Í nýjasta eintaki af Bændablaðinu voru lagðar þrjár spurningar fyrir samgönguráðherra um samskiptatækni. Spurningarnar eru birtar hér ásamt svörum ráðherra.

1. Nú hafa margir talið að Símanum bæri að byggja upp alþjónustu um allt land fyrir árslok 2002 (m.a. 128.000 b/s gagnaflutningsgetu). Þetta hafa margir úr röðum bænda byggt á ummælum sem forsvarsmenn Símans létu frá sér fara á fundi í kjaranefnd Búnaðarþings í fyrra.

Samkvæmt upplýsingum Símans í síðasta Bændablaði þá koma hvergi
fram nein tímamörk í lögunum né í rekstrarleyfi fyrirtækisins.

Samkvæmt upplýsingum frá upplýsingafulltrúa Símans hefur fyrirtækið það að markmiði: „… að fyrir árslok 2002 verði ISDN væðing á landsbyggðinni mjög langt komin eða nær lokið.“

Hvaða tryggingu hefur dreifbýlisfólk á nauðsynlegum umbótum í þessum málum á næstunni?

Alþjónustukvöð Landssíma Íslands hf.

Samkvæmt leyfisbréfi Landssíma Íslands hf. skal félagið tryggja öllum landsmönnum gagnflutningsþjónustu í samræmi við reglugerð um alþjónustu nr. 641/2000. Grundvallaratriðið er það, að allir landsmenn hafa rétt til alþjónustu óháð búsetu, og gagnaflutningur með allt að 128 kb/s hraða fellur undir alþjónustu. Sú undantekning er þó gerð á þessu að alþjónustuveitandi getur hafnað umsókn ef fjarlægð frá næsta stofnkerfi heimtauga í fjarskiptaneti hans til umsækjanda er lengri en 10 km eða ef kostnaður er áætlaður sérstaklega mikill. Ágreiningi er hægt að skjóta til Póst- og fjarskiptastofnunar.

Símanum ber því að verða við öllum beiðnum um gagnaflutningsþjónustu með allt að 128 kb/s bitahraða nema í þeim undantekningartilvikum sem að framan eru rakin. Aftur á móti eru engin tímamörk um það hversu langan tíma Síminn hefur til að koma alþjónustunni á frá því að beiðni berst. Um það gilda því almennar reglur um að alþjónustuveitanda beri að hafa alþjónustu til reiðu innan eðlilegra tímamarka, og væntanlega er það metnaður fyrirtækisins að veita góða þjónustu og þar með að bregðast skjótt við þegar falast er eftir þjónustu þess.


2. Er ekki nauðsynlegt fyrir stjórnvöld að ýta á eftir þessum málum með myndarlegum hætti t.d. með að styrkja símafyrirtæki til að byggja upp öflugra Internetsamband í sveitum landsins. Hindrar ekki arðsemiskrafan nauðsynlegar umbætur í þessu máli?

Með núgildandi fjarskiptalögum ríkir frelsi í fjarskiptum á Íslandi í samræmi við skuldbindingar Íslendinga vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Eitt af markmiðum núgildandi fjarskiptalaga að tryggja samkeppni á íslenskum fjarskiptamarkaði. Ráðuneytið fer með yfirstjórn fjarskiptamála. Hlutverk þess er m.a. að móta það regluverk sem gildir á íslenskum fjarskiptamarkaði svo markmiðum fjarskiptalaga verði náð. Styrkveitingar til fjarskiptafyrirtækja samræmast ekki því hlutverki enda verður markmiðum um að ákveðin lágmarksþjónusta standi öllum til boða óháð staðsetningu betur náð með alþjónustukvöðum en styrkveitingum til fjarskiptafyrirtækja úr ríkissjóði sem gætu jafnframt brotið gegn skuldbindingum skv. EES-samningnum.


3. Munt þú beita þér fyrir því að jafna aðstöðu dreifbýlis og þéttbýlis hvað varðar gagnaflutningsþjónustu?

Stefna samgönguráðherra er að fjarskipti eigi að vera fyrir alla, og að þau eigi að vera ódýr, örugg og aðgengileg. Á árinu 2001 skipaði ráðherra starfshóp um kostnað við gagnaflutninga og eflingu fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu á Íslandi. Starfshópurinn kannaði möguleika á jöfnun kostnaðar vegna gagnaflutninga um ATM-gagnaflutningsnet Landssíma Íslands hf. sem nær um allt land. Innan netsins á töluverð jöfnun sér stað, en aukakostnaður við tenginar milli svo kallaðra hnútpunkta í kerfinu samkvæmt skuldbindingu Landssímans er um það bil 17.000 kr. á mánuði sé miðað við 2 Mb/s línu. Starfshópurinn lagði til að jafna bæri þennan mun með greiðslum úr ríkissjóði, þannig að stofnaður yrði sjóður sem endurgreiddi kostnaðarauka til notenda ATM-þjónustu. Með samþykkt þeirrar tillögu yrði stórt skref stigið í þá átt, að fjarskiptakostnaður á Íslandi verði sá sami. Þá verður með sanni hægt að segja að öll almenn fjarskiptaþjónusta, svo sem hefðbundinn talsími og farsími, ISDN, ADSL og ATM og þar með IP-þjónusta, verði seld gegn sama verði um allt land.