Breytum því ófremdarástrandi sem ríkir í umferðinni
Frá því samgönguráðuneytið tók við umferðaröryggismálum 1. janúar á síðasta ári hefur verið unnið hörðum höndum að því að styrkja alla þætti í starfi ráðuneytisins sem lúta að umferðaröryggismálum. Er það gert í góðu samstarfi við Umferðarstofu, Rannsóknarnefnd umferðarslysa, Vegagerðina og lögregluna, sem sinna þessum mikilvæga málaflokki.
Hér fara á eftir mikilvægir þættir í þessu starfi sem ráðuneytið vill minna á um leið og næstu aðgerðir eru kynntar:
**Eftir að samgönguráðuneytið tók við umferðarmálum var sett fram skýr stefnuyfirlýsing í tíu liðum af hálfu ráðuneytisins sem unnið hefur verið eftir.
**Umferðaröryggisáætlun hefur verið felld inn í Samgönguáætlun og forgangsröðun framkvæmda miðast við að auka umfeðraröryggi.
**Ákveðnar voru fjárveitingar til sérstakra verkefna samkvæmt umferðaröryggisáætlun til viðbótar við það sem áður hefur verið varið til þessara verkefna í vegaáætlun, til Umferðarstofu og af hálfu lögregluyfirvalda vegna löggæslu og umferðareftirlits.
**Gefin hefur verið út ný reglugerð um skilti fyrir leiðbeinandi hraðamerkingar á þjóðvegum landsins til að auka öryggi og auðvelda ökumönnum að varast hættulega kafla á þjóðvegunum.
**Sett hafa verið ný lög um rannsóknir umferðarslysa sem taka gildi 1. september n.k. Jafnframt er unnið að því að efla og styrkja frekari rannsóknir á sviði umferðaöryggismála.
**Næsta verkefni er að auka eftirlit á vegunum í samræmi við samning Umferðarstofu og Ríkislögreglustjóra.
Á undanförnum árum hefur náðst verulegur árangur við að fækka alvarlegum umferðarslysum í þéttbýli. Það er mat þeirra, sem vinna að umferðaröryggismálum að óhjákvæmilegt sé að gera sérstakt átak á þjóðvegum í dreifbýli. Þar verða flest alvarlegustu slysin.
Slysin í umferðinni eru fullkomlega óásættanleg. Því hefur ráðuneytið unnið sitt starf undir yfirskriftinni ,,Breytum þessu!“ og við viljum kalla þjóðina alla til samstarfs.
Slagorðinu ,,Breytum þessu!“ er ætlað að vera hvatning til allra þeirra sem vinna að umferðaröryggismálum – hjá Umferðarstofu – hjá Vegagerðinni – í ráðuneytinu og úti í þjóðfélaginu. ,,Breytum þessu!“ er áminning um það að við, ökumenn og vegfarendur, berum öll ábyrgð á þessum málum.
,,Breytum þessu!“ er líka áminning til fólksins í landinu vegna þess að langflest alvarleg slys verða þegar verið er að brjóta umferðarlögin.
Almenningur í landinu ber ábyrgð. Í hvert einasta sinn sem við setjumst undir stýri þá erum við að axla ábyrgð á lífi fólksins í kringum okkur.
Síðustu daga hefur verið unnið að því að kynna mikilvægt verkefni sem virðist vera óhjákvæmilegt og er liður í umferðaröryggisáætlun Samgönguáætlunar. Þetta verkefni er samningur milli Umferðarstofu og Ríkislögreglustjóraembættisins. Samningurinn varðar aukna löggæslu og umferðareftirlit á þjóðvegum landsins til þess að koma í veg fyrir lögbrot í umferðinni. Með þessum samningi er stefnt að bættri umferðarmenningu í landinu.
Það er von okkar í samgönguráðuneytinu að okkur megi auðnast að ná árangri með samstarfi þessara mikilvægu stofnana. Ég fagna því og þakka fyrir hversu vel hefur verið unnið að undirbúningi þessa máls af hálfu Ríkislögreglustjóraembættisins, Umferðarstofu, Vegagerðarinnar og embættismanna ráðuneytisins.