Samgönguráðherra skrifar í Morgunblaðið í dag grein undir fyrirsögninni Auknar áherslur og aukið fé, en í greininni fjallar hann um fjárlögin í ár og ferðaþjónustuna. Í greininni kemur fram að framlög til ferðaþjónustunnar eru aukin í ár um meira en 100 milljónir króna. Greinin í heild sinni fylgir hér á eftir.
Ferðaþjónustan er einn þeirra mikilvægu málaflokka er undir samgönguráðuneytið heyrir. Sem samgönguráðherra hef ég lagt áherslu á ferðaþjónustuna sem eina mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar, og nauðsyn þess að skapa greininni sem best starfsskilyrði. Í ljósi þessa þótti mér ánægjulegt er Alþingi samþykkti í fjárlögum fyrir árið 2000 að stórauka framlög til ferðamála.

Ferðaþjónustan sem atvinnugrein skiptir okkur sífellt meira máli í efnahagslegu tilliti. Tekjur af greininni hafa aukist jöfnum skrefum undanfarin ár, og hefur sú aukning að meðaltali verið um 5%. Nú er svo komið að greinin skilar um 30 milljörðum krónar í tekjur, og stefnir hærra. Sömu sögu er að segja um síaukinn fjölda ferðamanna til landsins, en þar er fjölgunin að sama skapi jöfn og árviss.

Ef fjárlög fyrir árið 2000 eru skoðuð kemur í ljós að framlög til að veita einkaaðilum og opinberum aðilum styrki til að koma upp eða endurbæta aðstöðu fyrir ferðamenn og til landkynningarverkefna á vegum Ferðamálaráðs, voru aukin á milli áranna 1999 og 2000 um 15 mkr. og eru nú 83 mkr. í stað 68 mkr. áður.

Til ferðamálasamtaka landshlutanna voru framlög aukin úr 8 mkr. í 18 mkr. Þá vil ég sérstaklega benda á að framlög til uppbyggingar aðstöðu við fjölsótta ferðamannastaði voru nærri þrefölduð, þ.e. aukin úr 14,8 mkr. í 35,8 mkr., þ.e. um 21 mkr.

Alls eru framlög til verkefna á sviði Ferðamálaráðs aukin um nærri 50 milljónir króna, úr tæpum 150 milljónum á árinu 1999 í nærri 200 milljónir í ár. Þarna er um að ræða umtalsverða hækkun á milli ára, sem sýnir í verki þá auknu áherslu sem lögð er á að styrkja þá starfsemi sem í dag er unnin víða um land á vegum Ferðamálaráðs.

Þetta aukna fjármagn til málaflokksins verður til þess að nú verður ráðstafað 5 mkr. til verkefna í rannsóknum í ferðaþónustu, til frekari uppbyggingar upplýsingamiðstöðva er veitt 10 mkr. og til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum verður nú varið 21 mkr.

Þá er einnig um að ræða verulega aukin framlög til markaðsmála ferðaþjónustunnar þar sem framlag til verkefna markaðsráðs hækkar um 20 mkr. og markaðsátak í Bandaríkjunum, í samvinnu við helstu fyrirtæki okkar vestra, undir slagorðinu Iceland Naturally, fær 49 milljónir. Alls er því um að ræða aukningu til verkefna Ferðamálaráðs Íslands og sérstakra markaðsverkefna í ferðamálum um alls 114,2 milljónir miðað við fjárlög yfirstandandi árs.

Sem samgönguráðherra hef ég lagt ríka áherslu á að styðja sem best ég get við bakið á þessari mikilvægu atvinnugrein sem ferðaþjónustan er. Gjaldeyristekjur þjóðarbúsins af ferðaþjónustunni eru miklar, sem fyrr segir, og því ljóst að um er að ræða atvinnugrein sem skiptir okkur sem þjóð miklu máli. Ég bind vonir við að tekjur okkar af ferðaþjónustunni haldi áfram að aukast jafnt og þétt, og skapa með því grundvöll að enn öflugri atvinnugrein. Nokkuð jöfn aukning ferðamanna hefur verið undanfarin ár, og benda spár til að þessi þróun haldi áfram – jafnvel að aukningin verði meiri en nú er. Ekki síst vegna þessarar staðreyndar tel ég mikilvægt að ferðaþjónustunni verði búin þau starfskilyrði sem hún á skilið. Með nýsamþykktum fjárlögum hefur því verið undirstrikuð sú stefna sem fylgt er í samgönguráðuneytinu að styðja sem best við megum við bakið á þessari mikilvægu atvinnugrein.