Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands var haldinn föstudaginn 21. nóvember 2003, á veitingastaðnum Ránni í Reykjanesbæ.

Góðir gestir. Ég vil byrja á að þakka góð viðbrögð við ræðu minni á ferðamálaráðstefnunni í Mývatnssveit í síðasta mánuði.

Á næsta ári mun Ísland vera í formennsku í Norðurlandaráði og hefur samgönguráðuneytið í fyrsta sinn birt formennskuáætlun sína í sérstökum bæklingi.

Á þeim vettvangi er sjónum manna í auknum mæli beint að ferðaþjónustu sem vaxandi atvinnugrein ef rétt er á málum haldið. Samgönguráðuneytið leggur áherslu á að á þessum vettvangi verði stuðlað að gerð samnorrænnar stefnumótunar á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Hér er um gríðarlega víðfeðmt verkefni að ræða og hefur þegar verið unnið mikið starf á ýmsum sviðum nátengdum þessu málefni. Það er því nauðsynlegt að afmarka verkefnið við skýrt afmarkaða og sameiginlega þætti úr menningu Norðurlandanna, í fortíð, nútíð og framtíð.

Einnig verður lögð áhersla á frekari vinnu við stefnumörkun í sjálfbærri ferðaþjónustu á norðurskautssvæðum og að hrinda í framkvæmd aðgerðaráætlun tengdri þessari stefnu. Hér er um þýðingarmikið mál að ræða þar sem ferðaþjónustan getur tengt okkur saman og um sameiginlegar hugmyndir er að ræða. Þá skal stefnt að því að tryggja að Norðurlöndin verði í fararbroddi í aðgengismálum hreyfihamlaðra á ferðamannastöðum.

Nú er stutt í að Norðurbryggja, eða Bryggjan, í Kaupmannahöfn verður opnuð en þar mun Ferðamálaráð Íslands vera með sérstaka landkynningarskrifstofu. Landkynningarskrifstofan á Norðurbryggju markar nýja tíma og nýjar áherslur með öflugri útrás á Norðurlöndum og í Evrópu.

Ég hvet Ferðamálasamtök Íslands til að huga að því hvaða möguleikar kunni að felast í þessu skrefi fyrir ferðaþjónustuna enda Norðurlöndin gríðarlega þýðingarmikill markaður.

Viðamesta verkefnið á formennskuári Íslands verður heildarúttekt á samgöngum innan „Vest-Norden“ en á þeirri úttekt munu ríkisstjórnir landanna þriggja væntanlega byggja frekari ákvarðanir um flug innan svæðisins.

Stöðvun flug Air Greenland til Akureyrar hefur verið nokkuð til umræðu upp á síðkastið en þegar félagið óskaði eftir að fá að fljúga hingað til lands veittu íslensk stjórnvöld félaginu mjög rúm réttindi. Íslenskir flugrekendur gerðu athugasemdir við þetta en mótmæltu þó ekki formlega. Óánægja þeirra byggðist á því að gagnkvæmni ríkti ekki á milli samningsaðila, þ.e. íslensk félög fengu ekki sömu réttindi til að fljúga til Grænlands. Af þessum sökum fóru fulltrúar samgönguráðuneytis og flugrekenda á fund með dönskum samgönguyfirvöldum. Á þeim fundi var ekki fallist á óskir um endurskoðun á loftferðasamningi þjóðanna með tilliti til gagnkvæmni. Samningurinn er frá árinu 1950. – Stöðvun flugsins á milli Akureyrar og Kaupmannahafnar byggðist þó ekki að neinu leyti á þessu heldur eingöngu viðskiptalegum forsendum eftir því sem ég hef upplýsingar um.

Nauðsynlegt er að horfa enn frekar til framtíðar og skilgreina þau fjölmörgu verkefni sem bíða ferðaþjónustunnar svo hún megi halda mikilvægri stöðu sinni sem gjaldreyrisskapandi atvinnugrein. Það var því fyrir tveimur árum að ég skipaði nefnd um framtíð ferðaþjónustunnar og fékk henni það stóra verkefni að horfa allt fram til ársins 2030 og leitast við að meta þá sýn sem við blasir og leggja á ráðin um nauðsynlegar aðgerðir svo ferðaþjónusta megi vaxa í sátt við umhverfi landsins.

Tillögur nefndarinnar liggja nú fyrir í skýrslunni Íslensk ferðaþjónusta, framtíðarsýn – og er það von mín að hér sé kominn grunnur til að byggja á nýja stefnu í ferðaþjónustu.

Með þessari skýrslu framtíðarnefndar, skýrslunni um menningartengda ferðaþjónustu, skýrslunni um heilsutengda ferðaþjónustu og skýrslunni um Auðlindina Ísland tel ég að grundvallarvinnu fyrir stefnumótun íslenskrar ferðaþjónustu liggi fyrir. Við erum komin á framkvæmdastigið.

Ég hef nú skipað þriggja manna stýrihóp og fengið honum það verkefni að fara í gegnum áðurgreinda vinnu og leggja drög að nýrri ferðamálaáætlun sem ég hyggst leggja fram á Alþingi á næsta þingi. Formaður hópsins er Magnús Oddsson, ferðamálastjóri en auk hans eru Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu ferðamála í samgönguráðuneytinu og Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF í hópnum.

Á vegum stýrihópsins starfa síðan fleiri aðilar sem fá það viðamikla verkefni að vinna tillögur til stýrihóps um þann hluta ferðamálaáætlunar sem snýr að skipulagi, verkefnum og hlutverki stjórnsýslu og annarra þjónustuþátta íslenskrar ferðaþjónustu og gera tillögur um breytt lagaumhverfi greinarinnar samkvæmt mati stýrihópsins.
Ferðamálaráð mun ráða starfsmann stýrihópsins sem m.a. mun halda úti heimasíðu þar sem ALLIR geta komið á framfæri hugmyndum sínum um stefnumótunina.

Stýrihópurinn er fámennur en ráðuneytið hefur einnig óskað eftir tilnefningum hagsmunaaðila fyrir sérstakan 20 manna samráðsvettvang. Þeir sem tilnefna fulltrúa á þennan vettvang eru Ferðamálasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, SAF og stjórnmálaflokkarnir.

Í nýju fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir 320 milljónum króna til markaðssóknar í íslenskri ferðaþjónustu og eru þeir fjármunir enn á ný hrein viðbót við það fé sem Ferðamálaráð hefur úr að spila vegna markaðsstarfs á erlendum vettvangi og þess sem fer til ferðamálasamtaka landshlutanna.

Í ljósi góðrar reynslu munu þessir fjármunir fara í sérstakt markaðsátak undir stjórn ferðamálastjóra og forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs. Reikna ég með að umfangsmikilli auglýsinga- og kynningarherferð verði hrundið af stað á hefðbundnum markaðssvæðum, en að einnig verði stutt við markaðsstarfið í Japan, sem gefur miklar vonir, og er farið að skila sér. – Skrifstofa Ferðamálaráðs mun bjóða út fjármuni til samstarfsverkefna og leitast þannig við að tvöfalda það fjármagn sem kemur frá hinu opinbera. Þetta hefur nú verið gert tvisvar sinnum og gafst mjög vel þó að borið hafi á óánægju hjá þeim sem ekki náðu samningum.

Samgönguráðuneytið hefur lagt áherslu á skýrari reglur svo ekki fari á milli mála hvaða kröfur þarf að uppfylla til að samstarf um landkynningu komist á með fjármunum úr ríkissjóði. Ferðamálastjóri hefur ákveðið að halda kynningarfundi um málið, lengja umsóknarfrestinn verulega og með því að útbúa sérstök umsóknareyðublöð svo ekki fari á milli mála um hvað málið snýst. Auglýsingin verður birt í næstu viku og hvet ég fundarmenn til að reyna með öllum ráðum að stofna til samstarfs við Ferðamálaráð um kynningu á svæði sínu eða fyrirtæki.

Ákveðið hefur verið að auglýsa síðar eftir samstarfsaðilum vegna innlendrar kynningar og hvet ég fundarmenn til að hyggja ekki síður að þeim möguleikum sem þar felast.

Með breyttu ferðamynstri hefur þýðing upplýsingamiðstöðva aukist gríðarlega en með því á ég við fjölgun ferðamanna á eigin vegum sem margir hverjir hafa ekki skipulagt dvöl sína út í æsar og þurfa mikla þjónustu.

Reykjavíkurborg opnaði á þessu ári öfluga upplýsingamiðstöð ferðamanna og heyrir hún undir Höfuðborgarstofu. Eftir að Reykjavíkurborg ákvað að draga sig út úr samstarfi innan Markaðsráðs ferðaþjónustunnar beitti ég mér fyrir því að Ferðamálaráð og Höfuðborgarstofa gerðu með sér samkomulag um aðkomu ríkisins að rekstri stöðvarinnar enda mikilvægt að ferðaþjónustan á öllu landinu eigi aðkomu að þessari þýðingarmiklu upplýsingamiðstöð og borgin komi þannig til samstarfs að nýju sem nýtist á landsvísu. Ég reikna með að samningurinn um upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík verði framlengdur og þá helst til nokkurra ára.

Að sama skapi tel ég mikilvægt að landshlutamiðstöðvarnar sem nú fá rekstrarframlög frá Ferðamálaráði geti gert samninga til tveggja eða þriggja ára í senn – í stað eins árs eins og nú er.

Í nýrri úttekt Byggðastofnunar á rekstrarumhverfi upplýsingamiðstöðva kom m.a. fram að þær standa víða á brauðfótum og eru varla samkeppnishæfar um mannafla vegna þess hver reksturinn er ótryggur frá ári til árs.

Frá árinu 1999 hafa framlög til Ferðamálasamtaka landshlutanna – og þar af leiðandi til upplýsingamiðstöðva – aukist hröðum skrefum. Þau voru 8 milljónir 1999 en 31 milljón á þessu ári. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2004 er hins vegar um nokkra skerðingu að ræða. Hvernig sem því máli lýkur þá vil ég beita mér fyrir að stórauka framlag ferðamálayfirvalda til reksturs upplýsingamiðstöðva – Í ráðuneytinu er unnið að því að leita leiða til að svo megi verða þegar á næsta ári.

Til þess að ferðaþjónustan hafi möguleika á að þróast sem atvinnugrein í nútímalegu samkeppnisumhverfi þurfa innviðirnir að vera í lagi. Hér á ég við fjölmarga hluti en stórátak hefur verið gert í vegamálum og áfram verður unnið að mikilvægum vegabótum á kjörtímabilinu. Jafnframt mun samgönguráðuneytið standa fyrir sérstökum umferðaröryggisaðgerðum á þjóðvegakerfinu á þessu kjörtímabili. Gert verður sérstakt átak í að sníða af hættulega kafla á vegakerfi landsins og bæta merkingar á vegum um allt land.

Auk þess er margt í innviðum sem þarf að bæta m.a. á sviði samgangna og fjarskipta. Samgönguáætlun gerir ráð fyrir miklum framkvæmdum, sem bæta stöðu ferðaþjónustunnar, og það er mér kappsmál að símafyrirtækin í landinu taki við sér og sjái sér hag í því að efla þjónustuna um allt land svo aukin flutningsgeta á Internetinu og farsíminn geti, í samræmi við kröfur nútímans, verið það atvinnu- og öryggistæki sem ferðamenn og aðilar í ferðaþjónustu um allt land geta treyst á.

Stórátak hefur verið gert í vegamálum og áfram verður unnið að mikilvægum vegabótum á kjörtímabilinu. Jafnframt mun samgönguráðuneytið standa fyrir sérstökum umferðaröryggisaðgerðum á þjóðvegakerfinu á þessu kjörtímabili en samgönguráðuneytið hefur nú tekið við nýjum málaflokki: umferðarmálum, sem áður heyrðu undir dómsmálaráðuneytið.

Fé til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum hefur aukist hröðum skrefum undanfarin ár. Það er grundvallaratriði fyrir atvinnugrein, sem gerir að svo miklu leyti út á náttúruskoðun, að náttúruperlur skaðist ekki. Vegagerðin hefur víða komið að verkefnum með Ferðamálaráði og legg ég áherslu á að sú góða samvinna haldist og að lágmarksþjónusta verði á öllum fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins, en þá á ég við bílastæði, göngustíga, merkingar og snyrtiaðstöðu þar sem við á.

Á þessu ári hófst samstarf um byggðamál í tengslum við byggðaáætlun og er markmiðið að styðja sérstaklega við uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni næstu þrjú árin a.m.k.

Fundargestir. Ferðaþjónustan stendur í miklum blóma víðast hvar en stríðir eðlilega við ýmis vandamál sem einkum tengjast miklum fjárfestingum og litlum viðskiptum yfir veturinn. Ráðuneytið er einnig í samstarfi við önnur ráðuneyti, sveitarstjórnir og einkafyrirtæki um eflingu hestatengdrar ferðaþjónustu og er ég þar að vísa til samstarfssamninga um rekstur Hestamiðstöðvar og Umboðsmanns íslenska hestsins.

Að lokum óska ég ykkur öllum góðs aðalfundar og ánægjulegrar dvalar hér í Reykjanesbæ. Ferðamálasamtökum Íslands óska ég farsældar í störfum sínum.