Forseti Alþingis flytur ávarp á þingsetningarfundi

  Ég býð háttvirta alþingismenn og gesti við þessa athöfn velkomna til þingsetningar á þessum fagra haustdegi. Vindurinn blés að vísu aðeins um okkur þegar við gengum milli Dómkirkjunnar og Alþingishússins og það er ef til vill táknrænt fyrir þann mótbyr sem við eigum nú við að glíma í efnahagslífi okkar. Það er von mín að okkur beri gæfa til að taka með farsælum hætti á þeim stóru verkefnum sem bíða okkar á næstu vikum og mánuðum.

  Hugur okkar dvelur hjá utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og hef ég sent henni kveðju þingsins.

  Á undanförnum árum höfum við gert margar endurbætur á lagasetningarferlinu  og bætt starfsaðstöðu alþingismanna að mörgu leyti. Ég tel því orðið tímabært að fram fari endurskoðun á þeim lagareglum sem gilda um þingeftirlitið. Í júní sl. samþykkti forsætisnefnd að skipa nefnd til að fara yfir gildandi lagareglur um eftirlitshlutverk Alþingis  og leggja mat á hvort breytinga sé þörf í ljósi þróunar í samfélaginu. Ég skipaði  þriggja manna sérfræðinganefnd til að sinna fyrsta hluta þessa verkefnis og mun nefndin skila skýrslu fyrir þinglok. Það kemur svo í hlut okkar stjórnmálamannanna að marka stefnuna í þessum efnum. Ég tel að slík endurskoðun á lagareglum er gilda um eftirlitshlutverk Alþingis sé í takt við þær veigamiklu breytingar sem orðið hafa á ýmsu regluverki sem varðar stjórnsýslu ríkisins. Í því sambandi má nefna þau framfaraspor sem stigin voru með því að færa Ríkisendurskoðun undir Alþingi og með stofnun embættis umboðsmanns Alþingis svo og með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum.

  Þegar hugað er að eftirlitshlutverki Alþingis tel ég að efla þurfi það eftirlit sem fram fer á vegum fastanefnda þingsins. Þáttur í því er að skapa möguleika á að nefndir geti haldið einstaka nefndarfundi fyrir opnum tjöldum. Forsætisnefnd setti í vor reglur um opna nefndafundi. Samkvæmt þessum reglum getur fastanefnd óskað eftir því að ráðherrar, forstöðumenn sjálfstæðra ríkisstofnana og fulltrúar hagsmunaaðila komi á opna fundi og veiti nefndinni upplýsingar. Væntanlega yrðu slíkir fundir einkum bundnir við mál sem vega þungt í þjóðfélagsumræðunni hverju sinni og áfram verður meginreglan sú að vinnufundir nefndanna verði lokaðir.

   Ég tel að með opnum nefndafundum sé stigið mjög þýðingarmikið skref sem eigi eftir að breyta ásýnd þingsins sem eftirlitsaðila og styrkja störf þess. Með opnum fundum verður eftirlit Alþingis sýnilegra og skapar betri möguleika á því að gefa almenningi kost á fylgjast með þeim viðfangsefnum sem eru til umfjöllunar á þinginu. Um leið er skapaður opinn vettvangur fyrir skoðanaskipti milli þingmanna og aðila  í þjóðfélaginu sem aldrei væri mögulegt að fram færu í þingsal þar sem þingmenn einir hafa aðgang.

  Fyrsta skrefið verður stigið í þessa átt við upphaf haustþings. Það skiptir miklu að vel takist til og framkvæmdin verði í góðri sátt.

  Varðandi önnur atriði í nefndastarfinu vil ég í það fyrsta nefna að svigrúm nefnda til fundastarfa er oft mjög þröngt. Það er þess vegna nauðsynlegt að gefa nefndum rýmri tíma í störfum Alþingis. Ég tel að meta þurfi hvort fækka ætti  nefndum þannig að hver nefnd hefði möguleika á tíðari og lengri nefndafundum eftir þörfum og meiri samfella ríkti í störfum þeirra. Þetta mundi um leið jafna álagið á nefndirnar og hægt væri að veita hverri nefnd betri starfsaðstöðu. Annað atriði sem þarf að huga að er hvernig bæta megi upplýsingaþjónustu fyrir þingmenn í nefndastarfinu. Nú njóta þingmenn góðrar aðstoðar upplýsinga- og rannsóknarþjónustu skrifstofunnar. Það er hins vegar ljóst að það er vaxandi eftirspurn eftir þessari þjónustu og þá ekki síst í tengslum við störf þingmanna í nefndunum. Þá vil ég nefna hversu mikilvægt það er að nefndir geti nýtt sér að fullu sína föstu fundartíma. Stundum gerist það því miður að nefndir hafa fá verkefni vikum saman fyrri hluta þings þar sem boðuð stjórnarfrumvörp koma seint fram. Úr þessu verður ekki bætt nema með því að ríkisstjórnin hraði framlagningu þeirra mála sem hún hyggst fá afgreidd á löggjafarþinginu. Um þetta atriði hef ég þegar ritað ríkisstjórn bréf og vænti þess að hægt verði að sameinast um úrbætur í þessum efnum. Með slíku má bæta vinnubrögð Alþingis og minnka það álag og tímahrak sem oft vill verða þegar mörg mál bíða umræðu og afgreiðslu á síðustu dögum þingsins.

  Það hefur löngum verið gagnrýnt að nefndir þingsins liggi á þingmannamálum og að þær afgreiði þau ekki frá sér nema í undantekningatilvikum. Í reynd hafa tiltölulega fá þingmannamál verið afgreidd á hverju þingi og hefur svo verið um langt skeið. Þetta hefur yfirleitt bitnað jafnt á málum stjórnarþingmanna sem og þingmanna stjórnarandstöðu.

  Ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið tímabært að gera hér breytingu á. Eðlilegt er að nefndir starfi þannig að öll mál sem til þeirra er vísað fái afgreiðslu úr nefnd, hvort sem meirihlutastuðningur er við það að samþykkja mál eða ekki í nefndinni. Það er hlutverk Alþingis sjálfs á þingfundi að taka afstöðu til endanlegrar afgreiðslu þessara mála. Þingið á að vera ófeimið við fella slík mál sem meiri hluti þingmanna styður ekki eða þurfa betri tíma, og kannski hentugri tíma. Og auðvitað á þingið ekki síður að veita þeim þingmannamálum brautargengi sem meiri hluti er talinn vera fyrir. Það mætti hugsa sér einhverja vinnureglu sem fælist í því að þingmannamál sem lögð eru fram fái afgreiðslu í nefnd á kjörtímabilinu.

  Breyting sem þessi leiðir til þess að álag á þingfundum mun eitthvað aukast en á móti mætti hugsanlega breyta þingsköpum til þess að gera mögulegt að hægt sé knýja fram afstöðu þingsins án þess að afgreiðsla þingmannamála taki alltof mikinn umræðutíma. Um þessa breytingu vil ég ræða við forustumenn þingflokkanna og ég hygg að við ættum að ná vel saman um lagfæringu á þessu sviði til að treysta stöðu þingsins sem meginvettvangs  pólitískrar umræðu í landinu og skapa jafnframt festu við afgreiðslu mála sem einstakir þingmenn flytja.

  Þessum þingfundi verður nú brátt frestað og vil ég biðja þingmenn og gesti að þiggja veitingar í tilefni dagsins í Skála Alþingis. Þingflokksfundir hefjast kl. 3.40.

  Ég bið hæstvirtan forsætisráðherra að ganga með mér til Skála.

  Þessum fundi verður nú frestað til kl. 4.
 
  Fundinum er frestað.