Umræðan um prófkjör sjálfstæðismanna í hinu nýja Norðurlandskjördæmi vestra hefur ekki farið framhjá neinum. Nokkuð finnst mér hún þó hafa verið á einn veg. Einn af frambjóðendum er nánast daglega í fjölmiðlum og lýsir því aftur og aftur yfir að sigrinum hafi verið stolið af sér. En hvernig má það vera?
Ég tel mig ekki vera málpípu Sjálfstæðisflokksins en ég er stuðningsmaður Sturlu Böðvarssonar í þessu prófkjöri án þess að hafa á nokkurn hátt unnið fyrir hann með öðru en atkvæði mínu. Þegar ég fluttist vestur á Snæfellsnes fyrir rúmum sjö árum hafði ég misst áhuga á pólitík sem kom ekki til af góðu. Eitt var ég þó sannfærður um að við kosningar myndi ég ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Fljótt komst ég að raun um að á landsbyggðinni snýst pólitík um menn en ekki flokka. Í sveitarstjórnarkosningum var margt ágætisfólk í framboði en ég taldi að þeir aðilar sem voru í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn væru mér mest að skapi. Sama gerðist í landspólitíkinni. Margt ágætisfólk í framboði en ég kaus að fylgja Sjálfstæðisflokknum eftir að hafa kynnst Sturlu Böðvarssyni, sem ég tel nánast vera of vandaðan mann til að vera í pólitík en það er önnur saga. Ég vil tíunda framangreint til að framhaldið skiljist.

Áður en kosið var í prófkjöri sjálfstæðismanna í Norðurlandskjördæmi vestra hafði ég nokkurt samband við kosningaskrifstofu Sturlu í Borgarnesi því ég vildi fylgjast með gengi míns manns. Verandi KR-ingur og nú Jöklari vildi ég að sjálfsögðu að hann sigraði. Mér var sagt að það væri samkomulag milli þingmanna hins nýja kjördæmis að hvetja stuðningsfólk sitt til að stilla upp sterkum lista. Vandinn var auðvitað sá að í framboði voru fimm vel vænir „lambhrútar“ og það þurfti að fella tvo. Mér sagt að „lambhrútarnir“ skildu það og væru tilbúnir að leggja málið undir dóm fólksins í kjördæminu. Ég spurði hvað ég gæti gert til að mitt atkvæði kæmi Sturlu sem best. Kjósa hann í fyrsta sæti og síðan þá af hinum sem ég teldi styrkja listann sem best. Skoðum svo útkomuna.

Aðeins frá Snæfellsnesi, Dölum og Borgarbyggð komu eðlilegir kjörseðlar. Það er að segja, þar var „lambhrútunum“ stillt í efstu sæti, í mismunandi röð að sjálfsögðu, en voru þó í fyrstu sex sætunum. Hið sama var ekki upp á teningnum á Akranesi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Telja má að Snæfellsnes, Dalir og Borgarbyggð séu höfuðvígi Sturlu. Á þessu svæði Vesturlands var kosningaþátttaka líka eðlileg miðað við fylgi flokksins almennt. Um 950 manns kusu í prófkjörinu á Snæfellsnesi en í síðustu sveitarstjórnarkosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn þar um 1.200 atkvæði. Hið sama er ekki að segja á hinum svæðunum innan hins nýja kjördæmis. Öfgafyllst var þó dæmið á Norðurlandi vestra þar sem mun fleiri kusu í prófkjörinu en höfðu kosið Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum.

Akranes er kapítuli út af fyrir sig. Þar skiluðu sér rúm 1.200 atkvæði, sem er ívið meira en skilaði sér til Sjálfstæðisflokksins í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Guðjón Guðmundsson fékk um 1.150 atkvæði í fyrsta sæti. Ekki getur Sturla hafa staðið að launráðum með Guðjóni að svona kosningu? Eða dettur nokkrum manni í hug að þetta sé eðlilegt? Búið er að gera tugi atkvæða ómerk á Akranesi vegna uppþots Vilhjálms Egilssonar sem telur að á Akranesi hafi sigrinum verið stolið af sér. Hvað mætti Sturla segja? Þetta er þó hans „svæði“ og hreint út sagt ótrúlegt að hann skyldi ekki fá fleiri atkvæði á Akranesi en raun ber vitni. Allir heilvita menn hljóta að sjá að ef einhver hefði fengið atkvæði á Akranesi í fyrsta sæti fyrir utan Guðjón Guðmundsson eru mun meiri líkur á að það hefði verið Sturla Böðvarsson en ekki Vilhjálmur Egilsson.

Nokkrum dögum fyrir prófkjörið frétti ég af afspurn af miklum óróleika á Akranesi og leitaði þá upplýsinga á kosningaskrifstofu Sturlu um hvernig hann hygðist taka á málunum þar sem ljóst var að samkomulag um sterkan lista virtist vera að bresta. Mér var sagt að Sturla vildi að staðið væri við þá stefnu að móta sterkan lista og ef til þess kæmi myndi hann þá falla með sæmd. Þetta er sá maður sem ég þekki. Þrátt fyrir öll bellibrögð hjá stuðningsmönnum annarra frambjóðenda var minn maður í efsta sæti og getur borið höfuðið hátt. Að mínu mati er enginn betur til þess fallinn að stýra Sjálfstæðisflokknum í hinu nýja kjördæmi en Sturla Böðvarsson.

Hann hefur lítið látið á sér bera í þessu moldryki sem fjölmiðlar hafa þyrlað upp með Vilhjálm Egilsson í fararbroddi. Vilhjálmur hefur farið svo langt að ásaka Sturlu hvað eftir annað um að hafa stolið af sér sigrinum, án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt. Þeir sem vilja skoða tölur og aðstæður geta séð að verið er að gera tilraun til að hengja bakara fyrir smið.

Vestlendingar! Ég skora á ykkur að standa með okkar manni og láta ekki menn, sem geta ekki tekið ósigri, vaða uppi með gífuryrði.