Á kjörtímabilinu sem senn er að ljúka hafa verið samþykkt 47 frumvörp og þingslályktunartillögur. Í meðfylgjandi texta eru taldar upp þingsályktunartillögur og frumvörp sem annars vegar hafa verið lögð fram á tímabilinu og hins vegar samþykkt. Í lok textans er að finna súlurit þar sem borin eru saman samþykktar þingsályktunartillögur og frumvörp samgönguráðuneytisins á árunum 1987 – 2003.

Lagt fram á árinu 1999

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra 28.05.1999 –

HAUSTÞING

Frumvarp til laga um vitamál.
Frumvarp til laga um fjarskipti.
Frumvarp til laga um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta.
Frumvarp til laga um Póst- og fjarskiptastofnun.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 60/1998 um loftferðir.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 103/1996 um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar.
Tillaga til þingsályktunar um flugmálaáætlun árin 2000–2003.
Tillaga til þingsályktunar um vegáætlun fyrir árin 2000–2004.

Heildartala framlagnar: 8

Samþykkt á árinu 1999:

Fjarskiptalög.

Með tilkomu laganna urðu umtalsverðar breytingar á réttarumhverfi fjarskiptafyrirtækja á Íslandi. Tilgangur laganna var tvíþættur, annars vegar að stuðla að aukinni samkeppni og tryggja aðgang allra landsmanna að ákveðinni lágmarksþjónustu, svokallaðri alþjónustu, og hins vegar að laga íslensku löggjöfina að tilskipunum EES um fjarskiptamál.

Lög um Póst- og fjarskiptastofnun.

Reynsla af fjarskiptamarkaðnum í kjölfar samkeppninnar árið 1997 kallaði á breytingar á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun. Fyrst og fremst í þeim tilgangi að styrkja stofnunina til að takast á við breytt fjarskiptalög og nýtt viðskiptaumhverfi. Í lögunum er leitast við að skerpa á úrræðum stofnunarinnar til að afla upplýsinga frá einstökum póst- og fjarskiptafyrirtækjum á markaðnum í heild, hvort heldur það eru upplýsingar í sambandi við einstök mál eða tölfræðilegar upplýsingar um markaðinn.

Lög um vitamál.

Tilgangur laganna er að breyta lagagrunni fyrir vitagjald sem ætlað er að standa straum af stofn- og rekstrarkostnaði Siglingastofnunar á leiðsögukerfum fyrir skip. Helsta breyting sem lögin hafa í för með sér er að vitagjald verður 68,60 kr. á hvert brúttótonn skips sem tekur höfn hér á landi. Hálft tonn eða þar yfir telst heilt tonn, en minna broti er sleppt.
Gjaldið skal aldrei vera lægra en 3.000 kr.

Heildartala samþykktra: 3

Lagt fram á árinu 2000

VORÞING
Frumvarp til laga um breytingu á vegalögum nr. 45/1994 með síðari breytingum.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitinga- og gististaði nr. 67/1985.
Frumvarp til laga um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2000.
Frumvarp til laga um bílaleigur.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tilkynningarskyldu íslenskra skipa nr. 40/1977 með síðari breytingum.
Frumvarp til laga um rannsókn sjóslysa.
Frumvarp til laga um breytingar á siglingalögum nr. 34/1985 með síðari breytingum.
Tillaga til þingsályktunar um jarðgangaáætlun fyrir árin 2000–2004.

HAUSTÞING

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa nr. 115/1985 með síðari
breytingum.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 110/1999 um Póst- og fjarskiptastofnun.
Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 107/1999 um fjarskipti.
Frumvarp til laga um jöfnunargjald vegna alþjónustu á árinu 2001.
Frumvarp til laga um áhafnir íslenskra skipa.
Tillaga til þingsályktunar um hafnaáætlun árin 2001–2004.
Tillaga til þingsályktunar um sjóvarnaráætlun árin 2001–2004.

Heildartala framlagnar: 15

Samþykkt á árinu 2000:

Breyting á lögum nr. 103/1996 um breytingu á lögum um stofnun hlutafélags um rekstur
Póst- og símamálastofnunar.

Með lögunum er afnumin undanþága frá greiðslu stimpilgjalds á útgefnum hlutabréfum í Landssíma Íslands hf. og Íslandspósti hf. Greiða skal 0,5% stimpilgjald á fjárhæð hlutabréfa sem gefin hafa verið út í Landssíma Íslands hf. og Íslandspósti hf. Þetta er sambærilegt stimpilgjald og greitt er af hlutabréfum samkvæmt lögum nr. 36/1978 um stimpilgjald.

Breyting á vegalögum nr. 45/1994 með síðari breytingum.

Lögunum hefur tvívegis verið breytt síðan þau voru sett, annars vegar með lögum nr. 56/1995 og hins vegar með lögum nr. 83/1997. Lögin kveða á um breytingar á ákvæðum laganna um reiðvegi og um viðhald og viðhaldskostnað girðinga sem hefur í för með sér aukinn þátt Vegagerðarinnar í kostnaði girðinga meðfram vegum. Reiðvegir eru í fyrsta skipti skilgreindir sem vegflokkur í vegalögunum auk þess sem tryggð er sérstök eignanámsheimild vegna framkvæmda við reiðvegi.

Breytingar á siglingalögum nr. 34/1985 með síðari breytingum.

Tilgangur með lögunum er að endurskoða ákvæði um sjópróf með hliðsjón af þeim breytingum sem hafa orðið á réttarfari. Meginbreytingin er sú að ekki er lengur skylda að halda sjópróf.

Lög um rannsóknir sjóslysa.

Sjóslysarannsóknir eru í lögunum gerðar algjörlega sjálfstæðar og að því leyti hliðstæðar rannsóknum flugslysa, en hingað til hefur frumrannsókn sjóslysa verið hjá lögreglu og í sjóprófum. Sönnun í opinberum málum verður ekki byggð á skýrslum Rannsóknarnefndar sjóslysa, en það er gert til þess að trúnaður megi haldast milli rannsakanda og þeirra sem rannsóknin beinist að. Við gildistöku laganna fellur úr gildi skipun núverandi Rannsóknarnefndar sjóslysa og skal ráðherra eftir gildistökuna skipa Rannsóknarnefnd sjóslysa samkvæmt lögum þessum.

Lög um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2000.

Samkvæmt fjarskiptalögum er gert ráð fyrir að hægt sé að skylda fjarskiptafyrirtæki til þess að veita svokallaða alþjónustu. Ef slík þjónusta, sem fyrirtæki er gert að veita, felur í sér meiri tilkostnað en sem nemur tekjum getur viðkomandi fyrirtæki krafist fjárframlaga sem tryggja eðlilegt endurgjald fyrir þjónustuna. Til að standa straum af þessum greiðslum skal
innheimt jöfnunargjald sem rennur til Póst- og fjarskiptastofnunar og skal það ákveðið árlega með lögum. Í lögunum er lagt til að jöfnunargjaldið fyrir árið 2000 verði 0,18% af veltu fjarskiptafyrirtækja vegna almennrar þjónustu.

Lög um bílaleigur.

Með nýju lögunum er leitast við að setja starfsgreininni fastari skorður með útgáfu starfsleyfa, þar sem fram koma kröfur til þeirra sem fást við útleigu bifreiða, og auka þannig öryggi viðskiptavinarins. Í lögunum kemur meðal annars fram að þau ná ekki yfir starfsemi kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtækja, leigu í eigin þágu eða til tengdra aðila.

Breyting á lögum um tilkynningarskyldu íslenskra skipa nr. 40/1977 með síðari breytingum.

Í lögunum er lagt til að skip sem stunda takmarkaða sjósókn eða hafa aðeins sumarhaffæri verði ekki undanskilin frá ákvæðum um sjálfvirka tilkynningarskyldu. Samkvæmt samkomulagi um framkvæmd sjálfvirkrar tilkynningarskyldu, sem undirritað var í mars 1998, er miðað við að 40.000 kr. styrkur verði veittur úr ríkissjóði til skipa sem þurfa að kaupa búnað til VHF-fjarskipta vegna sjálfvirka tilkynningarskyldukerfisins.

Breyting á lögum nr. 60/1998 um loftferðir.

Gjaldtökuheimildir loftferðalaga eru auknar, fyrst og fremst varðandi þjónustugjöld. Jafnframt er lagt til að innheimt verði sérstakt leiðarflugsgjald til Flugmálastjórnar til fjármögnunar flugleiðsöguþjónustu við flugrekendur. Leiðarflugsgjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði af flugumferðarþjónustu, fjarskiptaþjónustu, veðurþjónustu, leitar- og björgunarþjónustu og upplýsingaþjónustu við innanlandsflug. Að lokum er lögunum ætlað að leiðrétta ákvæði loftflutningskafla loftferðalaganna.

Breyting á lögum um skráningu skipa nr. 115/1985 með síðari breytingum.

Með lögunum er lagt til að heimilt verði að skrá kaupskip á íslenska skipaskrá þegar aðilar hafa skipið aðeins á leigu, þ.e. þegar gerður er samningur um leigu á kaupskipi milli ríkisborgara eða lögaðila tveggja ríkja.

Breyting á lögum nr. 110/1999 um Póst- og fjarskiptastofnun.

Með lögunum er verið að afla lagaheimildar til gjaldtöku vegna þriðja GSM 900 rekstrarleyfisins. Á farsímamarkaði eru nú tveir aðilar sem starfrækja farsímanet fyrir GSM 900 MHz-þjónustu. Gert er ráð fyrir að veita þriðja aðilanum tíðni til starfrækslu á farsímaneti.

Lög um jöfnunargjald vegna alþjónustu árið 2001.

Jöfnunargjaldið fyrir árið 2001 verður 0,12% af veltu fjarskiptafyrirtækja vegna almennrar þjónustu.

Breyting á lögum um veitinga- og gististaði nr. 67/1985.

Fjölgað í flokkum veitinga- og gististaða um þrjá, þ.e. bætt við flokkum fyrir krár, kaffihús og næturklúbba til þess að skipulagsyfirvöld sveitarfélaga geti haft afgerandi áhrif á staðsetningu slíkra staða. Jafnframt er gert ráð fyrir heimild til að synja um útgáfu leyfis þegar hlutaðeigandi skuldar skatta, opinber gjöld og fleira.

Heildartala samþykktra: 12

Lagt fram á árinu 2001

VORÞING
Frumvarp til laga um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna nr. 43/1987 með síðari breytingum o.fl.
Frumvarp til laga um leigubifreiðar.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti nr. 107/1999.
Frumvarp til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.
Tillaga til þingsályktunar um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda.

HAUSTÞING

Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1975 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972, sbr. lög nr. 56/1986, nr. 25/1990 og nr. 19/1993.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 107/1999 um fjarskipti.
Frumvarp til laga um leigubifreiðar.
Frumvarp til laga um póstþjónustu.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir nr. 60/1998.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/2001 um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa nr. 115/1985 með síðari breytingum.
Frumvarp til laga um samgönguáætlun.
Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða samgönguáætlun o.fl.
Frumvarp til hafnalaga.

Heildartala framlagnar: 16

Samþykkt á árinu 2001:

Lög um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

Eldri lög um sama efni voru endurskoðuð í ljósi krafna sem gerðar eru á evrópska efnahagssvæðinu og vegna óska innlendra aðila. Meginbreytingin felst í því að lagaumhverfi þessara greina er gjörbreytt þar sem nú er stuðst við almenn skilyrði eins og starfshæfni og fleira. Þá er almenningssamgöngum á landi markaður nýr rammi og er heimild Vegagerðarinnar til samninga við sérleyfishafa styrkt og lögfest að sérleyfi sem veitt verða eftir 1. ágúst árið 2005 verði boðin út.

Breytingar á lögum nr. 107/1999 um fjarskipti – hljóðritun símtala

Tilgangurinn með lögunum er að rýmka heimildir fyrirtækja og opinberra stofnana til að hljóðrita samtöl sem þeim berast að því marki sem slík hljóðritun brýtur ekki gegn friðhelgi einkalífs hlutaðeigandi einstaklinga.

Breytingar á lögum nr. 107/1999 um fjarskipti – skilyrði rekstrarleyfis

Sett er skýr heimild í fjarskiptalög fyrir Póst- og fjarskiptastofnun til að setja skilyrði í leyfisbréf rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild, sem tryggi að leyfishafinn uppfylli skyldur sínar skv. lögunum og reglum settum með heimild í þeim, svo og leyfisbréfi.

Breytingar á lögum nr. 107/1999 um fjarskipti – jöfnunargjald

Tilgangur laganna er að setja í lög að gjaldstofn vegna jöfnunarsjóðs alþjónustu skuli vera 0,12% af bókfærðri veltu fjarskiptafyrirtækja. Gjaldið hefur hingað til verið ákveðið á hverju ári með sérstökum lögum. Jafnframt er tryggður aðgangur að heimtaugum rekstrarleyfishafa með umtalsverða markaðshlutdeild. Stefnt er að því að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins (EB) um opinn aðgang að heimtaugum í íslenskan rétt. Rekstrarleyfishöfum með umtalsverða markaðshlutdeild verður ótvírætt skylt að verða við öllum réttmætum og sanngjörnum beiðnum fjarskiptafyrirtækja um aðgang að heimtaugum og aðstöðu sem slíkum aðgangi tengist.

Breyting á lögum um lögskráningu sjómanna nr. 43/1987 með síðari breytingum o.fl.

Lagt er til að breytingar á lögum er varða lögskráningu sjómanna í þeim tilgangi að tryggja að áhafnir skipa sem ekki er skylt að lögskrá á, þ.e. skipa undir 20 brúttótonnum, séu tryggðar með sama hætti og áhafnir skipa sem skylt er að lögskrá á. Jafnframt er lagt til að heimilt verði með reglugerð að veita undanþágur frá ákvæðum laga nr. 43/1987 um
lögskráningu áhafna hafnsögubáta, dráttarbáta og björgunarskipa.

Lög um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Tilgangur laganna er að heimila sölu alls hlutafjár ríkissjóðs í Landssíma Íslands hf. Í forsendum fjárlaga fyrir árið 2001 er gert ráð fyrir 15,5 milljörðum króna í hagnað af sölu eigna. Áætlað er að stór hluti þeirrar fjárhæðar komi frá sölu á hlut í Landssíma Íslands hf. Ráðgert er að kostnaður af sölu Landssímans verði greiddur af sérstakri fjárveitingu til
framkvæmdanefndar um einkavæðingu.

Lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa.

Íslensk löggjöf er löguð að alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna skipa frá 1978 (STCW), sem tekur til áhafna flutninga- og farþegaskipa. Lögin taka til sömu atriða hjá sjómönnum á fiskiskipum (STCW-F).

Breyting á lögum nr. 7/1975 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó, 1972, sbr. lög nr.56/1986, nr. 25/1990 og nr. 19/1993.

Í lögunum er gert ráð fyrir að ríkisstjórninni verði heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á alþjóðareglum til þess að koma í veg fyrir árekstra á sjó sem samþykktar voru á þingi Alþjóðasiglingamála-stofnunarinnar 4. nóvember 1993.

Breyting á lögum nr. 73/2001 um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

Tilgangurinn með lögunum er að hækka gjald fyrir almennt rekstrarleyfi fyrir fólksflutninga úr 3.000 kr. fyrir hvert leyfi í 10.000 kr., þannig að gjaldið sé í samræmi við raunkostnað.

Lög um leigubifreiðar.
Tilgangur laganna er að færa stjórnsýslu leigubifreiðamála frá samgönguráðuneytinu til Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir að hlutverk Vegagerðarinnar felist í útgáfu atvinnuleyfa og skírteina fyrir afleysingabílstjóra, að hafa umsjón með námskeiðum og starfrækja gagnagrunn, sem mun geyma lágmarksupplýsingar sem nauðsynlegar eru til útgáfu atvinnuog/ eða starfsleyfis. Einnig er gert ráð fyrir að allar umsjónarnefndir fólksbifreiða verði lagðar niður. Eitt af verkefnum umsjónarnefndanna var að úrskurða um kærur vegna afgreiðslu á undanþágum. Það verkefni færist nú til samgönguráðuneytisins þar sem gert er ráð fyrir að hægt verði að skjóta ákvörðunum Vegagerðarinnar og bifreiðastöðvanna til samgönguráðuneytisins sem æðsta stjórnvalds.

Heildartala samþykktra: 10

Lagt fram á árinu 2002

VORÞING
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 76/2001 um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna nr. 43/1987 með síðari breytingum.
Tillaga til þingsályktunar um breytingu á vegáætlun fyrir árin 2000–2004.
Tillaga til þingsályktunar um breytingu á flugmálaáætlun fyrir árin 2000–2003.

HAUSTÞING

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu skipa nr. 115/1985 með síðari breytingum.
Frumvarp til laga um skipamælingar.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 19/2002 um póstþjónustu.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 132/1999 um vitamál.
Frumvarp til laga um eftirlit með skipum.
Frumvarp til laga um vaktstöð siglinga.
Frumvarp til laga um breytingu á lagaákvæðum er varða vinnutíma sjómanna.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skipulag ferðamála nr. 117/1994 með síðari breytingum.
Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014.

Heildartala framlagnar: 13

Samþykkt á árinu 2002:

Breyting á lögum um lögskráningu sjómanna nr. 43/1987 með síðari breytingum.
Svigrúm sem verið hefur í lögum um að veita skipverjum sem sækja um lögskráningu á skip undanþágu til að sækja öryggisfræðslunámskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna er þrengt. Lagt er til að sá sem sækir um lögskráningu og ekki hefur sótt tilskilið öryggisfræðslunámskeið fái einn frest til lögskráningar, fram að þeim tíma sem hann er skráður á námskeiðið.

Lög um póstþjónustu.

Kveðið er skýrar á um rétt landsmanna til lágmarkspóstþjónustu og er í því sambandi tekið upp hugtakið alþjónusta í stað grunnpóstþjónusta sem notað var. Í öðru lagi eru ákvæði um heimildir til að starfrækja póstþjónustu. Annars vegar er almenn heimild sem táknar skráningu póstrekanda eftir tilkynningu hans til Póst- og fjarskiptastofnunar og hins vegar rekstrarleyfi sem þarf til að veita alþjónustu. Í þriðja lagi eru ný ákvæði um gæði póstþjónustunnar og í fjórða lagi er ákvæði um jöfnunarsjóð alþjónustu.

Breyting á lögum um loftferðir nr. 60/1998.

Eftirlit Flugmálastjórnar er eflt með það að markmiði að auka flugöryggi. Í þessum tilgangi er þvingunarúrræðum stofnunarinnar fjölgað og gerð er krafa um að öryggiseftirlit með flugvöllum verði sambærilegt og eftirlit með öðrum flugrekstri. Þá er fellt niður gjald vegna leiðarflugsgjalda til Flugmálastjórnar fyrir flugumferðar- og flugleiðsöguþjónustu.

Lög um samgönguáætlun.

Með lögunum er verið að samræma áætlanagerð í samgöngumálum í landinu, skilgreina grunnnet samgangna, gera grein fyrir horfum og setja fram stefnu í samgöngumálum til næstu tólf ára. Samkvæmt lögunum verður samgönguáætlun unnin til tólf ára í senn og skipt upp í þrjú fjögurra ára tímabil. Sérstakt samgönguráð sem skipað er af samgönguráðherra skal hafa faglega umsjón með gerð samgönguáætlunar og fjögurra ára tímabilum hennar.

Breyting á ýmsum lagaákvæðum er varða samgönguáætlun o.fl.

Tilgangur laganna er að breyta ákvæðum nokkurra laga er fjalla um áætlanir í flugmálum, siglingamálum og vegamálum, til að koma á heildstæðri samgönguáætlun. Lögin voru samþykkt samhliða lögum um samgönguáætlun. Í lögunum eru lagðar til breytingar á flugráði og hafnaráði sem meðal annars fela í sér aukna aðkomu atvinnulífsins. Einnig er lagt til að starfsheiti forstjóra Siglingastofnunar verði breytt á þann veg að hann verði nefndur siglingamálastjóri.

Breyting á lögum nr. 73/2002 um breytingu á lagaákvæðum er varða samgönguáætlun o.fl.

Gildistöku laganna var flýtt.

Breyting á lögum um vitamál nr. 132/1999.
Lögum um vitamál var breytt í þeim tilgangi að hækka vitagjald í samræmi við verðlagsbreytingar frá því að upphæð gjaldsins var sett í lög um vitamál árið 1999. Í lögunum er auk þess kveðið á um að Siglingastofnun Íslands veiti umsögn, og þegar við á samþykki, fyrir legu og merkingu sæstrengja, neðansjávarleiðslna og hvers kyns fljótandi mannvirkja á sjó.

Breyting á lögum nr. 19/2002 um póstþjónustu.

Lögum um póstþjónustu var breytt á þann veg að íslenska ríkið hefur frá 1. janúar 2003 til 1. janúar 2006 einkarétt á póstþjónustu vegna póstsendinga bréfa, sem eru allt að 100 g í stað 250 g, og frá og með 1. janúar 2006 einkarétt á póstþjónustu vegna póstsendinga bréfa sem eru 50 g. Jafnframt eru nokkur atriði sett inn í frumvarpið sem skerpa á réttindum viðskiptavina póstrekenda.

Lög um skipamælingar.

Tilgangur með breytingu laga um skipamælingar var að samræma gjaldskrárákvæði í lögum sem kveða á um siglingar og gjaldtöku Siglingastofnunar Íslands. Miðað er að því að gjaldtakan standi undir beinum kostnaði við veitta þjónustu. Einnig er lagt til að gjald fyrir
mælingu skipa skuli miðast við brúttótonn en ekki brúttórúmlestir.

Breyting á lögum um skipulag ferðamála nr. 117/1994 með síðari breytingum.

Ferðamálasjóður var lagður niður 1. janúar 2003 í þáverandi mynd. Frá þeim degi voru eignir og skuldir sjóðsins yfirteknar af ríkissjóði og umboð stjórnar Ferðamálasjóðs fellt niður. Stuðningur við verkefni á sviði ferðaþjónustu verður áfram veittur í formi samstarfs Ferðamálaráðs og Byggðastofnunar. Verkefnin verða annars vegar fjármögnuð með
styrkjum af hálfu ferðamálayfirvalda og hins vegar með lánum frá Byggðastofnun. Jafnframt verða aðrar lánastofnanir hvattar til að sinna þessari vaxandi atvinnugrein betur en nú er.

Heildartala samþykktra: 10

Lagt fram á árinu 2003

VORÞING
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsókn sjóslysa nr. 68/2000.
Frumvarp til laga um rannsókn flugslysa.
Frumvarp til laga um þriðju kynslóð farsíma.
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands nr. 6/1996 með síðari breytingum.
Frumvarp til laga um fjarskipti.
Frumvarp til laga um Póst- og fjarskiptastofnun.
Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006.

Heildartala framlagnar: 7

Samþykkt á árinu 2003:

Lög um vaktstöð siglinga.

Komið verður á fót vaktstöð siglinga skipa um íslenska efnahagslögsögu og mun Siglingastofnun Íslands annast framkvæmd laganna en gert er ráð fyrir að rekstur vaktstöðvarinnar, ásamt tilkynningarskyldu íslenskra skipa, verði boðinn út. Hlutverk vaktstöðvarinnar er að vera miðstöð skipaumferðar í íslenskri efnahagslögsögu og halda utan um siglingar erlendra skipa sem koma til landsins.

Breyting á lögum um rannsókn sjóslysa nr. 68/2000.

Markmið laganna er tvíþætt, annars vegar er hlutverk Rannsóknarnefndar sjóslysa aukið þar sem nefndinni ber einnig að rannsaka atriði sem telja má að ráði miklu um afleiðingar sjóslysa, þ.e. hvernig fyrirkomulag hefur verið á tilkynningum um sjóslys, svo og hvernig leitar- og björgunaraðgerðum hefur verið háttað. Hins vegar að veita ráðherra heimild til að fela nefndinni að taka upp mál þar sem rannsókn er þegar lokið ef aðstæður krefjast þess.

Breyting á lögum um skráningu skipa nr. 115/1985 með síðari breytingum.

Með lögunum er Siglingastofnun veitt heimild til að skrá fiskiskip þurrleiguskráningu á erlenda skipaskrá en skipin verði eftir sem áður frumskráð á íslenska skipaskrá. Áður en heimildin er veitt skal liggja fyrir staðfesting sjávarútvegsráðuneytisins á því að nánar tiltekin skilyrði séu uppfyllt.

Lög um eftirlit með skipum.

Markmið með lögunum er að fylgja eftir nokkrum tilskipunum Evrópusambandsins um skoðun og eftirlit með skipum. Einnig er tilgangur laganna að breyta ákvæðum laga um gjaldtöku vegna þjónustu- og eftirlitshlutverks Siglingastofnunar með skipum í framhaldi af áliti nefndar fjármálaráðuneytisins og álits umboðsmanns Alþingis. Að lokum er Siglingastofnun veitt heimild til að fela öðrum hæfum aðilum að framkvæma skoðun og gefa út starfsleyfi þeim til handa.

Breyting á lagaákvæðum er varða vinnutíma sjómanna.

Tilgangur með lögunum er að gera breytingar á sjómannalögum vegna innleiðingar EESgerða sem varða vinnu- og hvíldartíma skipverja, á fiskiskipum annars vegar og á farþegaog flutningaskipum hins vegar.

Breyting á lögum um Siglingastofnun Íslands nr. 6/1996 með síðari breytingum.

Með lögunum fær Siglingastofnun Íslands heimild til að annast framkvæmd laga um vaktstöð siglinga og að eiga samstarf við Siglingaöryggisstofnun Evrópu með það að markmiði að auka öryggi í siglingum, draga úr mengun frá skipum og koma að sjónarmiðum íslenskra stjórnvalda í starfi stofnunarinnar.

Fjarskiptalög.

Með lögunum er innleidd ný fjarskiptalöggjöf ESB sem leysir af hólmi flestar gerðir sem fyrir eru um fjarskiptamál. Markmiðið er að efla virka samkeppni annars vegar og að tryggja að allir landsmenn eigi kost á ákveðinni lágmarksfjarskiptaþjónustu hins vegar.

Lög um Póst- og fjarskiptastofnun.

Lögin gera Póst- og fjarskiptastofnun betur í stakk búna til að sinna margvíslegum verkefnum sem byggjast á nýrri fjarskiptalöggjöf Evrópusambandsins og nýsamþykktum fjarskiptalögum
hér á landi.

Hafnalög.

Ný hafnalög eru gjörbreytt frá fyrri lögum. Stjórn hafna og ábyrgð á rekstri þeirra er með lögunum færð alfarið til sveitarstjórna. Gert er ráð fyrir að rekstrarfyrirkomulag hafna geti verið með þrenns konar hætti: Hafnir án hafnarstjórnar í eigu sveitarfélags, hafnir með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags og einnig annað rekstrarform sem ekki fellur undir opinberan rekstur. Lögin gera ráð fyrir minni greiðsluþátttöku ríkissjóðs í hafnarframkvæmdum, en hagur minni hafna á byggðasvæðum er þó betur tryggður en áður með ríkisstyrkjum. Gjaldskrá hafna verður gefin frjáls eftir aðlögunartíma.

Breyting á sjómannalögum.

Með lögunum er verið að auka réttindi sjómanna þegar skip verður fyrir sjótjóni og dæmt óbætanlegt eða þegar skip er af óviðráðanlegum ástæðum tekið úr þjónustu útgerðarmanns um ófyrirsjáanlegan tíma og skiprúmssamningi slitið.

Þingsályktun um samgönguáætlun fyrir árin 2003–2014.

Þingsályktunin er í samræmi við lög um samgönguáætlun nr. 71/2002 og tekur til áranna 2003–2014. Áætlunin felur í sér viðamikla stefnumótun í samgöngumálum og helstu markmið sem unnið skal að þar sem grunnnet samgöngukerfisins er meðal annars skilgreint, en því er ætlað að ná til meginsamgöngukerfis landsins. Áætlun um fjáröflun til samgöngumála er sett fram og yfirlit um útgjöld til allra helstu framkvæmda, viðhalds og
reksturs samgöngustofnana.

Þingslályktun um samgönguáætlun fyrir árin 2003–2006.

Í samræmi við lög um samgönguáætlun nr. 71/2002 tekur þingsályktunin til áranna 2003–2006. Um er að ræða deiliáætlun samgönguáætlunar 2003–2014 þar sem markmiðin eru útfærð auk þess sem framkvæmdir og útgjaldaliðir eru sundurliðaðir fyrir hvert ár.

Heildartala samþykktra: 12