Ekki tókst að ljúka afgreiðslu nýrra hafnalaga á Alþingi í vor.
Samgöngunefnd Alþingis hafði til afgreisðlu frumvarp til nýrra hafnalaga sem ég lagði fyrir þingið og mælti fyrir 7. febrúar sl. Frumvarpið átti sér langan aðdraganda og var unnið í samstarfi við Hafnasamband sveitarfélaga, Landsamband íslenskra útvegsmanna, Samtök kaupskipaútgerða og Landsamtök smábátaútgerða. Þegar ég tók við sem samgönguráðherra höfðu verið starfandi tvær nefndir, sem skoðuðu hvernig ætti að standa að breytingum á hafnalögum. Ég skipaði eina nefnd 9. desember 1999 til að vinna að málinu. Formaður þeirrar nefndar var Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður, en auk hans sátu í nefndinni Árni Þór Sigurðsson formaður Hafnasambands sveitarfélaga, Friðrik Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ, Hörður Blöndal hafnarstjóri, Akureyri, Guðmundur Bjarnason bæjarstjóri Fjarðabyggð og Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæ.
Hvers vegna breytingar?
Úr mörgum áttum hafa komið fram kröfur um breytingar á hafnalögum.
Árum saman hefur Hafnasamband sveitarfélaga ályktað um nauðsyn þess að hafnirnar yrðu sjálfstæðari og svigrúm þeirra og ábyrgð á eigin rekstri og fjárfestingum yrði aukin. Samtök iðnaðarins hafa gert miklar athugasemdir við gjaldskrá hafna og mismunun milli atvinnuveganna og kært til samkeppnisyfirvalda. Samkeppnisráð hefur gert athugasemdir við samræmda gjaldskrá hafnanna, sem er talin koma í veg fyrir samkeppni og eðlilega viðskiptahætti. Innan stjórnkerfisins hefur verið bent á að gjaldskráin orki tvímælis og gjaldskráin uppfylli ekki kröfur, sem gera verður til skatta og þjónustugjalda. Í frumvarpi til hafnalaga var leitast við að koma til móts við þessar athugasemdir að fullu. Fjárfestingar í höfnum hafa verið verulegar síðustu árin. Færð hafa verið fyrir því rök að nýfjárfesting gefi nú mjög takmarkaðan arð og jafnvel varla auknar tekjur til hafnanna en hafa aukið útgjöld þeirra. Dæmi hafa verið um að hafnir með neikvæða framlegð ráðist í stórfelldar fjárfestingar án þess að það standist fjárhagslegar forsendur. Flestir, sem þekkja til hafnarmála eða hafa kynnt sér þau, hafa komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að breyta lögum og koma á eðlilegum viðskiptaháttum á þessu sviði. Engu að síður væri haldið til haga eðlilegum byggðasjónarmiðum og hagsmunum fiskihafna og þeirra sem þurfa að njóta þjónustu hafnanna. Víða í Evrópu er unnið að því sama og hafa nágrannaríki okkar verið að endurbæta löggjöf sína á þessu sviði.

Afkoma hafnanna
Afkoma íslenskra hafna er mjög mismunandi og hefur það komið skýrt fram í þeim skýrslum sem Hafnasambandið hefur látið vinna árum saman. Þær skýrslur hafa verið nýttar sem grundvöllur beiðna um hækkun gjaldskrár. Tekjur flestra fiskihafna hafa ekki staðið undir rekstri, hvað þá þeirri fjárfestingu sem farið hefur verið í. Afkoma Reykjavíkurhafnar hefur hinsvegar verið mjög góð og skapað henni sérstöðu sem er einstök í íslensku atvinnulífi. Sú sérstaða er m.a. fógin í því að höfnin nýtur tekna af stórum hluta útflutnings og nær öllum sérvöru innflutningi til landsins og getur nýtt styrk sinn til þess að keppa við fiskihafnirnar sem hafa enga möguleika í þeirri ójöfnu samkeppni. Nýjum hafnalögum var m.a. ætlað að skakka þennan ójafna leik, sem að öllu óbreyttu dregur viðskipti hægt og bítandi frá fiskihöfnunum til stóru hafnanna á höfuðborgarsvæðinu.

Helstu nýmæli og breytingar
Mikilvægustu breytingar á rekstri hafnanna samkvæmt frumvarpinu voru þessar:

1. Samræmd gjaldskrá hafnanna verður aflögð og gjaldskrá hafnanna gefin frjáls.
2. Opnað á mismunandi rekstrarform hafna svo sem hlutafélagaformið og höfnum gert að lúta samkeppnislöggjöfinni.
3. Hafnir verði virðisaukaskattskyldar
4. Ríkisstyrkir takmarkaðir
5. Minni fiskihafnir njóti áfram ríkisstyrkja til framkvæmda

Beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga um frestun
Eins og oft vill verða skömmu fyrir kosningar hafa komið upp deilur meðal sveitarstjórnarmanna um einstök atriði í frumvarpi til hafnalaga. Útvegsmenn hafa nýtt sér það ástand og varað við kerfisbreytingu, sem leiði til hækkunar á tekjum hafnanna til þess að standa undir rekstri þeirra. Útvegsmenn virðast vilja halda áfram kerfi styrkja úr ríkissjóði og sveitarsjóðum fyrir flestar hafnir landsins, sem skapar stóru höfnunum áframhaldandi forskot. Slíkt er mikil skammsýni af þeirra hálfu því heilbrigt rekstrarumhverfi í höfnum er þeim til hagsbóta þegar til lengri tíma er litið. Samband íslenskra sveitarfélaga óskaði eftir að afgreiðslu frumvarpsins yrði frestað til hausts. Þrátt fyrir að langur tími hafi gefist til umfjöllunar þótti mér rétt að verða við þeirri beiðni. Sumarið verður notað til þess að ná meiri sátt um málið. Mun ég óska eftir að Samband íslenskra sveitarfélga tilnefni fulltrúa í starfshóp er yfirfari frumvarpið og geri tillögur um breytingar á því. Mikilvægt er fyrir hafnirnar að markmið frumvarpsins nái fram að ganga. Ekki síst vegna þess að allar líkur eru á að óbreytt gjaldskrá standist ekki og afkoma sumra fiskihafnanna fari stöðugt versnandi. Að öllu óbreyttu munu ýmsar fiskihafnirnar lenda í þroti nema að sveitarfélögin greiði áfram halla af rekstri þeirra með útsvarstekjum sínum. Slík staða getur vart verið ásættanleg fyrir sveitarfélögin, auk þess sem það hlýtur að vera óforsvaranleg staða fyrir útgerðina og þá sem njóta þjónustu hafnanna. Þrátt fyrir frestun á afgreiðslu nýrra hafnarlaga get ég, sem samgönguráðherra, ekki undan því vikist að láta endurskoða og breyta gjaldskrá hafnanna svo sem gildandi hafnalög gera rá fyrir. Ég mun á næstunni taka afstöðu til þess hvernig gjaldskrá hafnanna verður breytt, til samræmis við gildandi lög. Sú breyting getur ekki orðið í samræmi við það sem gert var ráð fyrir í tillögum hafnalaganefndarinnar.