Ýmsar breytingar verða á lögum um fjarskipti samkvæmt frumvarpi sem Sturla Böðvarsson mælti fyrir á Alþingi í gær. Meðal annars á öll netþjónusta að falla undir hugtakið fjarskiptaþjónusta og fjarskiptafyrirtæki verða skylduð til að skjalfesta hvernig þau standa að net- og upplýsingaöryggi sínu. Einnig mælti ráðherra fyrir breytingum á vegalögum þar sem heimila á gjaldtöku af umferð og fleira.
Megin tilgangurinn með breytingum á fjarskiptalögum er að auka öryggi í fjarskiptum, auka neytendavernd og styrkja ákvæði laganna sem fjalla um vernd persónuupplýsinga og fiðrhelgi einkalífs. Þannig er til dæmis kveðið á um sex mánaða hámarksbinditíma sem heimilt verður að semja um milli fjarskiptafyrirtækja og áskrifenda og neytendur munu eiga rétt á að fá sundurliðaðan lista allra símtala sinna til að sannprófa að reikningur þeirra sé í samræmi við notkun. Þá munu bannmerki í símaskrá einnig gilda um sms-sendingar; með öðrum orðum er lagt til að ákvæði laganna sem fjallar um óumbeðin fjarskipti taki ótvírætt til farsíma og  smáskilaboða við beina markaðssetningu þegar markpóstur er sendur með smáskilaboðum.

Í frumvarpi til nýrra vegalaga sem ráðherra mælti einnig fyrir á Alþingi í gær er meðal breytinga að inn kemur ákvæði um almenna heimild til gjaldtöku af umferð, breytingar á flokkun og veghaldi á vegum þannig að Vegagerðin geti falið sveitarfélögum umsjón svonefndra héraðsvega, nýmæli vrðandi skipulag, hönnun og öryggi í umferð og lögð eru til ýmis nýmæli er varða kostnaðarskiptingu vegna aðgerða til að draga úr áhrifum frá umferðarhávaða.