Skömmu fyrir áramót var tekið saman hvernig staðið hefur verið að flutningi starfa út á land af hálfu stofnana á vegum samgönguráðuneytisins og fyrirtækja er undir það heyra. Samgönguráðherra setti fram í bréfi, dags. 26. október 1999, til undirstofnana samgönguráðuneytisins, Landssíma Íslands hf. og Íslandspósts hf. þá skýru stefnu að leita skyldi leiða til að flytja störf út á landsbyggðina. í bréfinu sagði m.a.:
„Eins og kunnugt er þá hefur búsetuþróunin í landinu verið landsbyggðinni mjög óhagstæð hin síðari ár. Ástæður þeirrar þróunar eru margvíslegar. Talið er að fjölgun atvinnutækifæra á vegum opinberra aðila á höfuðborgarsvæðinu eigi sinn þátt í þessari óæskilegu þróun. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að með markvissum ráðstöfunum muni ríkisstjórnin beita sér fyrir því að undirstöður byggðar í landinu verði treystar. Liður í þeirri viðleitni er að auka fjölbreytni í atvinnutækifærum og staðsetja stofnanir utan höfuðborgarsvæðisins eftir því sem unnt er.
Með vísan til þessa, er hér með óskað eftir því við fyrirtækið að áður en nýtt starfsfólk er ráðið til starfa í ný verkefni eða starfsmenn færðir milli verkefna, verði kannað hvort unnt sé að vinna viðkomandi verk utan höfuðborgarsvæðisins, og þá helst á þeim svæðum þar sem atvinnulíf er einhæft.“
Samantektin fer hér á eftir:
Vegagerðin
Að ósk samgönguráðherra hefur Vegagerðin gert áætlun um eflingu starfsemi sinnar á landsbyggðinni. Er þar bæði um að ræða flutning verkefna frá Reykjavík út á land og staðsetningu nýrra starfa á landsbyggðinni. Þau störf sem um er að ræða, eru á sviði upplýsingaþjónustu, eftirlits af ýmsu tagi, gagnasöfnunar, gagnavinnslu, símsvörunar, umferðar- og umferðaröryggis, umsjónar með ferjurekstri og veghönnunar. Umdæmisskrifstofur Vegagerðarinnar eru á Selfossi, Borgarnesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri og Reyðarfirði, og á þessum stöðum er þungi starfseminnar í hverju umdæmi. Miðað er við að hin nýju störf verði til á ofangreindum stöðum og þá einkum á þeim stöðum, sem fjær liggja höfuðborginni. Vegagerðin kaupir mikið af þjónustu af einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum. Stefnan er að beina í auknum mæli kaupum til aðila á landsbyggðinni heldur en verið hefur til þessa. Jafnframt því, sem stefnan er ákveðin fyrir næstu ár, verður farið í athuganir og undirbúning að frekari eflingu starfsemi Vegagerðarinnar á landsbyggðinni í framtíðinni.
Í nóvember 2001 flutti Vegagerðin skiptiborð og hluta af upplýsingaþjónustu við vegfarendur til Ísafjarðar. Þar er því aðal símsvörun Vegagerðarinnar og svarað í símanúmerið 1777 og veittar upplýsingar um færð og veður. Þar er um að ræða fjögur ný stöðugildi. Þá hafa fjögur störf verið flutt til Akureyrar er tengjast ýmsu eftirliti á vegum Vegagerðarinnar og umferðaröryggismálum og eitt starf er tengist skipulagningu og eftirliti yfirborðsmerkinga vega var flutt til Sauðárkróks. Fastráðnir starfsmenn Vegagerðarinnar eru um 350, þar af eru um 230 á landsbyggðinni.
Flugmálastjórn
Á árinu 2000 var undirritaður samningur milli Flugmálastjórnar og Akureyrarbæjar varðandi slökkvi- og björgunarþjónustu á Akureyrarflugvelli. Samningurinn felur í sér að Slökkvilið Akureyrar tekur að sér að annast slökkvi- og björgunarstörf og verkefni sem lúta að öryggismálum á Akureyrarflugvelli, sem Slökkvilið Akureyrarflugvallar á vegum Flugmálastjórnar hafði sinnt. Að auki hefur Slökkvilið Akureyrar tekið að sér faglega umsjón og þjálfun með slökkvi- og brunavarnarmálum á landsbyggðarflugvöllum Flugmálastjórnar, þ.e. öllum völlum öðrum en í Reykjavík og Keflavík. Þessi þjálfun hafði fram að þessu farið fram í Reykjavík. Með þessum samningi hefur Flugmálastjórn haldið áfram á þeirri braut að fela sveitarfélögum rekstur flugvallarslökkviliða. Stofnunin hefur gert sams konar samning við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. um slökkvi- og björgunarþjónustu á Reykjavíkurflugvelli.
Þá hefur verið ráðið í fjórar nýjar stöður vegna aukins viðbúnaðar á áætlunarflugvöllunum á Egilsstöðum, Höfn og Vestmannaeyjum. Nokkur reynsla er komin á samning um sameiginlegan rekstur slökkviliðs á Egilsstöðum á milli sveitarfélagsins og Flugmálastjórnar og gerðir hafa verið samningar við Fjarðarbyggð um rekstur flugvallarins í Norðfirði og Siglufjarðarbæ um rekstur flugvallarins á Siglufirði. Jafnframt hefur flugmálastjóra verið falið að undirbúa frekari samninga á þessu sviði.
Þá er á vegum Flugmálastjórnar í auknum mæli keypt hönnunarvinna utan höfuðborgarsvæðisins, svo og ýmiskonar viðhaldsþjónusta.
Á heildina litið skapa þessar breytingar um það bil sex ný störf á landsbyggðinni. Á vegum Flugmálastjórnar starfa alls um 250 manns þar af um 61 starfsmaður út á landsbyggðinni.
Siglingastofnun
Á árinu 1998 var opnað útibú Siglingastofnunar í Keflavík, til viðbótar við önnur er hafa verið á landsbyggðinni um árabil. Þar starfar einn maður. Þá hefur frá ársbyrjun 2001 hefur verið unnið að verkefni tengt flokkun og skráningu skannaðra teikninga í útibúi Siglingastofnunar á Ísafirði. Jafnframt hefur verið ákveðið að þar verði unnið skipulag og úrvinnsla vegna skyndiskoðana fiskiskipaflotans. Um er að ræða tæpt stöðugildi. Á vegum Siglingastofnunar starfa alls um 90 manns, þar af um 15 á landsbyggðinni. Þar að auki eru 54 vitaverðir í hlutastarfi, allir staðsettir á landsbyggðinni.
Rannsóknarnefnd sjóslysa
Rannsóknarnefnd sjóslysa var með aðsetur í Reykjavík, en samfara endurskipulagningu á allri starfsemi nefndarinnar var aðsetur nefndarinnar flutt í Stykkishólm haustið 2001. Við nefndina eru tvö föst stöðugildi á ársgrundvelli, þó umfang starfseminnar sé mun meira en endurspeglast í tveimur stöðugildum, þar eð vinnuframlag nefndarmanna er til viðbótar framlagi fastra starfsmanna nefndarinnar.
Íslandspóstur hf.
Á vegum Íslandspósts hf. hefur aðalskiptiborð og þjónustuver fyrirtækisins fyrir einstaklinga verið flutt til Akureyrar, pökkun fyrsta dags umslaga verið flutt til Ísafjarðar, frímerkjavarsla í Borgarnes, vinna við ársmöppur í Búðardal auk þess sem smávörulager fyrirtækisins hefur verið fluttur til Blönduóss. Þessar ákvarðanir þýða um það bil 8 til 10 ársverk sem flutt hafa verið út á land. Á vegum Íslandspósts starfa um 1260 manns, þar af eru um 470 úti á landi. Þessu til viðbótar eru starfandi sem verktakar um 100 landpóstar og u.þ.b. 40 stöðugildi eru hjá samstarfsaðilum Póstsins á landsbyggðinni.
Landssími Íslands hf.
Síminn hefur markvisst unnið að því að flytja störf út á land í tengslum við upplýsingasímann 118. Svarað er í 118 á fjórum stöðum á landinu, það er í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum. Nú eru 62 stöðugildi á vegum 118 á landsbyggðinni. Alls starfa um 1300 manns hjá Símanum, þar af um 300 manns á landsbyggðinni.
Ferðamálaráð Íslands
Við Ferðamálaráð Íslands starfa 20 manns, hérlendis og erlendis. Árið 1994 var opnað á Akureyri útibú frá Ferðamálaráði.Við stofnun útibúsins voru starfsmenn 4 en eru 5 í dag.
Samantekt
Af framansögðu má sjá að markvisst hefur verið unnið að flutningi starfa út á land á vegum stofnana samgönguráðuneytis og hlutafélaga á þess vegum. Meginniðurstaðan er sú að á undanförnum árum, þó sér í lagi frá árinu 1999 fram til dagsins í dag, hefur verið stofnað til 95 nýrra starfa úti á landi á vegum stofnana samgönguráðuneytis og hlutafélaga á þess vegum.