Í vikunni var brotin rúða í Alþingishúsinu. Árásaraðilarnir voru handteknir. Ofbeldissinnaðir mótmælendur hafa reyndar látið lítið fyrir sér fara við Austurvöll eftir að minnihlutastjórnin var mynduð í febrúar og Vinstri grænir settust í ríkisstjórn.
Það leiðir hugann að því hvernig málin þróuðust s.l. haust þegar bankarnir hrundu og óvissa og skelfing greip um sig meðal landsmanna. Almenningur mótmælti eins og við var að búast. Við þær aðstæður var tækifærið hins vegar gripið, þjóðin afvegaleidd og fólki ýtt út í aðgerðir og jafnvel ofbeldi sem ekki er séð fyrir endann á.
Þeir atburðir allir, aðdragandi þeirra og eftirköst, valda mörgum áhyggjum. Það er þess vegna nauðsynlegt að fram fari umræða um aðdragandann allann en líka framgöngu sumra við þessar aðstæður, og þá ekki síst stjórnmálamanna sem hreykja sér af því að tengjast svokölluðum aðgerðasinnum.
Á þingfundinum 4. febrúar s.l. flutti ég sem forseti Alþingis, ræðu eftir að tilkynnt hafði verið um myndun minnihlutastjórnarinnar:
„Áður en gengið er til dagskrár vil ég bjóða ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur velkomna til starfa og óska ráðherrum velfarnaðar í mikilvægum störfum. Ég vona að þeir eigi gott samstarf við Alþingi. Jafnframt þakka ég ráðherrum í ríkisstjórn Geirs Haarde fyrir samstarfið og óska þeim alls hins besta. Héðan frá Alþingi sendum við Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, góðar kveðjur.
Mikil umskipti hafa nú orðið í íslenskum stjórnmálum. Ríkisstjórn sem naut stuðnings meira en tveggja þriðju hluta þingmanna hefur sagt af sér og við tekur minnihlutastjórn tveggja flokka. Alþingiskosningar verða í vetrarlok. Ríkisstjórnir koma og fara, það er hluti af lýðræðinu og þeirri stjórnskipan sem við búum við í landinu og kosningar verða eigi síðar en á fjögurra ára fresti, en Alþingi stendur hvað sem á dynur.
Ég verð að viðurkenna fyrir þingheimi héðan úr stól forseta Alþingis, að ég hef verið mjög hugsi yfir atburðum síðustu vikna við Alþingishúsið og er sannarlega ekki einn um það. Veggir þinghússins hafa verið útbíaðir, rúður brotnar í tugatali og ruðst hefur verið inn í það með ofbeldi. Í stjórnarskránni segir að eigi megi raska friði Alþingis né frelsi. Þess vegna hljótum við að harma þessa atburði. Við höfum mótað okkur leikreglur í samfélaginu á löngum tíma. Þeim má vissulega breyta en menn verða að fara með friði, annars er voðinn vís. Ég vona í lengstu lög að atburðirnir við Alþingishúsið að undanförnu boði ekki nýja siði í íslenskum stjórnmálum. Alþingi er hornsteinn íslenskrar stjórnskipunar. Þangað velur íslenska þjóðin sína fulltrúa. Stöndum vörð um Alþingi.“
Svo mörg voru þau orð. Í kjölfar árásanna á Alþingishúsið þar sem starfsmenn Alþingis og einkum lögreglumenn urðu fyrir meiðslum, voru einstaklingar handteknir af lögreglu og færðir til yfirheyrslu í samræmi við landslög. Ekkert hefur heyrst af því hvaða meðferð þau mál hafa fengið hjá lögreglu, ákæruvaldinu og dómstólum.
Það var öllum ljóst sem voru starfandi í Alþingishúsinu þegar aðgerðir náðu hámarki að einhverjir þingmenn Vinstri grænna voru virkir gerendur og fylgdust grannt með þeim atburðum sem áttu sér stað við Austurvöll.
Nú sitja þingmenn flokksins í ríkisstjórn og hafa mikil völd og áhrif. Þeir eru jafnframt að beita sér fyrir miklum breytingum á sviði dóms-og lögreglumála. Það eru mjög skiptar skoðanir um hvort þær breytingar styrkja eða veikja lögregluna og dómstólana í landinu. Er það ekki umhugsunarefni? Og dómsmálaráðherra hefur ekkert pólitískt bakland og virðist verða undir í þeim ramma slag sem stendur um útgjalda heimildir ráðuneyta.
En er það ekki líka í samræmi við margrædda opna stjórnsýslu sem sitjandi ríkisstjórn boðar, að hún hvetji og gefi lögreglunni tækifæri til að upplýsa um afdrif þeirra mála sem varða brot á stjórnarskránni vegna árása á Alþingishúsið?
Það hafa verið haldnir fréttamannafundir af minna tilefni.