Ég býð háttvirta alþingismenn velkomna til þingsetningar og fagna nærveru gesta við þessa athöfn.

Við höfum nú gengið til Dómkirkju eins og  gert hefur verið frá því hið endurreista Alþingi kom fyrst saman árið 1845. Með því höldum við í gamla og góða venju sem líklega er elsta hefð sem tengist þessum degi.

Eins og háttvirtir alþingismenn sjá og heyra hafa orðið nokkrar breytingar á umgjörð þingsetningarathafnarinnar frá því sem verið hefur. Leiðir það af breytingum á þingsköpum sem Alþingi samþykkti sl. vor, en þá var m.a. ákveðið að  kosning forseta á fyrsta fundi eftir almennar alþingiskosningar sé ekki bundin við hvert löggjafarþing eins og verið hefur.

Þessi breyting þingskapanna varð tilefni þess að ég fór að leiða hugann að því hvort ekki væri tímabært að breyta nokkuð yfirbragði þessarar athafnar en hún hefur verið í mjög föstum skorðum áratugum saman.  Við alþingismenn þurfum þó að hafa í huga að Alþingi er okkar elsta og virðulegasta stofnun og því mikilvægt að sýna mikla varkárni við allar breytingar.  Við viljum eðlilega halda í góðar  hefðir sem efla samstöðu okkar og styrkir Alþingi sem stofnun. 
Við þessa athöfn er nú í fyrsta sinn leikin íslensk tónlist í flutningi frábærra listamanna.  Tónlistin göfgar og snertir streng í hjörtum okkar allra,  hún sameinar hugi okkar mest og best  og setur hátíðlegan blæ á sérhverja samkomu.

Mökum alþingismanna er nú í fyrsta skipti öllum boðið að vera við viðstaddir athöfnina. Makar okkar eru óhjákvæmilega beinir og óbeinir þátttakendur í störfum okkar alþingismanna og er það  sérstök ánægja að sjá  hversu margir þeirra eru með okkur hér í dag.  Að venju eru hér einnig fyrrverandi forsetar Alþingis, biskupinn yfir Íslandi, dómarar Hæstaréttar, sendiherrar erlendra ríkja og ýmsir æðstu embættismenn ríkisins auk fleiri góðra gesta.

Í ávarpi mínu við lok sumarþings lýsti ég þeirri skoðun minni að   það væri ýmislegt í aðstöðu þingmanna og starfsháttum þingsins sem mætti bæta.  Að þessu hef ég unnið í sumar og mótað tillögur í þeim efnum með góðum stuðningi forsætisnefndar.  Ég hef rætt við formenn stjórnmálaflokkanna og formenn þingflokkanna og kynnt þeim hugmyndir mínar um bætta starfshætti þingsins. Ég hef haft að leiðarljósi  að Alþingi  njóti virðingar með þjóðinni og starfshættir þingsins skapi trúverðugleika.  Í viðræðum okkar í sumar hafa fjölmörg atriði verið rædd en það sem ég hef einkum lagt áherslu á lýtur að starfstíma þingsins, umræðuforminu á þinginu, starfi fastanefnda og starfsaðstöðu þingmanna.     Almennur stuðningur virðist vera meðal þingmanna fyrir því að starfstími Alþingis  verði lengdur. Með breytingu á starfstímanum er ekki stefnt að því að fjölga þingfundum heldur að þingstörf dreifist betur yfir lengri tíma til hagsbóta fyrir þingmenn og allt skipulag þingsins. Þannig gætu þingfundadagar verið  jafnmargir  og nú er en nefndadögum yrði fjölgað. Það mætti hugsa sér að taka viku og viku í þingnefndastörf einvörðungu, en slíkt gæti stuðlað að góðri samfellu í störfum nefnda við tímafrek mál.  Loks  yrði „kjördæmadögum“ fjölgað, þ.e. hléum á þingfunda- og þingnefndastörfum, þannig að þingmenn hefðu áætlaðan tíma til skipulegra fundahalda í kjördæmum og þá væri tryggt að slíkir fundir rækjust ekki á við starfsdaga Alþingis.

Annað meginatriði í þeim hugmyndum sem ég hef sett fram er nýr rammi við umræður um þingmál á Alþingi. Hér hef ég í huga að  gera umræður markvissari og snarpari en nú er, en draga úr löngum ræðum og fá þannig  betur fram mismunandi sjónarmið þingflokka og þingmanna til mála.  

Til grundvallar þessum breytingum á umræðuformi liggur líka það sjónarmið að nú á tímum eru gerðar miklar kröfur til alþingismanna og ráðherra um margvíslega þátttöku í stjórnmálastarfi utan við vettvang þingsins. Breytt kjördæmaskipan hefur einnig haft veruleg áhrif á störf alþingismanna. Gerðar eru ríkar kröfur til þess að þingmenn sinni kjördæmi sínu og málefnum kjósenda sinna en slíkt kallar á ferðalög og fjarvistir frá þingstaðnum.

Er þá ekki minnst á vaxandi alþjóðlegt samstarf þingmanna og fjarvistir sem því tengjast. Allt þetta kallar á betri skipulagningu þingstarfanna þannig að hver og einn þingmaður geti á grundvelli starfsáætlunar þingsins og vikuáætlana þess skipulagt önnur störf sín vel. Mikilvægur þáttur í slíkri skipulagningu er að umræðurnar á þinginu séu innan skynsamlegra og hæfilegra marka og að áætla megi fyrirfram hve langan tíma þær geti staðið.
Næturfundir ættu auðvitað ekki að þekkjast. Þingmenn og starfsfólk Alþingis eiga eins og annað fólk að geta sinnt eðlilegu fjölskyldulífi.

Umræður hér á Alþingi snúast eðli máls samkvæmt ekki eingöngu um þingmál.  Þingmenn þurfa að geta efnt til almennrar umræðu í þinginu um aðkallandi og pólitísk mál með skömmum fyrirvara.  Enginn efi er að slík almenn pólitísk umræða er mikilvæg  og einn þáttur í eftirlitshlutverki Alþingis og aðhaldi þess með störfum framkvæmdarvaldsins.  Núverandi fyrirkomulag  er um margt gallað.  Það má einfalda það og gera það skýrara. Ég tel að slík  almenn  pólitísk umræða geti farið fram í upphafi hvers þingfundar og þar eigi jafnframt að vera möguleiki til þess fyrir þingmenn að eiga orðastað við fleiri en ráðherra, t.d. formenn  nefnda og formenn þingflokka.
Síðasta meginatriðið sem ég vil nefna hér og ég hef rætt við formenn þingflokka varðar nefndastarfið, en ég tel brýnt að efla það. Svigrúm nefnda til fundarstarfa er oft mjög þröngt. Það er þess vegna  nauðsynlegt að gefa nefndum rýmri  tíma í störfum Alþingis.  Þá tel ég að efla beri  hlutverk nefnda í eftirlitshlutverki  þingsins.  Sem lið í því væri eðlilegt að ráða sérstaka starfsmenn á skrifstofu þingsins  sem einkum mundu vinna fyrir minnihluta í nefndum. Jafnframt tel ég að  til greina komi að opna einstaka nefndarfundi fyrir fjölmiðlum.

Fleiri úrbætur hafa verið í undirbúningi sem verða ekki tíundaðar nú.
Þær hugmyndir sem ég hef hér reifað stuttlega endurspegla þá afstöðu mína að taka tilliti til þess mikilvæga hlutverks  sem stjórnarandstaðan gegnir í lýðræðisríki og er þýðingarmikið  í íslensku stjórnkerfi þar sem meirihlutastjórnir eru venjan og staða ríkisstjórnar því að jafnaði sterk.  En það er líka mikilvægt fyrir stjórnarandstöðu, jafnt sem stjórnarþingmenn, að Alþingi njóti trausts almennings í landinu. Einn þáttur í að ávinna sér slíkt traust og viðhalda því, er að umræðan á þinginu beri með sér að þingmenn vandi  alla lagasetningu  og komi til umræðunnar vel undirbúnir. Við skulum ekki gleyma því að umræður í þessum sal ná inn á heimili landsmanna og á grundvelli þeirra kveður þjóðin m.a. upp sinn dóm í kosningum.

Eins og háttvirtum þingmönnum er kunnugt, er mestur hluti húsnæðis Alþingis leiguhúsnæði sem hefur ekki verið byggt miðað við starfsemi þingsins.  Ýmis óþægindi og kostnaður fylgir slíku fyrirkomulagi og því hefur á undanförnum árum mikið verið um það rætt  hvernig tryggja mætti til frambúðar aðstöðu þingsins á Alþingisreitnum. Hugmyndir að framtíðarskipulagi liggja nú fyrir og má kynna sér þær á vef Alþingis.
Mikilvægur þáttur í skipulagningu Alþingisreitsins hefur verið að tryggja varðveislu íslenskrar byggingararfleifðar á reitnum.  Ég lít svo á  að það sé skylda okkar að hafa í heiðri þá löggjöf sem við höfum sett um húsafriðun  og hef ég því  beitt mér fyrir því, með góðum stuðningi forsætisnefndar og borgaryfirvalda,  að Skjaldbreið við Kirkjustræti verði endurgerð og að húsið við Vonarstæti 12, Skúlahúsið, verði varðveitt og flutt og sett við hlið Skjaldbreiðar á horni Tjarnargötu og Kirkjustrætis. Með því forðum við gömlum og sögulegum húsum frá niðurrifi  sem hefði ekki verið í þeim anda húsafriðunar sem hefur ríkt við uppbyggingu á reitnum.  Jafnframt verður með endurgerð Skjaldbreiðar og flutningi Skúlahúss til samstæð götumynd sem verður í  góðu samræmi við þær endurbætur sem gerðar hafa verið í Aðalstræti.  
Það er  von mín að góð samstaða geti tekist um það hér á Alþingi að vinna að þessari uppbyggingu í hæfilegum áföngum á kjörtímabilinu.

Alþjóðlegt samstarf verður sífellt fyrirferðarmeira í störfum alþingismanna og á það ekki síður við um forseta þingsins. Fyrir nokkrum dögum fór ég ásamt öðrum forsetum þjóðþinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í heimsókn til Georgíu.  Forsetar Eystrasaltsríkjanna hvöttu til ferðarinnar, minnugir öflugs stuðnings Norðurlandaþjóðanna við þá á erfiðum umbrotatímum. 
Markmiðið er að styðja við lýðræðisþróunina í Georgíu og bjóða  þinginu til samstarfs og stuðnings í þessum mikilvægu skrefum í lýðræðisátt.  Það voru sannarlega áhrifamiklir fundir sem við áttum með helstu forystumönnum landsins enda er þjóðfélagsástandið viðkvæmt.

Þegar við nú, hefjum nýtt löggjafarþing, skulum við minnast þess að lýðræðisleg þingstörf eru ekki allsstaðar raunin.  Þau eru einungis forréttindi hluta mannkyns.  Það  minnir okkur á  hversu dýrmæt lýðræðishefðin er okkur Íslendingum  og hversu mikilvægt það er að standa vörð um það frelsi sem við  búum við sem sjálfstæð og fullvalda þjóð  sem hefur öll efni til þess að búa  við félagslega og efnahagslega velsæld.

Þessum þingfundi verður brátt frestað og vil ég biðja gesti að þiggja veitingar í tilefni dagsins í Skála Alþingis. Þingflokksfundir hefjast kl. 3.40. Ég bið hæstvirtan forsætisráðherra að ganga  með mér til Skála.

Þessum fundi er nú frestað til kl. 4 síðdegis.