Ræða samgönguráðherra á aðalfundi Símans sem haldinn var 22. mars síðastliðinn.

Fundarstjóri, hluthafar, stjórn og starfsmenn Símans.

Ég vil nota þetta tækifæri og ávarpa aðalfundarfulltrúa á þeim tímamótum er samgönguráðherra sleppir hendi af þessu merka fyrirtæki sem handhafi hlutabréfs ríkisins í Símanum.

Á síðustu árum og þá ekki síst frá því Síminn varð hlutafélag hafa orðið stórstígar breytingar á vettvangi fjarskiptanna. Í fjarskiptum, líkt og í öllum öðrum viðskiptum, höfum við Íslendingar ákveðið að fella okkur að reglum hins Evrópska efnahagssvæðis sem við höfum undirgengist. Þær reglur fela í sér umfangsmiklar kvaðir gagnvart markaðsráðandi fyrirtækjum eins og Símanum um leið og sköpuð eru mikilvæg skilyrði fyrir samkeppni á fjarskiptamarkaði. Nú hefur samkeppni skapast og því tímabært og í fyllsta máta eðlilegt að ráðherra fjarskiptamála, sem fer með málefni Póst- og fjarskiptastofnunar, láti af hendi hlutabréf í Símanum, þessu fyrirferðarmikla fyrirtæki á íslenskum fjarskiptamarkaði.

Á síðustu árum hefur verið unnið að því að efla Símann á flestum sviðum. Er óhætt að segja að vel hafi tekist til þótt á stundum hafi gustað um fyrirtækið. Með framsækinni fjarskiptalöggjöf og kröfuhörðum ákvæðum um alþjónustu hefur kerfi Símans verið byggt upp af miklum metnaði af úrvals starfsfólki.
Við okkur blasir í dag verðmætt fyrirtæki á vaxandi samkeppnismarkaði, sem þjónar öllu landinu,- að vísu misjafnlega vel.

Því er ekki að leyna að ég hefði kosið að betur hefði tekist til með uppbyggingu fjarskiptakerfisins í landinu utan hins mesta þéttbýlis. Því miður hefur Síminn stungið meira við fæti við uppbyggingu háhraðakerfanna og farsímavæðingarinnar en ég hefði kosið og neytendur gera kröfur til.
Það kemur því í hlut nýrrar stjórnar, sem kosin var hér í dag, að halda merkinu á lofti og færa okkur framar með því að nýta enn betur framþróun fjarskiptanna í þágu allra landsmanna, um leið og góð arðsemi er tryggð.
Með sama hætti og öllum þykir eðlilegt að Síminn, sem heild, fjárfesti í Cantat3, Farice og Skyggni, verður að líta á uppbyggingu grunnkerfisins sem heild sem skapar aðgang að gagnaflutningum og símaþjónustu um landið allt.
Fyrir skömmu setti ríkisstjórnin undir forystu forsætisráðherra fram metnaðarfulla stefnu um upplýsingasamfélagið fyrir árin 2004-2007 undir yfirskriftinni ,,Auðlindir í allra þágu“. Í inngangi að riti, sem gefið var út af þessu tilefni, segir m.a. ,,Staða Íslands varðandi notkun upplýsingatækninnar er góð. Sé litið til aðgengis landsmanna að tölvum og netinu eru Íslendingar í fararbroddi þjóða heims árið 2003. Hið sama má segja um ýmsa aðra þætti sem bornir eru saman í alþjóðlegum könnunum á sviði upplýsingasamfélagsins. Mikill árangur hefur til dæmis náðst á ákveðnum sviðum viðskiptalífsins. Í mörgum skólum landsins hefur upplýsingatæknin orðið eðlilegur hluti af skólastarfinu og í stjórnsýslunni hafa ráðuneytin og ríkisstofnanir tekið mörg framfaraskref.

Á nokkrum sviðum hefur þróunin þó orðið hægari en væntingar stóðu til. Víða um landið er enn takmarkaður aðgangur að háhraðatengingum við fjarskiptakerfið og í sumum tilvikum enginn. Úr þessu þarf að bæta með markvissum aðgerðum. Íslendingar þurfa því að hafa sig alla við til að halda styrkri stöðu sinni í alþjóðlegum samanburði á þessu sviði og nauðsynlegt er að taka verulega til hendinni á þeim sviðum samfélagsins þar sem tæknin er ekki nýtt sem skyldi.“

Með þessum orðum er hvatningu beint til íslenskra fjarskiptafyrirtækja. Vil ég nota þetta tækifæri til þess að koma hvatningunni á framfæri.

Í þessari stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið eru sett markmið og leiðir á sviði fjarskipta. Þar segir m.a.:  • Mótuð verði, á árinu 2004, langtímastefna um fjarskiptamál á Íslandi.

Ábyrgð:
Samgönguráðuneytið.


  • Stuðlað verði að því að landsmenn hafi greiðan aðgang að ódýrri og öruggri fjarskiptaþjónustu. Leitað verði leiða til að tryggja að allir landsmenn, sem þess óska, einnig íbúar strjálbýlli svæða, geti tengst háhraðaneti og notið viðunandi fjarskiptaþjónustu.

Ábyrgð:
Samgönguráðuneytið.


  • Stefnt skal að því að allar helstu stofnanir ríkisins verði tengdar háhraðaneti árið 2006 og komið verði á öruggum samskiptum milli þeirra á sama ári.

Ábyrgð:
Samgönguráðuneytið.


  • Bættur verði aðgangur að farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins. Vegagerði ríkisins vinni að þessu verkefni í samráði við símafélög. Verkefninu verði lokið árið 2005.

Ábyrgð:
Samgönguráðuneytið.


  • Stuðlað verði að uppbyggingu dreifikerfis fyrir stafrænt sjónvarp sem nái til landsins alls.

Ábyrgð:
Samgönguráðuneytið í samráði við menntamálaráðuneytið.

Með þessu hefur ríkisstjórnin markað mjög skýra stefnu á sviði fjarskiptanna og upplýsingasamfélagins sem fylgt verður eftir af fullri festu.
Á öllum þessum sviðum er vinna hafin og stefni ég að því að í haust verði lögð fram í fyrsta skipti sérstök Fjarskiptaáætlun sem unnin verður í nánu samráði við fjarskiptafyrirtækin sem starfa á hinum mjög svo hraðfleyga markað.

Vegna fyrirhugaðrar sölu á hlut ríkisins í Símanum lagði ég fram á fundi ríkisstjórnarinnar í desember s.l. minnisblað um þau atriði sem ég taldi að hyggja þyrfti að áður en til sölu kæmi. Hefur verið skipaður viðræðuhópur bæði af hálfu stjórnar Símans og ráðuneytisins. Er þeim ætlað að leggja upp tillögu að samkomulagi, sem fæli í sér að ná tilteknum markmiðum sem ríkisstjórnin telur mikilvæg og varðar bætta þjónustu á sviði fjarskipa.

Það er von mín að sem fyrst megi ljúka því starfi og leggja upp áætlun um framvindu þeirra verkefna sem vinna þarf svo Ísland verði áfram í fremstu röð á sviði fjarskipta og upplýsingatæknin nýtist okkur sem best í þágu bættra lífskjara og samkeppnishæfni landsins. Það er í samræmi við væntingar notenda fjarskipta á öllum sviðum.

Ágætu fundarmenn. Ég vil ljúka þessu ávarpi með því að þakka öllum sem ég hef átt gott samstarf við hjá Símanum og óska stjórn og starfsmönnum gæfu og góðs gengis. Þá óska ég fjármálaráðherra og öllum hluthöfum Símans til hamingju með að hafa í höndum svo verðmæt hlutabréf.