Varla hefur farið fram hjá nokkrum manni sú mikla umræða sem verið hefur um framtíð Reykjavíkurflugvallar að undanförnu. Hér á eftir er að finna grein ráðherra sem skrifuð er, eins og fyrirsögnin ber með sér, að gefnu tilefni um flugvöllinn.
I. Fram hefur komið í fréttum að borgarstjórinn í Reykjvík hafi falast eftir landi í Vogunum fyrir flugvöll sem gæti verið valkostur fyrir borgarbúa þegar kemur að því að kjósa í Reykjavík um framtíð innanlandsflugsins. Flugvelli í Vatnsleysustrandarhreppi (sunnan Hafnarfjarðar!) væri ætlað að þjóna innanlandsfluginu. Þessi formlega beiðni borgarstjórans í Reykjavík sem tekin var fyrir í hreppsnefnd Vatnleysustrandahrepps kom okkur í samgönguráðuneytinu mjög á óvart. Rétt er að minna á að ríkissjóður kostar byggingu flugvalla og greiðir allan rekstur þeirra. Engin áform eru uppi um að byggja nýjan flugvöll fyrir innanlandsflugið. Sem samgönguráðherra hef ég lýst því yfir að ekki komi til greina að leggja í þá fjárfestingu sem fylgir að byggja upp sérstakan flugvöll fyrir innanlandsflugið. Taki stjórnendur höfuðborgarinnar þá afstöðu að breyta aðalskipulaginu og leggjast gegn flugvellinum í Vatnsmýrinni mun inanlandsflugið verða flutt til Keflavíkur að loknu því skipulagstímabili sem gerir ráð fyrir flugvellinum í Vatnsmýrinni. Þessi afstaða mín og ráðuneytisins er byggð á ítarlegri umfjöllum flugmálastjóra og Flugráðs um málið.

II. Árum saman stóðu deilur um nauðsyn þess að endurbyggja Reykjavíkurflugvöll. Það voru því mikil tímamót þegar samþykkt var á Alþingi að leggja fjármuni til endurbyggingar vallarins og tækjabúnaðar við völlinn vegna aðflugs og öryggisþátta. Um mitt sumar árið 1999 var gert samkomulag milli mín og borgarstjórans í Reykjavík vegna endurbyggingar Reykjavíkurflugvallar og umferðar um hann og færslu kennsluflugs. Í kjölfar þessa samkomulags samþykkti borgarstjórn deilskipulag af vallarsvæðinu og veitti byggingarleyfi vegna framkvæmda við Reykjavíkurflugvöll. Þá var samið við verktaka um framkvæmdirnar sem hófust þá þegar og standa enn. Flugbrautirnar verða sem nýjar að framkvæmdum loknum og allur ljósa- og aðflugsbúnaður einnig. Allar þessar miklu endurbætur munu auka öryggi til muna fyrir flugið um Reykjavíkurflugvöll.

III. Í samræmi við samkomulagið við borgarstjóra og skipulagið af flugvallarsvæðinu hefur verið unnið deiliskipulag af svæðinu sem nú er innan marka flugvallarins. Hefur það verið kynnt opinberlega. Það skipulag gerir ráð fyrir miklum breytingum. Samkvæmt því er suðvestur-norðausturbrautin er lögð niður og gert ráð fyrir að færa alla starfsemi flugsins austur fyrir flugbrautirnar á svæðið þar sem flugturnin, flugstjórnarmiðstöðin og Loftleiðahótelið er í dag. Gert er ráð fyrir nýrri flugstöð sunnan við Flugturninn í skipulagi borgarinnar. Það eru því ekki mínar hugmyndir eins og haft var eftir borgarfulltrúa í fjölmiðlum. Með þessu skipulagi opnast mikið svæði nærri Háskóla Íslands fyrir nýja byggð. Einnig í Skerjafirðinum og neðan Landspítalalóðanna. Jafnframt er gert ráð fyrir miklum umhverfisumbótum við flugvallarsvæðið og er ekki vanþörf á því. Með því að vilja flugvöllinn burt úr borginni eru þessi áform öll sett í uppnám. Verði flugvöllurinn að fara úr höfuðborginni að loknu skipulagstímabilinu er ekkert vit í því að gera neitt annað en að endurbæta brautirnar og öryggisbúnaðinn. Stefnt er að því að ljúka því að mestu á þessu ári.

IV. Verði það niðurstaðan að flugvöllurinn fari úr höfuðborginni hlýtur að koma til skoðunar að færa æfinga og kennsluflugið strax til Keflavíkur og falla frá áformum um sérstaka kennslu- og æfingabraut og aðstöðu fyrir einkaflugið. Flugkennslan mundi þá ásamt rekstri flugskólanna færast á Suðurnesin. Þessa hlið flugvallarmálsins verður að ræða og taka afstöðu til hennar.

V. Talsmenn flugfélaganna sem sinna inanlandsflugi og einnig björgunar- og sjúkraflugi hafa varað við því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Í umræðum um framtíð flugvallarins virðast hagsmunir þeirra sem hafa atvinnu af flugstarfseminni ekki skipta máli. Flugstarfsemin er verulegur hluti ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan er í dag næststærsta atvinnugrein þjóðarinnar þegar miðað er við gjaldeyristekjur. Hvergi á byggðu bóli utan höfuðborgarinnar kæmust stjórnendur sveitarfélags upp með slíka háttsemi gagnvart jafn mikilvægri atvinnugrein sem ferðaþjónustan er í Reykjavík.

VI. Stofnuð hafa verið samtök gegn Reykjavíkurflugvelli. Þeim samtökum er beint gegn íslenskri ferðaþjónustu og gegn hagsmunum landsbyggðarinnar sem eiga mikið undir góðum samgöngum við höfuðborgina. Þessum samtökum virðist fjarstýrt af forseta borgarstjórnar sem er nánasti samstarfsmaður borgarstjóra. Flest bendir til að R-listinn hafi tekið um það pólitíska ákvörðun að þá samgönguþjónustu, sem flugvöllurinn í raun veitir, eigi að leggja af í höfuðborginni Reykjavík.

Ljóst er að umræðan um framtíð Reykjavíkurflugvallar mun ná hámarki nú í aðdraganda fyrirhugaðrar atkvæðagreiðslu. Von mín er sú að hún verði til þess að öll áform borgaryfirvalda um flutning flugvallarins úr Vatnsmýrinni verði lögð á hilluna.