Biskup Íslands, Hr. Karl Sigurbjörnsson, afhenti í dag, 19. október, við hátíðlega athöfn Sturlu Böðvarssyni, forseta Alþingis, Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Birni Bjarnasyni, dóms- og kirkjumálaráðherra eintak af nýrri þýðingu á Biblíunni.  Jafnframt færði biskup öllum alþingismönnum Biblíu að gjöf.  Auk biskups, þingforseta og ráðherra á mynd hér að ofan eru þau Guðrún Kvaran, formaður þýðingarnefndar og Jóhann Páll Valdimarsson útgefandi og útgáfustjóri JPV.

Það er Hið íslenska Biblíufélag sem stendur að þessari nýju útgáfu Biblíunnar.  Flutti Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, ávarp við þetta tilefni og þakkaði þessa góðu gjöf, fyrir hönd Alþingis og þingmanna.

Ávarp Sturlu Böðvarssonar við móttöku nýrrar Biblíuþýðingar:

Það er mér mikil ánægja að taka við þessari nýju útgáfu Biblíunnar fyrir hönd Alþingis og okkar alþingismanna. 
Það er ljóst að mikið verk liggur að baki þeirri útgáfu sem afhent er í dag og eiga þýðendur og þýðingarnefnd þakkir skildar fyrir þeirra miklu vinnu við þetta verk.  Íslensk Biblía og íslenskt tunga eru samtvinnuð og var fyrsta Biblíuþýðingin, Guðbrandsbiblía, án nokkurs vafa veigamikill þáttur í vernd og þróun íslenskrar tungu.

Íslensk tunga er lifandi kvika sem festir hugðarefni og tíðaranda í orð.  Tungan tekur breytingum, líkt og tíðarandinn, og því þarf reglulega að huga að endurskoðun hins gamla texta svo hann gegni áfram hlutverki „lifandi orðs“, í orðsins fyllstu merkingu.  En ritningin stendur líka hjörtum okkar nær og því er vandasamt verk að færa fornan og eilífan boðskap í nýjan búning. 

Hið íslenska Biblíufélag, elsta starfandi félag landsins, var stofnað á prestastefnu árið 1815 og á merka sögu.  Það að stofna félag til að tryggja íslenska útgáfu mest lesnu bókar allra tíma, við þær kringumstæður sem þá ríktu, fól væntanlega í sér þá sannfæringu að hér byggi sérstök þjóð með eigin menningu og tungu.  Nú líður að tveggja alda afmæli þessa merka félags, sem stendur fyrir þessari nýju útgáfu Biblíunnar.  Enn þann dag í dag ber Hið íslenska Biblíufélag kyndilinn hátt að því marki að viðhalda lifandi orði hinnar íslensku tungu.  Á félagið  þakkir skildar fyrir sitt góða starf í útgáfu, kynningu og útbreiðslu Biblíunnar.

Um aldir hafa verið sterk tengsl milli Alþingis og kristinnar trúar.  Nú eru liðin rúm þúsund ár síðan kristinn siður var lögtekinn á Þingvöllum. Sá atburður er hvað merkastur  í sögu okkar og batt sögu þings og kristni órjúfandi böndum.  Kristinn siður hefur fylgt þjóðinni síðan og um aldir voru guðsorðin kjarni menntunar ungmenna.  Þannig var fermingarfræðslan um langa hríð eina menntun þorra landsmanna, þar sem þeir lærðu að lesa og draga til stafs.  Lestrarkunnátta þjóðarinnar var svo lykill að varðveislu okkar mestu þjóðargersema, fornsagnanna.
Í dag eru aðrir tímar og margir „siðir“ sem Íslendingar aðhyllast, en mestur meirihluti þjóðarinnar tilheyrir hinni íslensku þjóðkirkju.  Alþingi og hin lútersk evangelíska þjóðkirkja hafa átt langt og gott samstarf og hafa biskupar og prestar hennar þjónað við hátíðlega athöfn við upphaf þings hvert haust.  Enda hefur ótalmargt í siðakenningum kristninnar markað djúp og góð spor í menningu þjóðarinnar.  Trúin stendur hjarta mannsins næst og hefur verið mörgu skáldinu innblástur ódauðlegra hugverka  Þannig liggja þræðir trúar og tungu víða í menningarsögu okkar.

„Í upphafi var orðið“.  Það eru upphafsorð Jóhannesarguðspjalls og sýna okkur þannig mikilvægi tungunnar, sem verkfæri Guðs.  Tungan er jafnframt verkfæri fyrir tjáningu hugans.  Hér á Alþingi er það einnig hið talaða orð sem er höfuðverkfæri starfsins.  Alþingi hefur  stutt við bakið á þessari nýju Biblíuþýðingu sem okkur er færð hér í dag; útgáfu sem spinnur enn við hinn forna þráð þings, trúar og tungu.  Megi sá þráður haldast sterkur um ókomna tíð.

Vil ég færa biskupi Íslands, herra Karli Sigurbjörnssyni, og Hinu íslenska Biblíufélagi innilegustu þakkir Alþingis fyrir þessa góðu gjöf og óska þjóð og kirkju til hamingju með þessa nýju þýðingu Biblíunnar.

Vil ég að lokum bjóða gestum að þiggja kaffiveitingar, hér í efri deildar sal Alþingis.