Góð mæting var á fund samgönguráðherra um samgöngumál og stjórnmálaviðhorfið í Stykkishólmi.
|
|
Síðastliðinn miðvikudag bauð Sturla heimamönnum í Stykkishólmi til fundar á veitingastaðinn Fimm fiskar. Þar fór ráðherra yfir það sem hæst bar og ekki fór á milli mála að yfirlýsing utanríkisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins fyrr um daginn, um að hann hygðist hætta þátttöku í stjórnmálum, var gerð að umtalsefni.
Á fundinum fór Sturla yfir helstu vegaframkvæmdir sem gert er ráð fyrir í samgönguáætlun 2005-2008 og kynnti jafnframt þær framkvæmdir sem ákveðið hefur verið að ráðast í fyrir söluandvirði Símans. Um verulega viðbót er að ræða við þau framlög sem þegar hafa verið ákveðin í samgönguáætlun. Má nefna að á fjögurra ára tímabili samgönguáætlunar renna 60 milljarðar króna til vegamála og þar af fara 22 milljarðar til nýframkvæmda. Þessu til viðbótar renna 15 milljarðar af söluandvirði Símans til nýframkvæmda og því um að ræða hærri fjárhæðir en áður hafa verið settar til sérstakra framkvæmda í samgöngumálum.
Norðvesturkjördæmi eru tryggðar verulegar fjárhæðir til uppbyggingar. Má þar nefna að gert ráð fyrir að leggja 300 milljónir til að ljúka veginum yfir Þverárfjall, 800 milljónir eru settar til að ljúka í einum áfanga veginum yfir Arnkötludal og settar eru 700 milljónir í Vestfjarðarveg um Barðaströnd. En þessi framlög koma til viðbótar þeim fjármunum sem þegar er gert ráð fyrir í samgönguáætlun.
Samgönguráðherra kynnti einnig áform um sérstakan fjarskiptasjóð. Um 2,5 milljarðar af söluandvirði Símans renna til Fjarskiptasjóðs en markmið sjóðsins er meðal annars að tryggja farsamband á megin leiðum vegakerfisins og á helstu ferðamannastöðum, á þeim stöðum þar sem aðilar á markaði telja ekki markaðslegar forsendur fyrir slíku. Einnig verður fjármunum ráðstafað til að tryggja sjónvarps- og útvarpssendingar til sjómanna á miðum. Þá var nánar greint frá markmiðum stjórnvalda í fjarskiptamálum í fjarskiptaáætlun fyrir árin 2005-2010.
Á fundinum vörpuðu bæjarbúar fram ýmsum spurningum sem á þeim lágu. Meðal þess var hátt gengi krónunnar, erfið fjárhagsstaða margra sveitarfélaga, málefni Reykjavíkurflugvallar, einbreiðar brýr, framtíð Baldurs og fyrirhuguð jarðgöng.
Sturla benti á að það væri mikil einföldun að setja hátt gengi krónunnar í samhengi við aðgerðir stjórnvalda. Mun veigameiri þættir réðu þar för meðal annars miklar lánveitingar bankanna til húsnæðismála og kaup erlendra aðila á íslenskum skuldabréfum Ráðherrann var inntur eftir því hvort skoðun hans á staðsetningu Reykjavíkurflugvallar hefði breyst. Vísaði Sturla því alfarið á bug en sagðist ekki vera maður sem útilokaði hugmyndir fyrirfram. Fundargestir lýstu yfir ánægju með fyrirhugaðar breikkanir brúa yfir Haffjarðará, Hítará og Gríshólsá og vonuðust til að framhald yrði á framkvæmdum við fækkun einbreiðra brúa. Að sjálfsögðu báru jarðgöng á góma og sagði ráðherrann að á eftir Héðinsfjarðargöngum væru jarðgöng milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á óskalistanum sem og ný Oddskarðsgöng, Vaðlaheiðargöng og hugsanlega göng undir Óshlíð. Jafnframt yrði skoðað hvort göng í af framhaldi af Hlíðarfæti undir Öskjuhlíð í Smárann yrði raunhæfur kostur.
Nokkuð heitar umræður urðu um framtíð Baldurs þar sem bæjarbúar töldu ófært annað en að siglingar ferjunnar yrðu tryggðar. Sturla sagði að það lægi fyrir að engar breytingar yrðu á ferjusiglingum yfir Breiðafjörð á meðan vegurinn um Barðaströnd hafi ekki verið byggður, og nefndi sérstaklega erfiðan veg um Ódrjúgsháls. Hins vegar væri viðbúið að endurskoða yrði siglingarnar að teknu tilliti til breyttra aðstæðna sem fyrirsjáanlegar eru með bættum samgöngum. Að síðustu má geta þess að Sturla upplýsti fundarmenn um að staða sveitarfélaga myndi heldur vænkast í kjölfar sölu Símans þar sem umtalsverðar fjárhæðir í formi fjármagnstekjuskatts rynnu til þeirra.
Fyrir áhugasama fylgir glærukynning samgönguráðherra