Ræða samgönguráðherra á alþjóðaumferðaröryggisdaginn, 7. apríl, flutt í húsnæði Björgunarmiðstöðvarinnar.

Ágætu tilheyrendur,

Ég vil byrja á að þakka þeim sem hafa undirbúið umferðaröryggisár sem hefst í dag 7.apríl.

Samgönguráðuneytið og öryggismálin

Nú um áramótin tók samgönguráðuneytið við umferðarmálum og þar með umferðaröryggismálum úr hendi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Það er óhætt að segja að mikill áhugi hafi verið fyrir málaflokkinum innan samgönguráðuneytisins um langa hríð. Og af hverju skyldi það nú vera, – jú, vegna þeirra möguleika sem við sáum fyrir okkur með samnýtingu á kröftum Vegagerðarinnar annars vegar og Umferðarstofu hins vegar, til sameiginlegs átaks í umferðaröryggismálum,auk þeirrar reynslu sem er innan ráðuneytisins af öryggismálum í flugi og á sjó. Með þessari breytingu falla öll öryggismál umferðar undir samgönguráðuneytið.

Óásættanleg staða – Við getum breytt þessu

Á hverjum degi eru framin afbrot í umferðinni. Það er óásættanlegt að á Íslandi láti jafnmargir lífið, eða slasist alvarlega í umferðinni og raun ber vitni um. Á þriðja tug banaslysa er tala sem við erum orðin vön þegar árið er gert upp – það er tala sem við eigum ekki að sætta okkur við. Og við hana bætast svo um 200 alvarleg slys. Þessu getum við breytt og verðum að breyta.

Það er talið að umferðarslys kosti þjóðfélagið 20 milljarða króna á ári. Því getum við breytt.

Það er ljóst að þær umferðaröryggisaðgerðir, sem gripið hefur verið til á höfuðborgarsvæðinu, hafa skilað sér í ánægjulegri fækkun alvarlegra slysa. Aðgerðir eins og lækkaður hámarkshraði í íbúðahverfum, gangbrautir yfir stórar umferðaræðar, mislæg gatnamót, aðgreining gagnstæðra akbrauta o.fl. Árangur, sem náðst hefur á höfuðborgarsvæðinu, rennir styrkari stoðum undir þá ákvörðun mína að taka til hendinni á þjóðvegum landsins. Þar með er ekki sagt að slakað verið á í þéttbýlinu, en staðreyndin er sú að meginþorri alvarlegra umferðarslysa á sér stað orðið úti á þjóðvegum utan þéttbýlis með vaxandi umferð allan ársins hring. Þar er verk að vinna.

Hugarfarsbreyting

Í umferðinni þarf hugarfarsbreytingu ökumanna. Skýrslan, sem hér er kynnt í dag, sýnir að flest alvarleg umferðarslys verða þegar ökumaður er að brjóta lög. Eru þá hraðakstur, ölvunarakstur og akstur án bílbelta algengustu brotin. Hugarfarsbreytingu þarf í umferðarmenningu okkar Íslendinga. Tillitsleysi ökufanta gagnvart samferðarmönnum sínum er með ólíkindum. Ökumenn skaða sjálfa sig með þessu háttalagi og þeir skaða saklausa vegfarendum sem aka á löglegum hraða og virða umferðarreglur. Það er hverjum manni ljóst að ef allir færu að umferðarlögunum og ækju eftir aðstæðum, þá væru alvarleg umferðarslys mun færri. Þessu ástandi, sem er í umferðinni, getum við breytt.

Aðgerðir á vegakerfinu

Aðgerðir á vegakerfinu eru hluti þess átaks sem vinna þarf skipulega að. Það er nauðsynlegt að halda áfram af enn meiri krafti en hingað til þegar kemur að fækkun einbreiðra brúa, ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi þess.

Bættar merkingar eru að sama skapi aðgerð sem hægt er að ráðast í hratt og örugglega. Þegar ég tala um bættar merkingar þá á ég til að mynda við leiðbeinandi hraðamerkingar á erfiðum vegaköflum, svo sem í kröppum beygjum og þar sem bundið slitlag endar og malarvegur tekur við. Það er öryggisaðgerð sem getur skilað miklum árangri fljótt og án mikils kostnaðar. Slys á erlendum ferðamönnum hafa verið allt of mörg í gegnum tíðina og bættar merkingar eru líklegar til að gagnast bæði innlendum sem erlendum ferðamönnum.

Lausaganga búfjár er alvarlegt vandamál víða um landið Það er ætlun mín að tekið verði á því vandamáli. Um það verður að ná samkomulagi við sveitarfélögin, um að hverfa frá því fyrirkomulagi. Það vita allir sem hafa ferðast um landið að lausaganga búfjár, og ekki síst hrossa, skapar mikla hættu á vegum. Með samstilltu átaki Vegagerðar, Umferðarstofu og sveitarfélaga getum við breytt því ástandi.

Efling ökunáms

Efling ökunáms er mikilvægur þáttur í auknu umferðaröryggi. Ég tel nauðsynlegt að samgönguráðuneytið og menntamálaráðuneytið taki höndum saman um að veita umferðarfræðslu aukið vægi í námsskrá grunnskólanna, sérstaklega í eldri bekkjunum, en fyrirkomulag umferðarfræðslu í fyrstu bekkjum grunnskólans er með ágætum. Nái þetta fram að ganga verða unglingar mun betur settir þegar á framhaldsskólaaldurinn er komið og hið raunverulega ökunám hefst. Eigi að verða hugarfarsbreyting þarf að beina áróðrinum að unga fólkinu sem sem er að byrja feril sinn sem ökumenn.

Ég tel að mikil bót hafi orðið þegar æfingaaksturstímabili þeirra, sem eru að læra á bíl, var komið á en nú er kominn tími til að stíga næsta skref. Boða ég hér með þá breytingu að innan tíðar verði öllum þeim, sem fá ökuskírteini í fyrsta sinn, gert að æfa sig á sérstaklega gerðum æfingasvæðum. Svokölluðum Ökugerðum. Þetta fyrirkomulag er við líði í mörgum löndum í kringum okkur og hefur gefið góða raun. Í Ökugerðum sem þessum öðlast nemendur til dæmis skilning á hversu bjargarlausir þeir eru í hálku ef ekið er hraðar en aðstæður leyfa. Umhverfi ökunámsins getum við breytt í samstarfi við ökukennara.

Rannsóknir.

Ég tel nauðsynlegt að efla rannsóknir sem unnar eru á sviði umferðaröryggismála. Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur verið þröngur stakkur sniðinn í gegnum tíðina og hefur það orðið til þess að rannsóknir hafa verið takmarkaðar við mjög afmarkaðan fjölda slysa, það er eingöngu banaslys hafa verið rannsökuð.

Það er nauðsynlegt að efla þessar rannsóknir. Rannsóknir umferðarslysa eru í eðli sínu ólíkar rannsóknum sjó- og flugslysa að því leiti að fjöldi umferðarslysa er það mikill að um sívinnslu er að ræða. Sívinnslan miðast við að þeir sem að umferðaröryggismálum starfa geti tekið upplýstar og góðar ákvarðanir, enda er markmiðið það sama; Að koma í veg fyrir slys.

Eftirlit.

Eftirlit lögreglu á vegum er þáttur í umferðaröryggi sem seint verður lögð of mikil áhersla á. Hámarkshraði á vegum er engin tilviljun. Hámarkshraðinn er sá hraði sem vegirnir eru hannaðir fyrir. Það eru sláandi tölur sem liggja fyrir um fjölda „afbrota“ í umferðinni. Það að 75% allra afbrota í landinu séu umferðarlagaafbrot er auðvitað grafalvarlegt mál þegar litið er til þess að í meirihluta alvarlegra slysa þá er ökumaðurinn að brjóta lög. Í flestum tilvikum með hraðakstri, í öðrum tilvikum með ölvunarakstri og svo mætti áfram telja. Ég endurtek því það sem ég sagði hér fyrr í tölu minni að ef ökumenn halda sig innan hámarkshraða og fylgja akstursreglunum verða alvarleg slys mun færri en nú er.

Hvað er til ráða gegn hraðakstursvandanum. Ég vil leggja áherslu á að hraðaeftirlit verði aukið og ein leiðin til þess er að fjölga hraðamyndavélum um landið. Danir hafa farið þessa leið og eru með 1700 merkta myndavélapunkta á vegakerfi sínu. Reynsla þeirra er að stórlega hafi dregið úr hraða á þjóðvegakerfinu og um leið hafi náðst góður árangur í fækkun alvarlegra umferðarslysa. Bretar hafa einnig náð góðum árangri í því að draga úr hraðakstri. Sú leið sem þeir hafa farið á lengri vegaköflum er að taka mynd af bifreið við upphaf vegakafla og síðan aftur í lok þess sama vegakafla og reikna meðalhraða ökutækis.
Það þarf vart að fjölyrða um áhrif þessa fyrirkomulags á ökuhraða. Þetta er leið sem áhugavert er að skoða frekar sem viðbót við staðbundnar hraðamyndavélar. Hraðakstur er vandamál sem við verðum að taka á í sameiningu því að mínu mati er það sjálfsagður réttur þeirra sem aka um vegi landsins að vera ekki lagðir í hættu vegna aksturslags þeirra sem brjóta af sér í umferðinni. Þessu getum við breytt.

Umferðaröryggisáætlun

Sem stjórnartæki og framkvæmdaáætlun í þessari vinnu mun ég leggja fram endurskoðaða umferðaröryggisáætlun sem verður á ábyrgð Umferðarstofu að fylgja eftir. Ný umferðaröryggisáætlun verður lögð fram með skýrum markmiðun, aðgerðir tímasettar, kostnaður áætlaður og ábyrgð verkefna verður skýr. Ábyrgð á jafn mikilvægum aðgerðum og þessum verður að vera skýr. Því getum við breytt.

Flókin stjórnsýsla.

Ég stefni að því að einfalda stjórnsýslu umferðaröryggismála. Næstu mánuði verður unnið að endurskoðun laganna og að koma fram með nauðsynlegar laga og reglugerðabreytingar í haust.

Góðir áheyrendur,

Það fylgir því mikil ábyrgð að hafa tekið við þessum málaflokki sem umferðaröryggismálin eru. Sem samgönguráðherra, mun ég gera þær breytingar á skipulagi umferðaröryggismála sem taldar verða farsælar í ljósi nýrra aðstæðna. Verkefni okkar er að vinna gegn alvarlegum umferðarslysum. Það verður ekki gert með því að einblína á að fækka umferðarslysum um tiltekna prósentu, heldur verður það gert út frá þeirri hugsun að alvarleg umferðarslys séu óásættanleg. Það ber að vinna gegn þeim og koma í veg fyrir þau. Þetta er ekki keppni í tölfræði sem við tökum þátt í heldur átak til að bjarga mannslífum. Til þess að ná árangri þarf þjóðarátak. Við getum breytt þessu ástandi sem er í umferðinni og ógnar öllum vegfarendum.