Grein birt í Fréttablaðinu 9. janúar 2008
Þær gleðilegu fréttir hafa verið sagðar í fjölmiðlum að dregið hafi úr slysum á þjóðvegunum og á árinu 2007 hafi banaslysum fækkað verulega. Þessar fregnir eru vissulega jákvæðar því ökutækjum hefur fjölgað mikið, umferðin hefur aukist hröðum skrefum og flutningar á vegum einnig.
Það var mat ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili að eðlilegt væri að tengja saman stjórnsýslu umferðaröryggismála og vegamálin innan samgönguráðuneytisins.
Þegar samgönguráðuneytið tók við umferðaröryggismálum 1. janúar 2004 af ráðuneyti dómsmála var ákveðið að breyta um taktinn í vinnu við umferðaröryggisáætlun og tengja hana samgönguáætlun. Á vettvangi dómsmálaráðuneytis, Umferðarráðs og Umferðarstofu hafði verið unnið mikið starf árum saman sem auðveldaði þá breytingu sem gerð var og skapaði skilyrði til þess að taka umferðarmálin nýjum tökum á vettvangi samgönguráðuneytisins. Var þessi breyting gerð í góðu samstarfi ráðuneytanna og við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vorum sammála um þessa breyttu skipan.
Breytingar mótaðar á nýjum forsendum
Ég tók þá ákvörðun að láta móta breytingarnar á öllum sviðum sem tengdust umferðaröryggismálum. Þar var um að ræða vinnu Umferðarstofu, Umferðarráðs, Vegagerðar, Rannsóknarnefndar umferðarslysa og ráðuneytisins sjálfs. Til þess að ná þeim markmiðum sem sett voru var ráðinn verkfræðingur til starfa í samgönguráðuneytinu sem hafði það verkefni að móta nýja umferðaröryggisáætlun sem væri tengd samgönguáætlun eins og fyrr segir og hefði tekjur frá henni. Jafnframt var lögfræðingum ráðuneytisins falið að vinna að breytingum á reglugerðum og undirbúa breytingar á löggjöf er snerti þennan mikilvæga málaflokk í samstarfi við Umferðarstofu, Vegagerð og lögregluna. Fræðilegar forsendur vinnu við nýja umferðaröryggisáætlun tengdust mati á kostnaði við slysin og kostnaði við þær aðgerðir sem nauðsynlegt var að grípa til svo komið væri í veg fyrir slys í umferðinni.
Til þess að ná tilgreindum markmiðum var m.a. unnið að eftirfarandi aðgerðum er allar höfðu það markmið að draga úr slysum í umferðinni:
1. Rannsóknir umferðarslysa endurskipulagðar og efldar með nýrri löggjöf um Rannsóknarnefndina. Voru hafðar til hliðsjónar þær miklu breytingar sem gerðar voru á vettvangi flugöryggismála og rannsóknum flugslysa og höfðu gefist vel.
2. Umferðarlögum og reglugerðum var breytt til að auka ábyrgð ökumanna.
3. Umferðaröryggisáætlun unnin og forgangsröðun gerð miðað við áætlaðan ábata hverrar aðgerðar.
4. Umferðaröryggisáætlun felld inn í samgönguáætlun og tekjur af umferðinni nýttar til framkvæmda og kostnaðar við aukið umferðareftirlit.
5. Samningar um stóraukið umferðareftirlit gerðir milli Vegagerðar, Umferðarstofu og Ríkislögreglustjóra. Má segja að þeir samningar hafi markað tímamót og skapað lögreglu og Vegagerð nýja viðspyrnu til árangursríkra aðgerða.
6. Settar upp myndavélar við þjóðvegina til þess að auka eftirlit með hraðakstri og margvíslegur búnaður lögreglu kostaður af útgjaldaramma samgönguráðuneytis.
7. Eftirlit Vegagerðar og lögreglu aukið með fólks- og vöruflutningum á þjóðvegunum og settar strangar reglur um meðferð farms flutningavagna.
8. Lagarammi um eftirlit með hvíldartíma ökumanna tryggður í samræmi við evrópskar reglur sem höfðu ekki verið að virka vegna skorts á lagaheimildum.
9. Heimildir settar í lög til þess að auðvelda lögreglu eftirlit með ólöglegri fíkniefnanotkun ökumanna.
10. Hertar reglur um gerð og búnað ökutækja.
11. Lögum og reglugerðum breytt og viðurlög aukin vegna ofsaaksturs á þjóðvegum og vegna endurtekinna brota á umferðarlögum.
12. Tekið upp samstarf við FÍB um skoðun á gerð og ástandi vega frá sjónarhorni öryggisþátta svo sem frágangi vegriða og umhverfi vega.
13. Auknir fjármunir veittir til vegagerðar, jarðgangagerðar, vetrarþjónustu, upplýsinga um færð og ástand vega og almennrar þjónustu á vegakerfinu í þágu umferðaröryggis.
Aðgerðir skila árangri
Allar þessar aðgerðir á vettvangi lögreglu, Umferðarstofu, Vegagerðar og samgönguráðuneytis eru að skila árangri. Það bendir allt til þess að breytt skipulag umferðaröryggismála og skipuleg vinnubrögð við eftirlit sé að skila sér. Ástæða þess að ég skrifa þessa grein er að ég taldi nauðsynlegt að minna á það hversu umferðaröryggismálin eru mikilvæg og einnig vil ég minna á að ekki voru þessar aðgerðir allar sem nú eru að skila árangri taldar nauðsynlegar eða skynsamlegar þegar til þeirra var stofnað. Varð undirritaður að verjast harkalega bæði á Alþingi og í fjölmiðlum til þess að ná fram þessum nauðsynlegu breytingum. Það er ástæða til þess að þakka öllum sem koma að umferðaröryggismálum fyrir árangurinn. Það hefur tekist að hægja á umferðinni og ökumenn sýna aukna ábyrgð í umferðinni. Með skipulegu starfi og samstilltum aðgerðum hefur tekist að fækka slysum sem engu að síður eru of mörg . Auknu öryggi í umferðinni ber að fagna og við eigum að sameinast um allar þær aðgerðir sem geta leitt til færri slysa. Til þess að frekari árangur náist þarf þjóðarátak. Þess er vert að geta að Suðurnesjamenn með Steinþór Jónsson athafnamann og bæjarfulltrúa í broddi fylkingar hafa sýnt mikið og þakkarvert frumkvæði í umferðaröryggismálum. Ég hvet áhugafólk um aukið umferðaröryggi í öllum landshlutum til að kynna sér starf þeirra undir merkjum ,,Samstöðu“.
Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis