Í morgun ávarpaði ráðherra aðalfund SAF, samtaka ferðaþjónustunnar. Ávarp ráðherra fer hér á eftir. Í kvöld situr ráðherra kvöldverðarhóf SAF á Hótel Loftleiðum.
Fundarstjóri, góðir fundarmenn!

Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa þennan aðalfund Samtaka ferðaþjónustunnar. Það er mikilvægt hve ötullega samtökin hafa unnið að ýmsum hagsmunamálum greinarinnar og er enginn vafi á því í mínum huga að stjórnvöld hafa með þessum samtökum fengið verðugan og öflugan samstarfsaðila. Og ég hef þegar orðið þess rækilega var að forsvarmenn samtaka ykkar beita sér í þágu greinarinnar. Samstarf okkar hefur þegar borið árangur.

Það ætti engum að dyljast að ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein hér á landi eins og víða annars staðar í veröldinni. Fjöldi ferðamanna eykst hröðum skrefum hér á Íslandi og mun hraðar en í flestum nágrannalöndum okkar. Við erum að sjá meir en 10% fjölgun erlendra ferðamanna á milli. Sama má segja um gjaldeyristekjurnar. Þær eru að skríða fram úr stóriðjunni og er greinin að ná 2. sætinu í kapphlaupi atvinngreinanna hvað gjaldeyrissköpun varðar.

Samt erum við ekki fullkomlega ánægð, við vitum að það er ýmislegt að, margt má betur fara. Er ég þá fyrst og fremst með tvennt í huga; afkomu fyrirtækjanna í greininni og það hve illa við erum að nýta fjárfestingu í mannvirkjum og atvinnutækjum ferðaþjónustunnar utan höfuðborgarsvæðisins. Þær eignir gefa ekki nægar tekjur til þess að standa undir fjárfestingarkostnaði.
Við það verður ekki unað.

En hvað sem því líður er það deginum ljósara að án stöðugleika í efnahagslífinu er þetta vonlaus barátta, það þekkja þeir sem glímt hafa við sveiflur í gengi og verði. Ég á von á að umfjöllun hér á fundinum komi nánar inn á þessa þætti.

Gæðamál ferðþjónustunnar og kynningarstarf í þágu greinarinar inanlands og utan eru og eiga að vera stöðugt til umræðu. Ég tel mig hafa lagt nokkur lóð á vogarskálarnar með þeirri aukningu sem orðið hefur á framlögum Alþingis til verkefna Ferðamálaráðs.

Þar má nefna framlög til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum og til upplýsingamiðstöðva í gegnum Ferðamálasamtök Íslands. Hvort tveggja er vonandi í þágu aukinna gæða og þess að greinin fái að blómstra í framtíðinni í samræmi við nútímalegar hugmyndir um sjálfbæra þróun.

Þá er ástæða til þess að minna á framlög til Markaðsráðs og til Kynningar í Norður Ameríku í samstarfi við Flugleiðir, Bændasamtökin, fisksölufyrirtækin og utanríkisráðuneytið. Til þeirra verkefna er varið úr Ríkissjóði u.þ.b. eitthundrað milljónum sem er viðbót frá því sem áður hefur verið veitt til ferðamála.

Flokkun gististaða er mikilvægt framfaraspor hjá ferðaþjónustunni og vona ég að sem flestir gististaðir verði með í flokkuninni svo hægt sé að fá heildstæða mynd af framboðinu hér á landi. Ég held að flokkunin hljóti að hvetja fólk til dáða í gæðamálunum auk þess sem þetta er sjálfsögð þjónusta við ferðamanninn.

Á öllum sviðum atvinnulífsins eru rannsóknir að verða mikilvægur hluti árangursríkrar framþróunar atvinnulífsins. Ég tel það því dýrmætt fyrir greinina að nú eru rannsóknir orðnar lögbundið verkefni Ferðamálaráðs. Hef ég þá trú að í auknum mæli muni þessi grein, líkt og aðrar, treysta á rannsóknir þegar stórar sem smáar ákvarðanir um framtíðaruppbyggingu eru teknar sem og í markaðsmálum.

Hvetja verður til þess að aukið fjármagn verði sett til rannsóknarverkefna ferðaþjónustunnar.

Nú liggja fyrir Alþingi lagafrumvörp sem tengjast ferðaþjónustunni. Fyrst vil ég nefna frumvarp um flutning leiðsögunáms frá samgönguráðuneyti til menntamálaráðuneytis sem á vonandi eftir að verða til að efla það nám. Til þessa hefur forræðið í raun verið hjá báðum þessum ráðuneytum. Ég taldi heppilegra að framkvæmd og ábyrgð væri á sömu hendi og þessi menntun sem önnur væri undir ráðuneyti menntamála.

Alþingi hefur einnig til meðferðar frumvarp til breytinga á lögum um veitinga- og gististaði og er með því verið að bregðast við breyttu umhverfi í skemmtanahaldi landsmanna – og auðvitað ferðamanna – með tilkomu kráa, kaffihúsa og svokallaðra nektardansstaða. Frumvarpinu er ekki ætlað að stöðva rekstur nektarstaða heldur gefa sveitarstjórnum færi á að stjórna því hvar slík starfsemi fer fram og koma í veg fyrir að leyfi verði veitt þeim aðilum sem ekki standa skil á lögboðnum gjöldum og safna upp skuldum. Ég stefni síðan að því að láta hefja heildar endurskoðun á lögum um veitinga- og gististaði sem eru barn síns tíma.

Þriðja frumvarpið varðar sérstaka löggjöf um bílaleigur og mun ég mæla fyrir því í næstu viku. Starfsemi bílaleiga heyrir samkvæmt því undir samgönguráðuneytið. Verði þetta frumvarp að lögum verður breyting á leyfismálum. Tengist það áformum um að breyta aðflutningsgjöldum af bílaleigubílum til verulegrar lækkunar. Ætti það að geta orðið til þess að lækka kostnað og um leið lækka verð á bílaleigubílum. Er þar á ferðinni mál sem forsvarsmenn ferðaþjónustunnar hafa lengi barist fyrir. Er þess að vænta að þetta frumvarp verði að lögum fyrir vorið.

Þótt ég sé því ekki fylgjandi að setja alla skapaða hluti í lög eða reglugerðir er þess varla langt að bíða að setja þurfi sérstök lög um sölu ferða á netinu. Líklegt má telja að Evrópulöggjöf um fjarsölu muni fyrst og fremst ná yfir sölu vöru en ekki þjónustu á borð við ferðaþjónustu. Ég mun á næstunni láta fara yfir netsölumálefni ferðaþjónustunnar í þeim tilgangi að auðvelda hana og tryggja hagsmuni minni fyrirtækja og ekki síður fyrirtækja á landsbyggðinni sem e.t.v. hafa ekki sömu möguleika til kynningar og viðskipta sem þau fyrirtæki sem best eru í sveit sett ekki síst þau fyrirtæki sem starfa hér á höfuðborgarsvæðinu. Reykjavík er auðvitað mun betur kynnt en önnur svæði. Það á einnig við um kynningu á netinu.

Nýlega hefur nefnd samgönguráðuneytis um áhrif Schengen-samningsins á ferðaþjónustuna lokið störfum. Niðurstaðan er í raun sú að tækifærin sem samningurinn hafi í för með sér séu ekki umtalsverð – verði vart til þess að fjölga ferðamönnum en gæti orðið til þess að fækka þeim ef ekki tekst vel til með skipulag þjónustunnar við komu ferðamanna til landsins. Af skýrslunni má sjá að þar er mikið og kostnaðarsamt verk að vinna. Eins og stundum áður hefði mátt velta fyrir sér hvort þeim fjármunum sem til þessa máls fara hefði mátt verja betur í þágu íslenskrar ferðaþjónustu. Ekki verður þaðan aftur snúið.

Skýrslan, sem er stutt og laggóð, er á vef ráðuneytisins hafi fundarmenn áhuga á að kynna sér efni hennar nánar.

Í næstu viku mun nefnd sú, er ég skipaði til að gera tillögur um að bæta rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar, skila mér niðurstöðum sínum og mun ég að sjálfsögðu gera forsvarsmönnum SAF grein fyrir niðurstöðum hennar eins fljótt og hægt er. Óska ég eftir góðu samstarfi við að hrinda í framkvæmd úrbótum í þágu atvinnugreinarinnar.

Staða margra hótela í landinu er og hefur verið um langan tíma bágborin. Kæmi mér ekki á óvart þó framundan væri umræða um hækkun á verði á gistingu. Áframhaldandi halla rekstur gengur ekki. Það ætti öllum að vera ljóst að innflutningur ferðamanna gengur ekki án þess að þeir greiði kostnaðinn við dvölina. Eigendur hótela geta ekki árum saman tekið að sér að greiða halla á rekstri ferðaþjónustunnar.
Í þá tvo áratugi sem ég hef fylgst með málefnum ferðaþjónustunnar hefur Ferðamálasjóður verið til umræðu hjá þeim sem koma að uppbyggingu greinarinnar. Mér fannst því alveg greinilegt að hlutverk sjóðsins þarfnaðist skoðunar og setti því á laggirnar nefnd sem mun skila af sér innan tíðar. Er nefndinni ætlaðað það hlutverk að leggja á ráðin um framtíð þessa lánasjóðs ferðaþjónustunnar.

Talið er að í könnunum komi glögglega fram aukinn áhugi á menningu þjóðarinnar. Framtak margra ber þess vitni. Mér kemur í hug líflegra Árbæjarsafn, endurbygging Þjóðminjasafnsins, Snorrastofa í Reykholti, Galdrasýning, Vesturfarasetur, Stríðsárasafn, Byggðasafnið á Skógum og Sögusetur. Einnig endurbygging gamalla húsa víða um land sem og bæjarhluta. Þessi þáttur afþreyingarinnar hefur vaxið hvað örast. Engu að síður eru rekstrarskilyrðin oft örðug. Nefnd um menningartengda ferðaþjónustu vinnur nú hörðum höndum að því að gera úttekt á því hvernig gera má meira úr þeim möguleikum sem þarna felast.Vænti ég skýrslu og tillagna frá nefndinni í næsta mánuði.

Heilsutengd ferðaþjónusta er annar þáttur sem hugsanlega gæti vaxið örar hér á landi. Við höfum fágætar náttúruauðlindir sem vera má að séu stórlega vannýttar í þessum tilgangi. Niðurstaða nefndar um heilsutengda feðarþjónustu er einnig væntanleg í innan tíðar.

Að starfi þessara nefnda kemur stór hópur fólks og þær niðurstöður sem þarna munu koma fram munu verða mér leiðarljós í starfi mínu í þágu ferðaþjónustunnar á næstu misserum. Þó að unnið sé eftir þeirri umfangsmiklu stefnumótun sem unnin var, fyrir ekki svo löngu, er endurskoðun ávallt nauðsynleg og sé ég starf þessara nefnda sem hluta þeirrar endurskoðunar.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að greina frá þeirri ákvörðun minni að stofna stýrihóp vísra manna og kvenna – sem ég vil kalla; FRAMTÍÐARNEFND FERÐAÞJÓNUSTUNNAR.
Fær hún það verkefni að gera tillögur um það hvernig gera má greininni kleift að dafna enn betur en nú er og horfa þar jafnt til aðgerða stjórnvalda sem og til innviða greinarinnar sjálfrar. En auðvitað liggur framtíð greinarinnar í höndum þeirra sem í ferðaþjónustunni starfa. Ríkisvaldið mun ekki ráða úrslitum og ég er ekki talsmaður þeirra sjónarmiða að hjá ríkisvaldinu liggi upphaf og endir allrar framþróunar. Hlutverk ríkisvaldsins er fyrst og fremst að skapa skilyrðin og gæta þess að vera ekki fyrir eða hefta mikilvæga framþróun innan atvinnugreinanna.

Ég hef orðið þess var að uppi er þær raddir sem telja nauðsynlegt að breyta nafni samgönguráðuneytisins þannig að fram komi að ráðuneytið fari með ferðamál, nefnist samgöngu- og ferðamálaráðuneyti eða eitthvað í þá veru. Ég hef velt þessu fyrir mér enda vilja ýmsir, t.d. í fjarskiptunageiranum gjarnan fá það verkefni ráðuneytisins fram í nafninu á skýrari hátt en nú er. Niðurstaðan liggur ekki fyrir. En auðvitað er aðalatriðið það að vilji ráðuneytisins til að vinna fyrir greinina komi fram í verki. En ég mun leitast við að gera það sýnilegra hvar þessi málaflokkur liggur og treysti á liðsstyrk ykkar sem hér eruð!

Án þróaðra samgangna væri ferðaþjónustan hér á landi hvorki fugl né fiskur. Um stöðuga og hraða uppbyggingu vegakerfisins ríkir einhugur og samstaða, stefnan er nokkuð skýr. Það er vilji til þess að leggja verulega fjármuni til samgöngumannvirkja af þeim fjármunum sem fást við eignasölu ríkisns. Er þess að vænta að mikilvægir áfangar náist á kjörtímabilinu. – Sama verður ekki sagt um almeningssamgöngurnar, rúturnar og innanlandsflugið. Fjöldi mála hefur komið upp að undanförnu sem tengist þessum samgöngum og margir eru í óvissu um framtíðina. Eftir nokkrar vikur mun samgönguráðuneytið standa fyrir ráðstefnu um almenningssamgöngur og þar mun ferðaþjónustan hafa sína fulltrúa. Ég vil að ferðaþjónustan geri sig sýnilega sem víðast í tengslum við samgöngumál enda fáar atvinnugreinar sem þurfa að nýta sér alla innviði samgöngukerfisins á sama hátt og þessi grein.

Blikur hafa verið á lofti yfir Reykjavíkurflugvelli að undanförnu. Umræðan um flugvöllinn hefur verið fyrirferðarmikil og valdið mér nokkrum áhyggjum. Þó er ég ekki í nokkrum vafa um að með flutningi þessarar miðstöðvar innnanlandsflugsins út úr borginni væri höggvið að rótum þessarar mikilvægu samgönguleiðar á svo margan hátt. Ferðaþjónustan yrði til að mynda mun fátæklegri. Dagsferðir með flugi frá Reykjavík til að skoða sig um við Ísafjarðardjúp eða dagsferðirnar vinsælu til Vestmannaeyja myndu heyra sögunni til. Samþjöppunin á ferðaþjónustunni hér í Reykjavík og nágrenni yrði ennþá meiri en nú er. Gegn því mun ég sporna. Það er einlægur vilji minn að reyna með öllum tiltækum ráðum að efla uppbygginguna úti á landi, gera landsbyggðina sýnilegri í markaðssetningu á landinu og lengja allt of stuttan ferðamannatíma þar.

Orð mín mega ekki misskiljast sem andstaða við höfuðborgarsvæðið. Höfuðborgin Reykjavík gegnir auðvitað og á að gegna mikilvægu hlutverki í ferðaþjónustunni. Afstaða borgaryfirvalda til Reykjavíkurflugvallar og nú til ráðstefnuskrifstofunnar veldur hins vegar vonbrigðum og tortryggni. Ég tel ástæðu til þess að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel byggingu ráðstefnumiðstöðvar og þá um leið tónlistarhúss eitt brýnasta verkefni til eflingar ferðaþjónustu á Íslandi á næstu árum. Ég átti þess kost fyrir stuttu að skoða ráðstefnumiðstöðina í Edinborg og hafi ég haft einhverjar efasemdir um ágæti ráðstefnumiðstöðvar ruku þær út í veður og vind í þeirri heimsókn. Rekstur ráðstefnumiðstöðvar er greinilega gullið tækifæri sem við megum alls ekki láta okkur úr greipum ganga.

Þessi tvö stórmál, lenging ferðamannatímans úti á landi og nýting ráðstefnumiðstöðar í Reykjavík krefjast fjármuna og hugmyndaauðgi í markaðsmálum. Samkeppnin er hörð og við megum ekki láta undan síga. Ég ætlast til þess að Ferðamálaráð, Markaðsráð og aðrir þeir sem starfa á vegum samgönguráðuneytisins vinni í takt við vilja minn að þessum mikilvægu verkefnum.

Formaður markaðsráðsins sem einnig er formaður stýrihóps um markaðsátak í Norður-Ameríku mun fjalla um markaðsmál greinarinnar hér á eftir. En ég vil segja: Gætum okkar í umgengni við landið og í allri kynningu á landinu, hugum að framtíðarsýn! Höfum landið allt undir – í því felst styrkur okkar. Tónninn í markaðsstarfinu má ekki vera falskur eða mótast af stundar hagsmunum. Það skilar ekki þeim árangri sem við væntum og viljum.

Ég vil að lokum óska SAF, þessum ungu og kraftmiklu samtökum, góðs gengis í framtíðinni og vona að samstarfið verði áfram með þeim ágætum sem það hefur verið hingað til.