Á hinum ágæta Þingeyrarvef, og í kjölfar þess á bb.is, mátti fyrir skömmu lesa frétt þess efnis að lenging Þingeyrarflugvallar væri „komin aftur á dagskrá“.
Í fréttinni er látið að því liggja að fyrirhuguð lenging brautarinnar væri komin í samgönguáætlun fyrir sérstaka áeggjan þingflokksformanns framsóknarmanna, Kristins H. Gunnarssonar og að þingheimur allur (fyrir utan reyndar þingmenn Samfylkingarinnar) hefði fallist á málið í kjölfar vaskrar framgöngu þingflokksformannsins.
Staðreyndir málsins eru þær að umtalsverðir fjármunir voru eyrnamerktir til uppsetningar næturlýsingar við Ísafjarðarflugvöll. Þegar fyrir lá, á grundvelli ítarlegra rannsókna danskra sérfræðinga, að ekki væri raunhæft miðað við núverandi tækni á þessu sviði að koma upp næturflugsbúnaði við Ísafjarðarflugvöll lagði Flugráð til að frekar yrði byggð upp flugbrautin á Þingeyri svo flug til Ísafjarðarbæjar yrði tryggt sem frekast væri unnt.
Þessi niðurstaða þótti mér strax skynsamleg. Með henni er í raun verið að gera þessa tvo flugvelli að einum, ef svo má segja. Flugbrautinar tvær, þ.e. á Ísafirði og á Þingeyri, eru nú í raun sín hvor brautin á sama flugvellinum. Því var það með fullum vilja mínum og í fullu samráði við mig sem sú breytingartillaga var gerð í meðförum Alþingis að fjármunir þeir sem ætlaðir höfðu verið til uppbyggingar næturflugsbúnaðar við flugbrautina á Ísafirði voru færðir til lengingar flugbrautarinnar á Þingeyri.
Með þessari ákvörðun er stigið stórt skref í áttina að auknu öryggi í flugi til Ísafjarðarbæjar, áætlanir ættu að geta staðist mun betur en verið hefur og þar með er betur búið að þörfum atvinnulífs og einstaklinga á svæðinu er svo mjög treysta á öruggar og tíðar flugsamgöngur.
Aðkoma þingflokksformanns Framsóknarflokksins að þessu máli var því engin, ekki nema sú að nefna nauðsyn þessarar lengingar við meðferð samgönguáætlunar á Alþingi og svo að greiða henni atkvæði sitt – líkt og aðrir þingmenn ríkisstjórnarmeirihlutans á Alþingi.