Þann 12. nóvember sl. var vígð ný gestastofa við Þingeyraklausturskirkju. Hér á eftir fer ávarp sem samgönguráðherra flutti eftir messu við það tækifæri:
.
Biskup Íslands, vígslubiskup, sóknarprestur, heimamenn og gestir.
Það er mér sérstök ánægja að vera í Þingeyrakirkju og fagna með ykkur merkum áfanga í uppbyggingu staðarins.
Þingeyrar eru meðal áhugaverðustu staða á landinu fyrir margra hluta sakir og ekki þarf að fara mörgum orðum um þá sögu sem staðurinn geymir. Þingeyrakirkja er ein athyglisverðasta steinkirkja landsins og í henni fjölmargir kjörgripir sem draga til sin áhugafólk um sögu okkar og menningu.
Minningin um starfsemi munkaklausturs og fornrit sem hafa varðveist gefa tilefni til þess að draga fram merka sögu og helgi staðrains og einstakt framtak heimamanna hér í sókninni fyrr og síðar til eflingar Þingeyrakirkju. Þannig hefur andi öflugs trúarlífs,m framtaks, menningar og menntunar svifið hér yfir vötnum .
Þingeyrar eru senn í þjóðbraut en þó aðeins utan við skarkala hennar. Þess vegna er staðurinn vel í sveit settur. Við sjáum Þingeyrakirkju blasa við þegar við ökum hjá garði. Oftar en ekki látum við hjá líða að hafa hér viðdvöl þar sem við teljum okkur trú um að við séum á hraðferð á aðra áfangastaði en lítum til kirkjunnar og staðarins með lotningu og virðingu sem gjarnan fylgir glæsilegum kirkjum sem gnæfa yfir í landinu. En fyrr eða síðar dregur staðurinn okkur til sín.
Þótt hér sé láglent og umhverfis Þingeyrar séu víðar og miklar sléttur sést frá bæjarhlaðinu langt norður um og í átt til Stranda, langt suður til jökla og austur á Skaga. Þannig er glæsileiki staðarins ekki minni þegar komið er hingað en þegar litið er til hans úr fjarska.
Við sjáum ekki eftir áningu hér. Gildir einu hvort við viljum leita sögunnar eða bara staldra við. Það er sama hvort við viljum fræðast um gengna búhölda eða kirkjuhöfðinga, skoða merka gripi kirkjunnar sem hér hafa varðveist eða eiga stund á staðnum. Við njótum víðsýnisins úti fyrir eða kyrrðar í kirkjunni með sínar þúsund stjörnur og þúsund glugga. Allt þetta færir okkur endurnýjun hugans og minnir okkur á að hafa aftur viðkomu sem fyrst.
Og enn eru Þingeyrar lifandi staður. Nú með nýrri stofu fyrir gesti og gangandi. Hér er sem fyrr allt gert í anda staðarins, með myndarbrag og af rausnarskap. Gestastofan getur hýst fundi og sýningar, hér verður hægt að fá ýmsa þjónustu og greiða og hér verður líka unnt að sinna sögunni og fróðleiksleit okkar sem vitjum Þingeyra í því skyni. Hér verður menningartengd ferðaþjónusta í heiðri höfð við hlið hins kirkjulega starfs.
Þegar Erlendur Eisteinsson sóknarnefndarformaður leitaði til samgönguráðuneytisins um samstarf og stuðnig þótti það erindi mæla svo með sér sjálft að sjálfsagt þótti að verða við því að tryggja nokkurn framgang þeim áformum að hér mætti sinna betur en áður hafði verið unnt móttöku þeirra þúsuna ferðamanna sem hingað sækja.
Aðstaðan sem hér hefur verið sköpuð við hliði kirkjunnar er ferðaþjónustunni í landinu mikils virði og því ber að fagna framtaki heimamanna. Þess vegna var gerður samningur milli samgönguráðuneytis, ráðuneytis ferðamála og safnaðarins um stuðning við það mikilvæga verkefni að hafa hér trygga móttöku í stofunni við hlið kirkjunna með nauðsynlegri þjónustu fyrir gesti og gangandi.
Ég er sannfærður um að uppbyggingin hér og þessi nýja aðstaða verður staðnum lyftistöng og hvatning fyrir innlenda sem erlenda ferðamenn að sækja hingað. Ég óska forráðamönnum sóknarinnar og sóknarbörnum öllum til hamingju með framkvæmdina.
Megi gestastofan við Þingeyrakirkju verða staðnum til ævinlegrar blessunar