Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, ávarpaði í morgun aðalfund Samtaka landflutningamanna. Ávarp ráðherra fer hér á eftir:
Fundarstjóri, ágætu landflutningamenn.
Þið eruð saman komnir hér í dag á árlegum fundi, til að bera saman bækur ykkar og ræða sameiginleg hagsmunamál. Í samgönguráðuneytinu hefur lengi verið unnið að málum tengdum ykkar hagsmunum og því sem þið starfið að. Sú vinna snýst að jafnaði um að bæta laga og regluumhverfið. Hlutverk okkar stjórnmálamannanna er koma fram okkar stefnumálum og áherslum, og þá um leið að vinna að því að breyta lögum og reglum þannig að verði í samræmi við kröfur okkar og aðstæður. Þá þurfum við vissulega einnig að huga að þeim sameiginlegu reglum sem samstarf okkar við aðrar Evrópuþjóðir setur okkur: Síðast, en ekki síst, þurfum við einnig að hlusta á og taka tillit til þess sem sagt er á fundi sem þessum hér í dag.
Á fyrri hluta síðasta árs var allt eftirlit og stjórnsýsla gerð skilvirkari en verið hafði. Þetta var gert með því að fela Vegagerðinni alla stjórn og allt eftirlit með hópferða- og sérleyfishöfum. Þar með var eftirlit með þungaskattsinnheimtu, aksturs- og hvíldartíma og starfsleyfum sem heyra undir þrjú ráðuneyti komið á einn stað.
Þá var einnig á síðasta ári horfið frá hinum gömlu hópferðaleyfum og tekin upp almenn starfsleyfi með setningu nýrra laga um skipulag fólksflutninga með hópferðabifreiðum. Í þeim eru gerðar kröfur um starfshæfni, mannorð og efnahag en krafa um þessa hluti hefur ekki verið gerð áður. Með þessum nýju kröfum erum við hér á landi að aðlaga löggjöf okkar að kröfum Evrópusamstarfsins. Þessar nýju kröfur eru mun ríkari en þær eldri. Ég vona að það verði bæði þeim sem bjóða fram þjónustuna og þeim sem þiggja hana til góðs.
Rétt er að greina frá því hér, að nú er hafin vinna í ráðuneytinu að frumvarpi að nýjum lögum um vöruflutninga. Þetta frumvarp, sem að sjálfsögðu verður borið undir starfsgreinina, mun á margan hátt svipa til hinna nýju laga um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum sem ég nefndi hér áðan.
Ferðaþjónustan er einn af þeim málaflokkum er undir samgönguráðuneytið heyrir, og sem samgönguráðherra legg ég mikla áherslu á hana. Undir lok síðasta árs skipaði ég nefnd til að kanna rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar á Íslandi, og innan þeirrar nefndar hefur samkeppnisstaða íslenskra fólksflytjenda innbyrðis og ekki síður út á við verið rædd. Endurnýjun bílaflotans er einmitt eitt af þeim málum sem þar hafa verið rædd. Mín skoðun er sú að það skiptir íslenska ferðaþjónustu miklu að hér sé boðið upp á góðan og helst gæðavottaðan flota langferðbíla, og því leyfi ég mér að skora á ykkur hér í dag að stefna að gæðaflokkun langferðabíla sem fyrst.
Um þessar mundir er verið að þróa námskeið fyrir þá sem koma nýir inn á þennan markað. Stefnt er að því að námskeiðið verði fullbúið nú í haust, en það er gert og haldið í samræmi við kröfur hins Evrópska efnahagssvæðis. Á námskeiðinu verður farið í það sem menn þurfa að kunna skil á við rekstur nútíma fyrirtækis og þess sem sérstaklega snýr að flutningastarfsemi.
Á seinni hluta síðasta árs var lokið gerð skýrslu sem ráðuneytið lét vinna um almenningssamgöngur á Íslandi. Þar koma fram tillögur um framtíðarfyrirkomulag fólksflutninga á landi. Ég hef sent Vegagerðinni skýrsluna til umfjöllunar, en jafnfram farið fram á það við Vegagerðina að hún kostnaðarmeti tillögur skýrsluhöfunda og komi með tillögur til mín um hvernig niðurstöðum skýrslunnar verði best hrundið í framkvæmd. Vegagerðin hefur nú tilkynnt mér að verið sé að vinna greinargerð um þær tillögur sem fram koma í skýrslunni, og mun ég að sjálfsögðu taka þær til skoðunar þegar þar að kemur.
Ráðuneytið hefur í samstarfi við Landvara unnið að því að móta og skipuleggja fræðslu fyrir stjórnendur vöruflutningafyrirtækja í tengslum við upptöku flutningaleyfa hér á landi samkvæmt EES samningnum. Fyrsta námskeiðið verður haldið í samstarfi við Háskóla Íslands á Akureyri í næstu viku og er það fyrir stjórnendur vöruflutningafyrirtækja með fimm ára starfsreynslu í atvinnugreininni. Í framtíðinni mun Vegagerðin síðan hafa umsjón með þessum námskeiðum fyrir alla þá sem koma nýir inn í greinina. Ég vonast til að fljótlega verði fyrstu starfsleyfin gefin út fyrir þá sem hafa uppfyllt þær kröfur sem ráðuneytið hefur ákveðið í samræmi við það sem Evrópusamstarfið gerir kröfu til.
Undanfarið hefur verið lögð ríkari áhersla á málefni leigubílstjóra í ráðuneytinu. Umsjónarnefnd fólksbifreiða á höfuðborgarsvæðinu hefur nýverið fengið starfsmann og er ætlunin að hann gæti þess að þau mál sem lúta að stjórnsýslu leigubílamála á höfuðborgarsvæðinu verði í lagi. Tryggja þarf að allir hafi jafna aðstöðu og til þess að svo verði þarf að ganga eftir því að lögum og reglum sé fylgt.
Ágætu fundarmenn, ég hef reynt í fáum orðum að stikla á því helsta sem að ykkur snýr í samgönguráðuneytinu. Ég vona að samstarfið við ráðuneytið hafi verið farsælt, og verði svo áfram. Ég flyt ykkur kveðjur ráðuneytismanna og vona að þið eigið ánægjulegt og gagnlegt þing.