Samgönguráðherra ásamt tveimur starfsmönnum ráðuneytisins og ferðamálastjóra heimsóttu Dali og sunnanverða Vestfirði dagana 9-10 júlí. Tilgangur ferðarinnar var að funda með forsvarsmönnum ferðamála á svæðunum.

Ráðherra fundaði m.a. á Hótel Laugum í Sælingsdal, Reykhólum, Hótel Flókalundi og í Breiðavík, þar sem hann lagði áherslu á að ferðamál fengju enn meira vægi á kjörtímabilinu heldur en verið hefur. Ýmis mál voru rædd á fundunum, en vega- og fjarskiptamál fengu hvað mesta athygli. Víða var óánægja með GSM sambandið. Jarðgöng fyrir ferðamenn á Bæjarbjargi voru til umræðu og skýrðu heimamenn frá viðamiklum hugmyndum. Farið var í skoðunarferð og nokkrir möguleikar á jarðgöngum, útsýnispöllum og svölum í bjarginu kynntar.

Fram kom að heimamenn í Vesturbyggð, Reykhólasveit jafnt sem í Dalasýslu hafa áhyggjur af því að bensínstöðvum hefur fækkað á svæðinu og á veturna getur verið langt á milli stöðva og oft skortir merkingar þar á milli. Illa gengur að fá ferðamenn á svæðið utan háannatíma, en menn voru sammála um að tækifæri væru á því sviði m.a. í vélsleðaferðum og berjatínslu. Þá var til umræðu gífurleg fjölgun tjaldvagna og húsbíla sem eru fluttir með Baldri og áhuga ferðafólks á að skoða Snæfellsnes og Vestfirði í sömu ferð.

Mikill áhugi er á því að efla ferðaþjónustu sem atvinnugrein á svæðinu og ríkir bjartsýni með jákvæða þróun innan ferðaþjónustunnar samfara bættum vegum á svæðinu. Það var samdóma álit allra sem rætt var við að úrbætur í vegamálum væri forsenda þess að beina megi fleiri ferðamönnum inn á svæðið.