Nú fyrir stundu flutti Sturla ávarp á málþingi Samtaka ferðaþjónustunnar AUÐLINDIN ÍSLAND á Grand Hótel Reykjavík.
Ráðherrar, ráðstefnustjóri, góðir gestir!
Í ferðamálaáætlun, sem ég lagði fram á Alþingi fyrir réttu ári síðan, eru afmörkuð megin markmið. Þau eru á náttúru landsins, menningu, sterka byggð og fagmennsku. Þar kemur einnig fram að unnið skuli að því að Íslendingar haldi stöðu sinni sem forystuþjóð í umhverfismálum og að unnið verði að því að auka ábyrgð einstaklinga og fyrirtækja í ferðaþjónustu í umhverfismálum. Undir þessar áherslur tók Alþingi með samþykkt tillögunnar og mjög jákvæðri umfjöllun.
Náttúran er og verður hornsteinn ferðaþjónustu hér á landi. Langflestir koma hingað til að njóta náttúrunnar auk þess sem landsmenn sjálfir njóta hennar í síauknum mæli með ferðum um landið. Mikilvægt er að allir, sem að ferðaþjónustu koma, skilji mikilvægi þess að vernda auðlindina eins og kostur er.
Umhverfismál eru ofarlega á baugi í heiminum í dag – og ekki síst innan ferðaþjónustunnar. Á undanförnum árum hafa yfirvöld og samtök í ferðaþjónustu hvatt til ábyrgrar umgengni um auðlindir og mörg fyrirtæki hafa tekið upp markvissa stefnu í umhverfismálum.
Stór og smá skref hafa verið stigin og sækjast íslensk fyrirtæki í auknum mæli eftir alþjóðlegri umhverfisvottun. Lengst hafa sveitarfélög og atvinnufyrirtæki á Snæfellsnesi gengið með vottun Green Globe 21 á svæðinu öllu.
Í ljósi þess hversu hratt ferðamönnum hefur fjölgað hér á landi undanfarin ár hafa vaknað spurningar um áhrif á samfélag og umhverfi ferðamannastaða. Til þess að skoða þessi áhrif var ýtt úr vör á vegum Ferðamálastofu rannsóknarverkefni á þolmörkum sem taka átti til fimm staða á Íslandi, Þjóðgarðsins í Skaftafelli, friðlands á Lónsöræfum, Landmannalauga, Þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum og Mývatnssveitar.
Það er vissulega rík ástæða til að efla þolmarkarannsóknir því að með þeim er hægt að fylgjast með þróun einstakra svæða.
Fjölgun ferðamanna á Íslandi er vísbending um að erlendir ferðamenn líti svo á að mikil og eftirsóknaverð verðmæti felist í íslenskri náttúru og þeirri þjónustu sem hér er veitt.
Þetta undirstrikar verðmæti verndarsvæða og minnir á mikilvægi þess að fyllstu varúðar sé gætt í öllum aðgerðum sem hafa í för með sér miklar breytingar á náttúrunni af manna völdum.
Hér í dag er rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma til umræðu. Ferðaþjónustan hefur haft gott fólk úr sínum röðum í þessari vinnu. Ég skil hins vegar vel áhyggjur ferðaþjónustunnar vegna framtíðarinnar. Það verður eðlilega þrengra um starfsemi í óspilltri náttúru eftir því sem mannvirkjagerð fleygir fram á landinu og ekki síst í óbyggðum. Því er algjörlega nauðsynlegt að ræða landnýtingarþörf ferðaþjónustunnar. Atvinnugreinin er gríðarlega mikilvæg í gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins. Mitt mat er að ferðaþjónustan hafi skapað sér þann sess og þá virðingu að ekki verði framhjá sjónarmiðum hennar gengið þegar teknar eru ákvarðanir sem varða farsæla auðlindanýtingu í náttúru Íslands.
Við Íslendingar verðum að átta okkur á því að hófleg nýting auðlinda okkar er forsenda búsetu í landinu. Til þessa höfum við talið það til kosta lands elds og ísa að geta nýtt orku fallvatna og jarðhitans til raforkuframleiðslu og hitunar híbýla okkar í stað þess að nota óendurnýjanlega orkugjafa.
Fyrir þann auð höfum við m.a. byggt upp innviði landsins svo sem vegi, flugvelli, hafnir og fjarskipti. Allt styður það ferðaþjónustuna og er raunar forsenda fyrir henni að um landið séu góðar samgöngur.
Engu að síður skiptir umgengnin um landið miklu máli. Öll mannvirkjagerð og landnýting verður að vera í takti við náttúru og umhverfi. Til þess að tryggja það sem best höfum við arkitekta og hönnuði mannvirkja sem í samstarfi við aðra sérfræðinga eiga að geta lagt þá hönd á að til sóma sé.
Um leið og ferðaþjónustan á nánast allt undir því að varlega sé gengið um náttúruna þegar virkjað er þá eru virkjanir hluti af búsetu okkar í landinu sem taka þarf tillit til. Engu að síður verður að taka tillit til þess í rammaáætlun um virkjanir að ferðaþjónustan á allt undir óspilltri náttúrunni og vel gerðum mannvirkjum sem við getum verið stolt af og þjóna skilgreindum markmiðum okkar um farsæla auðlindanýtingu og gott orðspor í landnýtingu og umhverfismálum.
Ég fagna því að samráðherrar mínir í ríkisstjórn komi til þessa fundar og taki þátt í þessari mikilvægu umræðu sem Samtök ferðaþjónustunnar efna til.
Það er von mín sem ráðherra ferðamála að ferðaþjónustan fái eðlilegt svigrúm í landinu og sátt geti ríkt milli hennar og þeirra sem bera ábyrgð á virkjun orkulinda.
Ég óska ykkur góðs gengis hér í dag og færi Samtökum ferðaþjónustunnar þakkir fyrir að boða til þessa fundar.