Við upphaf ársfundar Hafnasambands sveitarfélaga, sem haldinn var 31. október, ávarpaði Sturla Böðvarsson gesti.

Ágætu ársfundarfulltrúar,

Það er mér mikil ánægja að eiga þess kost að flytja hér ávarp á fyrsta hafnafundi Hafnasambands sveitarfélaga, sem haldinn er skv. nýjum lögum sambandsins, sem samþykkt voru á síðasta ársfundi.

Markmið með þessum hafnafundum sýnist mér vera m.a. almennar kynningar og fræðslustarfsemi fyrir starfsmenn og stjórnendur hafna. Ég tel að þetta lýsi mikilli framsýni Hafnasambandsins. Þær miklu breytingar sem eru að ganga um garð þessi misserin krefjast þess að eflt verði allt fræðslu- og kynningarstarf á vettvangi hafnanna.

Það er ástæða til þess að rifja það upp að við stöndum frammi fyrir miklum breytingum í rekstri hafnanna og raunar á flestum sviðum samgöngukerfisins. Þær breytingar allar kalla á náið samráð og samstarf milli samgönguráðuneytisins og stjórnar Hafnarsambandsins og lýsi ég mig tilbúinn til þess að eiga gott samstarf við ykkur.

Ný hafnalög hafa tekið gildi, nýtt Hafnaráð er tekið til starfa eftir breytta skipan þess þar sem notendur hafnanna tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins eiga sérstakan fulltrúa, Samgönguáætlun hefur verið samþykkt, fyrsta fjárlagafrumvarpið liggur fyrir eftir að ný hafnalög hafa tekið gildi og er gert ráð fyrir að framkvæmdir í höfnunum verði í samræmi við samgönguáætlunina. Varið verður rúmum milljarði til hafnanna af fjárlögum ríkisins auk þess sem til sjóvarna verður varið 77 milljónum kr. Það er því af mörgu að taka í samskiptum hafnanna, Siglingastofnunar og samgönguráðuneytis.

Þann 1. júlí á þessu ári tóku gildi ný hafnalög. Ein af ástæðum fyrir breyttri skipan hafnamála var krafa samkeppnisyfirvalda um að gjaldskrár hafna væru ekki samræmdar heldur tæki hver höfn sjálfstæða ákvörðun um sína gjaldskrá. Þessi lög fela í sér miklar breytingar fyrir íslenskar hafnir og er ekki nema hluti þeirra breytinga kominn fram. Það sem er að skýrast nú er að miklar hræringar hafa orðið í gjaldskrármálum og hafa margar hafnir breytt gjaldskrám sínum oftar en einu sinni á þessu tímabili. Viðskiptavinir hafnanna eða samtök þeirra hafa sýnt höfnunum mikið aðhald og gengið hefur á ýmsu. Það er þó ljóst að menn eru farnir að tala saman um þessi gjöld, sem ekki var áður, og það hlýtur að vera af hinu góða.

Deilur um gjaldtöku hafnanna valda mér hins vegar miklum áhyggjum og kröfur útgerða og skipafélaga benda til þess að takmarkaður skilningur sé þar á bæjum gagnvart hagsmunum hafnanna og þörf þeirra fyrir eðlilegar tekjur vegna þjónustu hafnanna. Er augljóst að þar er arfur þess tíma þegar útgerðin taldi sig eiga að hafa aðgang að fjármunum úr ríkissjóði til þess að skapa hafnaraðstöðu án þess að fyrir þá fjárfestingu fengist eðlilegur arður sem nýttist til þess að reka hafnirnar og byggja þær upp.

Ótrúlegar skeytasendingar útvegsmanna á ársfundi þeirra í gær vekja ekki miklar vonir um að í þeim herbúðum megi finna skilning á þörfum hafnanna til eðlilegra tekna. Sá tónn sem þar var sleginn færir mér heim sanninn um að það var mikil ástæða til þess að styrkja löggjöf um hafnir og skapa þeim betra svigrúm til rekstrar í breyttum heimi viðskiptanna.

Nýverið kom fram fyrir hafnaráð skýrsla Siglingastofnunar Íslands um afkomu tveggja af stærstu höfnum landsins, þ.e. Reykjavíkurhöfn og Hafnafjarðarhöfn. Niðurstaða hennar var að afkoma þessara tveggja hafna af hafnarekstri væri óviðunandi. Sjálfsagt getur sú niðurstaða verið umdeilanleg en það er samt ljóst að hafnirnar verða að skoða vel sinn hag nú meðan að tækifæri gefast til þess. Á sama hátt hlýtur það að vera í þágu viðskiptavina hafnanna að þær séu almennilega reknar. Það er ekki þeirra hagur, þegar til lengri tíma er litið, að það ríki ævintýramennska í hafnarekstri á Íslandi. Það ætti að vera öllum mönnum ljóst að hér eru sameiginlegir hagsmunir á ferðinni. Hagsmunirnir felast í markmiðum um hagkvæman hafnarekstur til framtíðar á Íslandi öllum til hagsbóta.

Mér var það alveg ljóst þegar að ég lagði frumvarpið til breytinga á hafnalögunum fyrir Alþingi, að það myndi víða hvessa þegar að lögin tækju gildi. Breytingarnar eru það miklar. Ég er jafnframt viss um að ekki hefur öllum stormum slotað. Ég held reyndar að töluverður tími muni líða þangað til að nýtt jafnvægi kemst á. Hvet ég menn að hafa þetta í huga og taka þeim breytingum, sem framundan eru, sem nýjum áskorunum eða verkefnum sem þurfi að leysa, en leggja ekki árar í bát eða streitast á móti óhjákvæmilegum breytingum.

Mikill misskilningur virðist vera í gangi hjá samtökum útgerða um gjaldskrá hafnanna og ákvæði hafnalaga sem lúta að heimild til gjaldtöku fyrir þjónustu hafnanna. Í 17gr. hafnarlaganna eru skilgreind þau gjöld sem hafnirnar mega leggja á vegna þjónustu við flotann. Ein af forsendum hafnalaganna er að gjaldskráin verði gefin frjáls og hafnirnar megi semja um gjaldtöku við viðskiptavini og þar með svo sem gert er ráð fyrir í síðustu málsgrein 17.gr að gera langtímasamninga við viðskiptavini. Í ákvæði til bráðabirgða er hinsvegar gert ráð fyrir að samgönguráðherra gefi út gjaldskrá sem gildi fyrsta árið.

Nú hafa fulltrúar útgerðarinnar gert þá kröfu að hafnirnar semji um breytingar á gjaldskránni með því að veita enn frekari afslátt en svigrúm er fyrir innan gjaldskrárinnar. Það er mat ráðuneytisins að ekki sé eðlilegt að ganga lengra en gjaldskráin gerir ráð fyrir á aðlögunartímanum. Ég lít svo á að samkomulg hafi verið gert um að veita þennan frest til fullkomins frelsis og samkeppni sem bráðabirgðaákvæði hafnalaganna gerir ráð fyrir. Þegar litið er til þess að hafnagjöldin hafa verið innan við 1% af tekjum útgerðarinnar er ekki um verulegan hluta útgjalda fiskiskipaflotans að ræða og ættu forsvarsmenn útgerða ekki síður að snúa sér að þeim hluta útgjalda sem nemur nærri 99% kostnaðar útgerða.

Í kjölfar hryðjuverkanna i Bandaríkjunum 11. september 2001 var samþykkt á 22. þingi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) í nóvember 2001 að gera sérstakt átak í hafna- og siglingavernd. Aðgerðir skyldu miða að bæði skammtímamarkmiðum og langtímamarkmiðum. Ég skipaði stýrihóp í maí 2003 sem hefur það hlutverk að :


  • – Fara yfir og skilgreina þær kröfur sem gerðar eru í ofangreindum reglum um siglingavernd og hverjum beri að fullnægja þeim.
  • – Gera tillögur að nauðsynlegum laga- og reglugerðarbreytingum til að innleiða framangreindar alþjóðlegar kröfur.
  • – Semja siglingaverndaráætlun fyrir Ísland.
  • – Kanna fjárhagsleg áhrif innleiðingarinnar.

Stýrihópur þessi er nú að störfum af fullum krafti því verkefni þetta er mjög viðamikið.

Mér þykir rétt hér að vekja athygli á skilgreiningu á hafnaraðstöðu í SOLAS-samþykktinni. Samkvæmt henni er hafnaraðstaða svæði ákveðið af aðildarríki þar sem skip tengist höfn. Svæðið tekur m.a. til skipalægis, viðlegukanta og aðkomuleiða frá sjó, eins og við á. Það er forráðamanna hafna að velja hvort uppfylla skal kröfur um hafnavernd. Meti þeir ekki ástæðu til þess að uppfylla kröfurnar geta þeir átt von á að skip með siglingaverndarskírteini í millilandasiglingum velji að koma ekki til hafnarinnar af öryggisástæðum. Því vil ég hvetja allar hafnir til þess að hugleiða vel hvort þær telji sig þurfa taka á móti slíkum skipum og gera þær ráðstafanir sem til þarf. Undan því verður ekki vikist.

Ég vil að lokum enda ávarp mitt á því að hvetja stjórnendur íslenskra hafna til þess að huga vel að hagræðingu og samruna hafnarsvæða í þeim tilgangi að gera rekstur þeirra hagkvæmari og bregðast við þeirri samkeppni sem framundan er augljóslega. Hafnirnar verða ekki í því skjóli stjórnvalda sem þær hafa verið í eftir að samkeppni og frjáls gjaldsskrá verða að veruleika um mitt næsta ár. Það er nú þegar runnið upp nýtt viðskiptaumhverfi hafna. Með því að öryggismálin er færð upp í æðra veldi verður ekki aftur snúið frá því að hafnirnar verða að leita hagkvæmustu kosta bæði hvað varðar fjárfestingu og hagkvæmni í rekstri sem og að taka tillit til sterkri kröfu um hagkvæmni í flutningum jafnt á sjó sem á landi.

Ég óska ykkur svo öllum góðs gengis á þessum fyrsta hafnafundi.