Borgarfulltrúi R-listans Árni Þór Sigurðsson skrifar grein í Morgunblaðið í síðustu viku og gerir tilraun til þess að telja lesendum blaðsins trú um það að ég sé sammála honum um að ekki eigi að byggja mislæg gatnamót á mörkum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.
Það er meira en lítið undarlegt að hann skuli leggja þann skilning í grein mína sem ég birti í Morgunblaðinu um framkvæmdir við Sundabraut og gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Skýringar hans eru í ætt við sjónhverfingar. Hann snýr hlutunum algerlega á hvolf. Staðreyndin er sú að ég hef lýst þeirri skoðun minni að tryggja verði nauðsynlega afkastagetu þessarra gatnamóta, með þeirri lausn sem hönnuðir hafa kallað „þriggja hæða mislæg gatnamót“. Borgaryfirvöld sem fara með skipulagsmálin hafa hinsvegar, í annað sinn, tekið slík gatnamót af dagskrá. Það gerir meirihluti borgarstjórnar þrátt fyrir gatnamótin hafi verið sett inn á aðalskipulag Reykjavíkurborgar af borgarstjórninni sjálfri.
Hönnuðir gatnamótanna sem hafa í góðri trú unnið sitt vandasama verk fyrir Vegagerðina og Reykjavíkurborg höfðu lokið við skýrslu um verkið, og kynning á tillögum þeirra hafði verið auglýst þegar borgarstjórn snéri við blaðinu öðru sinni. Kynningarfundi fyrir íbúa svæðisins var aflýst og vinna stöðvuð. Hinir virtu hönnuðir hjá verkfræðistofunni Línuhönnun leggja til annarsvegar mislægu gatnamótin og hinsvegar sem valkost það sem þeir kalla „núlllausn“ og felur í sér endurbætur sem byggja á ljósastýringu og ýmsum endurbótum á akbrautum. Meirihluti borgarstjórnar hafnaði mislægu gatnamótunum og settu þannig verkið á byrjunarreit. Þrátt fyrir þessi vinnubrögð borgarstjórnar meirihlutans hef ég lýst vilja mínum til þess að velja þann kost að setja nú þegar af stað undirbúning endurbóta en gera ráð fyrir að í framtíðinni vitkist menn og fallist á afkastameiri lausn á þessum fjölförnu gatnamótum. Munurinn á afstöðu okkar Árna er að hann gerir ráð fyrir að ljósastýrð gatnamót verði varanleg lausn en ég tel hana verða til bráðabirgða, vegna breyttrar afstöðu R-listans. Í þessu máli er ekki annarra kosta völ fyrir Vegagerðina og mig sem samgönguráðherra að beygja mig undir þá staðreynd að borgarstjórnin fer með valdið á skipulagi samgöngumannvirkja í borginni. Hönnuðir Vegagerðarinnar verða að fella sínar tillögur að niðurstöðu borgaryfirvalda í þessu tilviki. Vert er að geta þess að í þessu tilviki er um ódýrari lausn að ræða .