Í grein samgönguráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu í dag,  fjallar ráðherrann um áhrif EES-samningsins á samgöngumál og hvernig tryggja má hagsmuni Íslands innan samningsins. Greinin er eftirfarandi:
IK

Evrópusamstarfið, EES og flugvernd

Öðru hvoru skjóta upp kollinum umræður um stöðu EES samningsins og áhrif hans á íslenskt umhverfi. Fylgjendur aðildar okkar að ESB beita því oft sem rökum fyrir aðild að við verðum hvort eð er að taka upp allar ESB reglur og löggjöf og því farsælla að ganga alla leið og gerast aðilar að Evrópusambandinu. Þannig erum við talin geta haft áhrif sem við höfum ekki með EES samningnum. Það er mitt mat að hagsbætur okkar af samningnum séu ótvíræðar og að við getum oftast tryggt hagsmuni okkar innan samningsins ef við gætum þess að vera á verði í stóru sem smáu.

EES og samgöngumálin
Á þeim rúmu sex árum sem ég hef setið í embætti samgönguráðherra hafa margar ákvarðanir verið teknar á sviði samgöngumála sem beint eða óbeint má tengja aðild okkar að evrópska efnahagssvæðinu. Á næstu vikum og mánuðum ætla ég að birta greinar um þróun mála á hinum ýmsu sviðum samgönguráðuneytisins í ljósi aðildar okkar að EES-samningnum og hvort „boð og bönn“ hafi komið frá Brussel sem ekki hafi verið möguleiki á að hafa áhrif á af okkar hálfu. Í hnotskurn má segja að á þessum sex árum hafi á EES-verksviði míns ráðuneytis, ef svo má segja, mestu breytingarnar átt sér stað á sviði fjarskiptanna, flugsins og öryggis- og verndarmála ýmiss konar.

Hertar reglur vegna flugverndar
Á öllum sviðum samgöngukerfisins hafa sífellt strangari reglur verið settar á undanförnum árum er lúta að öryggis- og verndarmálum. Þetta á ekki síst við um alla umgjörð flugsins. Á síðustu árum hef ég mælt fyrir og fengið samþykktar á Alþingi ýmsar breytingar á lögum er lúta að öryggis- og verndarmálum flugsins. Sem dæmi vil ég nefna hina svokölluðu flugvernd en nú hefur um nokkurt skeið verið í gildi sérstök flugverndaráætlun fyrir Ísland og brátt verða til sérstakar flugverndaráætlanir fyrir alla helstu flugvelli landsins.

Umsvif flugsins, sem atvinnugreinar hér á landi, eru mögnuð og hafa vaxið svo um munar á undra skömmum tíma. Nú eru hátt í áttatíu þotur skráðar hér á landi sem sinna starfsemi á vegum íslenskra flugfélaga um víða veröld og skapa mikil verðmæti og veltu í íslensku efnahagslífi. Af hálfu íslenskra samgönguyfirvalda er kappkostað að hafa umgjörð flugsins hér á landi fullkomlega til samræmis við ýtrustu öryggiskröfur, sem gerðar eru til alþjóðaflugs, en um leið að veita fluginu sem besta og liðlegasta þjónustu. Þannig geta stjórnvöld lagt sitt af mörkum til að styðja, sem frekast er unnt, við vöxt og viðgang þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

800 milljónir sparaðar á ári
En um leið og við setjum fluginu strangar reglur að starfa eftir verður rödd heilbrigðrar skynsemi jafnframt að fá að hljóma. Evrópusambandið (ESB) setti reglugerð um flugvernd seint á árinu 2002 og brást þá við með mjög hertum reglum um umgjörð flugsins í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september 2001. Samkvæmt skuldbindingum okkar í EES samningnum lá ljóst fyrir að þessa reglugerð yrði að taka upp í íslenskan rétt og um leið lá fyrir að strangar reglur yrðu enn strangari og kostnaður myndi aukast til muna.

Þessi reglugerð er nú framkvæmd til fulls í millilandaflugi á Íslandi, en frá upphafi lá ljóst fyrir að framkvæmd mjög hertra reglna innanlands myndi kalla á umfangsmiklar og kostnaðarsamar breytingar á allri umgjörð innanlandsflugsins. Til að mynda hefði þurft að taka upp kostnaðarsama skoðun á öllum farangri og handfarangri og vopnaleit og öryggiseftirlit við innritun líkt og farþegar eiga að venjast í millilandaflugi. Því lagði ég ríka áherslu á að leitað yrði leiða til að tryggja, sem frekast er unnt, örugga umgjörð innanlandsflugsins með öðrum hætti, og óska eftir undanþágu fyrir innanlandsflugvellina frá gildissviði reglugerðarinnar. Svo víðtæk undanþága var fjarri því að vera auðsótt, en með rökföstum málflutningi féllst framkvæmdastjórn ESB á sjónarmið okkar og flugvernd í innanlandsflugi því tryggð á einfaldari og ódýrari hátt en í millilandafluginu. Flugmálastjórn gerði lauslega áætlun á kostnaði er hlytist af fullri upptöku reglugerðarinnar í innanlandsflugi og er þar um að ræða u.þ.b. 800 milljónir króna á ári, sem með þessari einföldu undanþágu sparast því íslenskum flugfarþegum og skattgreiðendum. Til samanburðar má nefna að heildarframlög ríkisins til flugvallakerfisins vegna innanlandsþjónustu á árinu 2005 eru, samkvæmt samgönguáætlun, 4.090 m.kr. með stofnkostnaði að teknu tilliti til afborgunar lána vegna Reykjavíkurflugvallar.

Hér um að ræða eitt dæmi af mörgum þar sem sá sveigjanleiki, sem við höfum gagnvart ESB með EES samningnum, hefur tryggt okkur í senn sameiginlegan opinn markað á öllu EES svæðinu en um leið, þegar á reynir, er fundin skynsamleg lausn – íslenskum skattgreiðendum og farþegum í fluginu til hagsbótar.