Fundarstjóri, góðir fundarmenn

Fjarskiptatengingar Íslands við umheiminn skipta okkur miklu máli í daglegu lífi. Þær snerta  okkur beint með því að við þurfum að geta sótt upplýsingar á netið, talað í síma í tíma og ótíma. Þær snerta okkur óbeint  þegar við sækjum til þeirra aðila sem byggja þjónustu sína á samskiptum um fjarskiptaleiðir. Við erum með öðrum orðum næstum því jafnmikið háð fjarskiptum og því að draga andann og nærast.

Íslendingar hafa sýnt það allt frá haustinu 1906 – þegar fyrsti sæstrengurinn var tekinn í land á Seyðisfirði og í framhaldi af því lagðir 14 þúsund símastaurar til að koma á sambandi milli höfuðborgarinnar og strengsins eystra – að þeir kunna að nota sér tæknina.

Þróunin var hæg framan af og strengurinn dugði allt til ársins 1962. Þá voru komnir til skjalanna strengirnir Scot-Ice og Ice-Can, sem við munum kannski eftir, og árið 1994 kemur Cantat-3 sem nú þykir allt að því forngripur og verður því brátt úreltur. Við gleymum heldur ekki gervihnattasambandinu gegnum Skyggni sem þótti tækniundur en hröð þróun í tæknimálum gerði hann líka úreldan.

1. Cantat þjónar sem sagt ekki lengur svo fullnægjandi sé sem aðalleið og í dag er hann ekki fullnægjandi sem varaleið.
2. Síminn hafði veg og vanda að undirbúningi Farice en símafyrirtækin treystu sér ekki til þess að leggja í þá fjárfestingu ein og því  tók samgönguráðueytið forystu í málinu og er ríkið eigandi að 41,4% hluta. Jón Birgir Jónsson, fv. ráðuneytisstjóri, varð stjórarformaður og hefur helgað sig þessu verkefni að leggja og reka Farice með öðru góðu fólki frá íslensku símafyrirtækjunum og Færeyingum.
3. Farice var tengdur í ársbyrjun 2004 og er því að byrja fjórða starfsárið
4. Byrjunarörðugleikar sýndu að þörf er á traustum varasamböndum
5. Vaxandi kröfur um öryggi í samböndum
6. Starfshópur settur  til að marka næstu skref 12. júní 2006 undir formennsku Ragnhildar Hjaltadóttur.
7. Símafyrirtækin hafa verið treg til frekari fjárfestinga í strengjum
8. Tillaga þess starfshóps er að nauðsynlegt sé að leggja annan streng til að tryggja öryggt varasamband.

Nú höfum við Farcie-1 sem tekinn var í notkun 2004 og þótt hann sé nýlegur og afkastamikill þurfum við enn að bæta úr. Spurt var hvort þörf sé á nýjum sæstreng milli Íslands og útlanda. Svarið starfshópsins var já. Er það ekki síst í þágu öryggis.

Ríkisstjórnin samþykkti rétt fyrir áramót að heimila samgönguráðherra að hefja viðræður við símafyrirtækin og eftir atvikum fjárfesta til að meta lagningu nýs sæstrengs. Fyrstu skrefin eru að ákveða hvaða leið á að fara sem getur bæði verið að stofna félag um lagningu og rekstur nýs strengs eða að fela Farice verkið. Þetta mál þarf að vinna hratt og vel og ég stefni að því að meginlínur verði lagðar fyrir vorið og að við getum hafið nauðsynlegar rannsóknir í sumar og að nýr strengur verði tekinn í notkun síðla árs 2008.

Sæstrengur er mikil fjárfesting og hann er dýr í rekstri. Þess vegna er mikilvægt er að gæta hagkvæmni við fjárfestinguna og ekki er síður mikilvægt að rekstrarskilyrðin verði þannig að strengurinn geti bæði borið sig og veitt þjónustu á viðunandi verði. Einnig þarf að vera sem einfaldast í framkvæmd að flytja viðskipti og umferð á milli strengja ef bilanir og vandamál koma upp. Það er því ýmislegt sem bendir til að þessi rekstur skuli vera á einni og sömu hendi.

Með því að fá nýjan sæstreng er tenging okkar við umheiminn tryggð eins og best getur orðið. Rofni annar strengurinn er hinn til vara. Með því móti einu geta samskipti okkar orðið örugg.

Öryggi í þessum fjarskiptum opnar ýmsa möguleika fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir. Þar má nefna margs konar fjármálaþjónustu, umsýslu rafrænna viðskiptakerfa, þjónustu á sviði heilbrigðismála og líftækni og rekstur gagnabanka og gagnasafna. Þessi nýju svið geta fært okkur tugi nýrra starfa og ég er sannfærður um að íslensk fyrirtæki verða fljót að koma auga á útrás á þessu sviði. Slík útrás yrði unnin er hér á landi og skilaði tekjum hingað og hún nýtir um leið fjárfestingu í tækni sem veitir alla þessa möguleika.

Um leið og við bætum varasambandið og tryggjum okkur fyrir hugsanlegum truflunum á öllum þeim samskiptum sem fara í dag um fjarskiptanetið við umheiminn er þessari mögulegu útrás bætt við.

Fjárfesting í nýjum sæstreng, sem gæti verið kringum 3,5 milljarðar króna, hefur vonandi burði til að skila sér. Hún er talin þjóðhagslega hagkvæm og þess vegna er mikilvægt  að ráðist í hana í samstarfi og með vilja fjarskiptafélaganna.