Stjórnmálaflokkar undirbúa um þessar mundir val á framboðslista vegna alþingiskosninga.  Sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi hafa ákveðið að viðhafa prófkjör 9. nóvember næstkomandi.

Tækifæri á tímamótum

Íbúar hins nýja Norðvesturkjördæmis standa um þessar mundir frammi fyrir nýjum og spennandi möguleikum til þess að láta að sér kveða við stjórnvöl þjóðarskútunnar. Í prófkjöri sjálfstæðismanna 9. nóvember geta þeir stillt upp sterkum og samhentum lista sem laðar til sín öflugan stuðning í þingkosningum á vori komanda. Um leið gefum við tóninn um að Norðvesturkjördæmið verði frá upphafi eitt sterkasta vígi sjálfstæðisstefnunnar – og kröftugur málsvari fyrir hagsmuni íbúanna.

Framtíðin ber fjölmörg tækifæri í skauti sér til þess að styrkja landsbyggðina. Með greiðar samgöngur og öfluga samskiptatækni að vopni getum við jafnað aðstöðu landsmanna og treyst undirstöður byggðar utan höfuðborgarsvæðisins. Ég sé sóknarfæri á ýmsum sviðum á Norðvesturlandi og er sannfærður um að við getum lagt grunn að bættum hag okkar á næstu árum hvað varðar framleiðslugreinar til sjávar og sveita, menntun, menningarlíf, ferðaþjónustu, iðnað og ýmsa aðra atvinnustarfsemi.

Ég hvet alla sjálfstæðismenn og aðra stuðningsmenn flokksins til þess að nýta tækifærið og gera fyrsta prófkjörið í Norðvesturkjördæminu að sterku upphafi margra sameiginlegra sigra á stjórnmálasviðinu. Ég gef kost á mér til að leiða það starf og mun einskis láta ófreistað til að leysa það verkefni af alúð og heilindum.

Sturla Böðvarsson