Eftirfarandi grein Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra birtist á vefnum bb.is og í blaðinu Bæjarins besta á Ísafirði. Þar fjallar hann um vegaframkvæmdir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum.
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að sporna við verðbólgu eru óumflýjanlegar. Við núverandi aðstæður í verðlagsmálum var það skylda ríkisstjórnarinnar að senda skýr skilaboð inn á fjármálamarkaðinn að hægja þurfi á m.a. með því að draga tímabundið úr opinberum framkvæmdum. Eins og við var að búast veldur það mörgum vonbrigðum að fresta þurfi framkvæmdum, ekki síst við vegagerð. Á það ekki síður við um íbúa Vestfjarða, sem aðra landsmenn, sem fögnuðu áformum um miklar framkvæmdir samkvæmt samgönguáætlun og horfðu fram á betri tíð með bættum vegasamgöngum. En hækkandi verðbólga ógnar afkomu heimilanna í landinu og því verðum við að láta það ganga fyrir að hemja verðbólguna og tryggja stöðugleikann.
Verðbólguna verður að stöðva
Þeir sem muna tímabil óðaverðbólgunnar geta ekki hugsað sér að upplifa það ástand aftur. Því varð ríkisstjórnin að ganga hart fram og leita allra leiða til þess að stöðva verðbólguskriðuna sem komin er af stað. En hvað veldur þessari þróun? Allir vita að í landinu eru mestu framkvæmdir sögunnar á sviði stóriðju sem og vatnsafls- og gufuaflsvirkjana. Áhrif þeirra framkvæmda voru fyrirséð og áttu ekki að hafa svo mikil áhrif og þær framkvæmdir verða ekki stöðvaðar. Það sem hins vegar hratt af stað skriðu verðhækkana og spennu með verðbólguskoti var sá hrunadans húsbygginga á höfuðborgarsvæðinu sem hófst með því að Íbúðalánasjóður og síðan bankarnir hófu að lána stjórnlaust til íbúðakaupa og íbúðabygginga svo nam allt að 90% byggingarkostnaðar. Jafnvel voru dæmi um að allt verð íbúðarhúsnæðis væri fjármagnað með lánum. Þetta kosningaloforð varð því til að hrinda af stað mikilli óheillaþróun í verðagsmálum sem nú er verið að bregðast við. Og ég held að flest allir viðurkenni það og sjái núna að Íbúðalánasjóður og bankarnir fóru offari í útlánum og spenntu upp byggingamarkaðinn með fyrrgreindum afleiðingum.
Hlutur sveitarfélaga
Sveitarfélögin, eins og bankarnir, eru miklir áhrifavaldar um þróun á vinnumarkaði og verðbólgunnar í landinu. Því beinir ríkisstjórnin því til sveitarstjórnanna að þær dragi saman seglin á meðan framkvæmdakúfurinn við virkjanir gengur yfir. Flestar sveitarstjórnir hafa tekið þessu vel og fagna í raun og veru aðgerðum ríkisstjórnarinnar, því sveitarfélögin þurfta að draga saman seglin í framkvæmdum eftir mikið þensluskeið framkvæmda á síðasta kjörtímabili. Nú skiptir miklu máli að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi frumkvæði að því að ramma inn samræmdar aðgerðir sveitarfélaganna í landinu svo ríkisstjórnin geti tekið ákvörðun um það hvenær einstök mjög mikilvæg verkefni á sviði samgöngumannvirkja geta farið í útboð án þess að það raski stöðugleika og ógni þeim friði á vinnumarkaði sem komið hefur verið á.
Unnið verður að undirbúningi verka sem ekki eru tilbúin
Þegar ákvörðunin um frestun framkvæmda var tilkynnt gaf ég, sem samgönguráðherra, jafnframt þau fyrirmæli að halda ætti áfram undirbúningi þeirra framkvæmda sem samgönguáætlun gerði ráð fyrir að ættu að hefjast í ár og á næsta ári. Með því vinnulagi væri hægt að setja af stað útboð með stuttum fyrirvara. Það er vert að minna á það hvað varðar framkvæmdir við vegagerð á Vestfjörðum að það var samgönguráðherra sem lagði fram samgönguáætlun og fékk hana samþykkta. Eftir henni er unið. Með þessari samgönguáætlun og með auknum fjármunum vegna sölu Símans var hægt að hefja undirbúning að þeim verkum í vegagerð sem nú eru mest umrædd. Og nú vildu allir Lilju kveðið hafa og tala fjálglega um nauðsyn þess að ljúka sem fyrst þeirri vegagerð sem samgönguáætlun gerir ráð fyrir. Þar er um að ræða brú yfir Mjóafjörð og Reykjafjörð og lok vegagerðar í Ísafjarðardjúpi, nýjan veg um Arnkötludal (sem sumir vilja kalla Stranddalaveg), endurbyggingu vegar um Svínadal og endurbyggingu Vestfjarðarvegar í Gufudalssveit þar sem gert er ráð fyrir þverun fjarðanna sem mun bæði stytta leiðina mikið og tryggja vetrarfæran veg.
Víða mikil þörf fyrir vegagerð
Um allt land er kallað eftir fjármunum til vegagerðar og gildir það ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem háværustu kröfugerðarhóparni eru. Og samgönguráðherrann er m.a. skammaður af forsvarsmönnum Samfylkingarinnar fyrir að leggja of mikla áherslu á vegagerð úti á landi. Það er ástæða til þess að minna Vestfirðinga á að það er í tíð núverandi samgönguráðherra sem þessar miklu framkvæmdir komust á hönnunar- og framkvæmdastig og jarðgöng til Bolungarvíkur eru innan seilingar sem munu bylta búsetuskilyrðum í Bolungarvík. Næsta stórvirkið verða síðan jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Á þá framkvæmd mun ég leggja mikla áherslu í samgönguáætlun og vænti þess að njóta stuðnings til þess frá öllum Vestfirðingum að koma þeirri framkvæmd af stað enda verður þá séð fyrir endann á þeim verkum sem að framan eru nefnd. Það er sanfæring mín að árin 2007 og 2008 verði ár hinna stóru framkvæmda í samgöngumálum á Vestfjörðum