Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tók ákvörðun um það snemma árs 2000 að árið 2003 yrði ár fatlaðra í Evrópu. Hugmyndin mun hafa komið frá samtökum fatlaðra í Evrópu. Gert er ráð fyrir að árið verði nýtt til þess að vekja athygli á hagsmunamálum fatlaðra og vinna að réttindamálum þeirra og kynna framlag fatlaðra til samfélagsins. Á þetta vil ég minna hér á heimasíðunni um leið og ég vek athygli á viðurkenningu sem Svæðisskrifstofa um málefni fatlaðra á Vesturlandi fékk á degi fatlaðra 3.desember s.l.
Viðurkenningin var Múrbrjótur Landssamtakanna Þroskahjálpar. Múrbrjóturinn er viðurkenning samtakanna til þeirra sem þykja hafa skarað fram úr í að ryðja fötluðum nýjar brautir í jafnréttisátt. Svæðisskrifstofan á Vesturlandi hlaut Múrbrjótinn fyrir þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Fyrir íbúa Vesturlands er þessi viðurkenning mikilvæg. Góð þjónusta við fatlaða í heimabyggð er nauðsynleg til þess að auðvelda fötluðum búsetu sem víðast. Góð þjónusta við fatlaða eins og Svæðisskrifstofan hefur staðið fyrir er mikilvægt og þakkarvert byggðamál. Ef öll meginþjónusta við fatlaða er veitt á höfuðborgarsvæðinu, en ekki úti á landi, ýtir það undir frekari byggðaröskun. Fjölskyldur fatlaðra þurfa á því að halda að geta sótt sem mesta og besta þjónustu í heimabyggð og það hefur Svæðisskrifstofan um málefni fatlaðra á Vesturlandi leitast við að gera. Er ástæða til þess að óska aðstandendum Svæðisskrifstofunnar til hamingju með þennan árangur sem viðurkenningin ber vott um. Þess er að vænta að Magnús Þorgrímsson og hans fólk geti haldið áfram þessu mikilvæga starfi í þágu fatlaðra og um leið samfélagsins í heild.