslu verði tekin fyrir skipulega og markvisst á sama hátt og sveitarfélögin á Snæfellsnesi og Ferðaþjónusta bænda hafa gert í samstarfi við Hólaskóla og með styrk frá samgönguráðuneytinu.

Í framhaldi af nýrri sókn í umhverfismálum myndi ég vilja sjá frammistöðu íslenskrar ferðaþjónustu á sviði umhverfismála hampað enn frekar en nú er gert. Það eru og gætu orðið mörg tilefni til þess. Ísland hefur sérstöðu í auðlindanýtingu á sjálfbærum forsendum og við eigum bæði að vekja athygli á því og nýta okkur þá kosti sem íbúar vítt um veröldina sjá í því að sækja heim þjóð sem gerir umverfismálum svo hátt undir höfði og við gerum og viljum gera.

Framverðir íslenskrar ferðaþjónustu hafa verið margir í gegnum tíðina. Ég held að á engan sé hallað þó að ég nefni þá sérstaklega sem skipuðu fyrsta Ferðamálaráðið. Þeir voru Lúðvíg Hjálmtýsson, Þorleifur Þórðarson, Lárus Ottesen, Ágúst Hafberg, Geir Zoëga, Sigurlaugur Þorkelsson, Sigurður Magnússon og Birgir Þorgilsson.

Ég vænti þess að í framtíðinni megi atvinnugreinin dafna og vaxa í höndum öflugra frumkvöðla og með eðlilegum beinum og óbeinum stuðningi Ferðamálaráðs og ráðuneytis ferðamála.

Ég vil biðja gesti um að lyfta glösum til heiðurs frumkvöðlum og til heiðurs íslenskri ferðaþjónustu í nútíð og framtíð um leið og ég þakka ferðamálaráði, ferðamálastjóra og starfsfólki á skrifstofu Ferðamálaráðs fyrir gott starf.