Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson og frú Dorrit Moussaieff, forsætisráðherra, alþingismenn, og aðrir góðir gestir.

Ég vil leyfa mér fyrir hönd okkar gestanna að færa forseta Íslands og hans ágætu eiginkonu alúðar þakkir fyrir hlýjar móttökur á þessum 90. ára afmælisdegi íslensks fullveldis.

Það er  ánægjulegt að í dag skuli hafa verið efnt til a.m.k. þriggja málþinga sem varða íslenska stjórnskipan og samfélag. Ef eitthvað er þá hefur verið of mikið framboð af áhugaverðu efni til umfjöllunar á sama tíma í dag. Ég hefði t.d. gjarnan viljað getað hafa haft tök á að sækja málþing í Háskóla Íslands um fullveldið, enda mjög áhugavert efni í ljósi vaxandi umræðu um samskipti okkar við Evrópusambandið. Það er vissulega mikilvægt að ræða allar hliðar þeirra mála og þar gegna háskólarnir mikilvægu hlutverki að laða fram upplýsandi umræðu fræðimanna. Þar sem hér er samankominn góður hópur fólks úr háskólum landsins vil ég nota tækifærið og hvetja til þess að  háskólarnir og fræðasamfélagið beiti sér fyrir því að dagsins verði árlega minnst með ráðstefnum um efni sem tengist stjórnskipan okkar og samfélagi. Um slíkt gæti raunar  Alþingi og háskólasamfélagið átt samleið.

Mörg okkar voru fyrr í dag á málþingi sem Alþingi boðaði til um þingeftirlit. Sú ráðstefna er dæmi um viðfangsefni sem mér finnst eiga vel við að ræða 1.desember.  Málþingið var að mínu mati  vel heppnað  og verður vonandi til að kveikja frekari umræður um þetta mikilvæga hlutverk þingsins, enda reynir nú mjög á eftirlitshlutverk Alþingis á þeim umrótatímum sem við nú göngum í gegnum.

Ef litið er um öxl á sögu okkar þá  voru aðstæður ekki björgulegar  þegar fullveldi Íslands var fagnað, 1. desember 1918.

Heimstyrjöldinni fyrri var nýlokið með öllum sínum hörmungum og því mikla umróti  sem henni fylgdi á viðskipti og í atvinnulíf. Því til viðbótar hafði spánska veikin borist hingað á haustmánuðum 1918, en sá skæði inflúensufaraldur lagði tæplega 500 Íslendinga í valinn, mest fólk á besta aldri.  Þrátt fyrir þessar aðstæður vakti fullveldið von og þrótt með þjóðinni.

Við lifum nú  tíma mikillar óvissu og óöryggis og ýmsar viðsjár eru á lofti um nálæga framtíð, sem hætt er við að geti einkennst af  þrengingum á vinnumarkaði og versnandi lífskjörum.  Til skemmri tíma munum við því þurfa að færa talsverðar fórnir, en berum þá von í brjósti að viðbrögð okkar og allar aðgerðir til sóknar og varnar  muni skila sér í batnandi stöðu til lengri tíma litið. 

Það bætir vissulega ekki bölið að benda á eitthvað annað, en höfum í huga þær aðstæður sem hér ríktu þegar sambandslaga-samningurinn tók gildi og verum þrátt fyrir allar aðstæður þakklát fyrir það velferðarþjóðfélag sem kynslóðirnar á Íslandi  hafa byggt upp síðustu níutíu árin.   Kynslóðir Íslendinga hafa staðið af sér marga raunina og svo mun einnig verða  takist okkur að beina afli fólksins í landinu í jákvæðan farveg uppbyggingar  og framþróunar , með samtöðu og ríkan vilja að leiðarljósi.

Ég bið ykkur að drekka skál forsetahjónanna og fósturjarðarinnar.