Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson, ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með fullveldisdaginn, en í dag minnumst við þess að 90 ár eru liðinn frá því að Ísland varð fullvalda ríki. Um leið býð ég ykkur velkomin til þessarar ráðstefnu um eftirlit löggjafarþinga.

Það er nokkuð um liðið síðan ákveðið var að Alþingi stæði fyrir þessari ráðstefnu. Tildrögin voru þau að forsætisnefnd Alþingis ákvað í júní sl. að fá  sérfræðinga til að fara yfir lagareglur um þingeftirlit og leggja mat á hvort breytinga væri þörf. Um það efni fjallaði ég við þingslit síðast liðið vor og vék þá að þeim umbreytingum sem unnið hefur verið að innan Alþingis og sagði m.a.:

,, Einn veigamikill þáttur í þessu umbótaferli hefur verið að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis. Ég tel að efla þurfi sérstaklega eftirlitshlutverk fastanefndanna og að opna eigi einstaka nefndarfundi fyrir fjölmiðlum og hagsmunaaðilum. Í því skyni lagði ég í lok apríl fyrir forsætisnefnd tillögur um opna nefndarfundi og voru þær einróma samþykktar. Með þessari samþykkt forsætisnefndar hefur verið stigið mjög veigamikið skref sem á eftir að breyta ásýnd þingsins sem eftirlitsaðila með störfum framkvæmdarvaldsins.“

Tilvitnun lýkur. Eins og þekkt er þá geta nefndir þingsins nú haldið opna fundi sem er sjónvarpað líkt og þingfundum. Þetta gerir eftirlitshlutverk nefndanna sýnilegra og líklegara til árangurs og býður upp á kröftugra fyrirbyggjandi eftirlit á líðandi stundu. Síðar í ræðu minni fjallaði ég um lagareglur er varðar þingeftirlit og sagði m.a.:

,,Ástæða þess að ég legg svo mikla áherslu á eftirlitshlutverk Alþingis er sú eindregna skoðun mín að þingeftirlitið sé auk löggjafarstarfsins veigamesta hlutverk Alþingis… Mér finnst eðlilegt að fram fari heildarendurskoðun á þeim lagareglum sem gilda um þingeftirlitið. Ég hyggst því leggja fyrir forsætisnefnd tillögu um skipan nefndar sem fari yfir gildandi lagareglur, skoði álitaefni, rannsaki þá þróun sem orðið hefur í þessum efnum í nágrannalöndum okkar ekki síst á Norðurlöndum og skili síðan skýrslu til forsætisnefndar.“

Svo mörg voru þau orð.
Síðastliðið sumar skipaði forsætisnefnd Alþingis svo vinnuhóp sérfræðinga  til að rýna í þingeftirlitið og lagareglur er það varðar og gera tillögur til forsætisnefndar um það efni. Niðurstaða þessa vinnuhóps á eftir að verða mikilvægt innlegg í umræðu við  stefnumótun  og e.t.v. breytta löggjöf á þessu sviði.

Bryndís Hlöðversdóttir aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst, sem er formaður vinnuhópsins, mun í erindi sínu hér á eftir m.a. fara yfir stöðu þingeftirlits á Íslandi, en með henni skipa vinnuhópinn Ragnhildur Helgadóttir prófessor við lagadeild HR og Andri Árnason hæstaréttarlögmaður. Með þeim starfar Ásmundur Helgason aðallögfræðingur Alþingis.
Sú hugmynd kom fljótlega fram eftir skipun nefndarinnar að gagnlegt væri að efna til ráðstefnu um þingeftirlit í tengslum við þessa vinnu. Þótti við hæfi að ráðstefnan væri haldin á fullveldisdaginn og má segja að sú tímasetning sé framlag Alþingis til þess að halda í heiðri og minnast þeirra mikilvægu og merku tímamóta í sögu okkar. Um leið er tækifærið notað til þess að hvetja til þess að fullveldisdagurinn  verði í framtíðinni notaður til að fjalla um mikilvæg málefni er varða íslenska stjórnskipan. 

Þegar ákveðið var að efna til þessarar ráðstefnu voru aðstæður í þjóðfélaginu vissulega allt aðrar en þær eru í dag. Engan óraði fyrir því að veröldin öll yrði skekin af þeim öflum fjármálalífsins sem ógna afkomu einstaklinga og þjóða og að við ættum eftir að standa frammi fyrir öðrum eins efnahagsáföllum og við gerum í dag. Við þessar aðstæður reynir á eftirlitshlutverk Alþingis.  Þrátt fyrir gagnrýni og hörð viðbrögð gagnvart Alþingi að undanförnu  þá hefur  Alþingi leitast við að standa undir  þeim kröfum sem eftirlitshlutverk þess leggur því á herðar, auk þess sem alþingismenn hafa verið í önnum við björgunaraðgerðir með beinum og óbeinum hætti vegna bankahrunsins.
Þó að hljótt hafi farið fór fljótlega í gang innan Alþingis vinna við gerð frumvarps um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslenska bankakerfisins. Hér var um að ræða verk sem krafðist vandlegs undirbúnings og tók því sinn tíma. Vegna þeirrar gagnrýni sem Alþingi sætir stundum vil ég sérstaklega taka það fram að öll vinna við þetta lagafrumvarp var í höndum Alþingis og stofnanir framkvæmdavaldsins komu að engu leyti að samningu þess. Gerð þessa frumvarps er því staðfesting á þeirri þróun sem orðið hefur innan Alþingis og lýsir sér í auknu faglegu sjálfstæði þingsins. Það er líka mikilvægt að breið samstaða tókst um að leggja fyrir þingið frumvarp um rannsókn bankahrunsins og tengdra atburða. Frumvarpið, sem er auðvitað hluti af þingeftirlitinu, var unnið á vegum forseta Alþingis í mjög góðu samstarfi við formenn allra stjórnmálaflokkanna. Frumvarpið er nú til meðferðar í allsherjarnefnd Alþingis og verður vonandi að lögum áður en langt um líður.

Í 39. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um ákveðna leið til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varðar. Þar segir að Alþingi geti skipað nefndir alþingismanna til að annast slíkar rannsóknir og að unnt sé að veita slíkum nefndum rétt til að heimta skýrslur af embættismönnum og þeim sem tiltekið mál varðar sem er til rannsóknar á vegum þingsins.  Þessi heimild Alþingis er einn þáttur í því mikilvæga hlutverki þingsins að sýna framkvæmdarvaldinu aðhald og hafa eftirlit með ráðherrum og þeirri stjórnsýslu sem undir þá heyrir. Niðurstaða  flutningsmanna frumvarpsins um rannsóknarnefnd var hins vegar sú að í ljósi aðstæðna væri líklegra að víðtækari sátt mundi nást um rannsóknina ef hún væri í höndum nefndar sem yrði skipuð óháðum einstaklingum sem staðið hefðu utan við átök stjórnmálanna.

Nefndinni sem ætlað er að rannsaka hrun bankakerfisins er þriðja nefndin sem Alþingi kemur á fót á sl. tveimur árum og sem lýtur að rannsókn á afmörkuðu máli er almenning varða. Í maí 2006 samþykkti Alþingi þingsályktun um skipun nefndar til að rannsaka gögn sem snerta öryggismál Íslands á árunum 1945–1991 og í mars 2007 setti Alþingi lög um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, Breiðavíkurnefndina.  Þessar rannsóknarnefndir undirstrika að Alþingi hefur verið að fara inn  á nýjar brautir í eftirlitshlutverki sínu. Í ljósi  þessarar þróunar tel ég mikilvægt að Alþingi móti skýra stefna í þeim tilgangi að tryggja skynsamlega skipan mála hvað varðar þingeftirlit  sem tryggir  réttláta framkvæmd ríkisvaldsins.

Í þeirri endurskoðun sem unnin er á þingeftirliti hér á landi er vissulega nauðsynlegt að læra af reynslu grann- og vinaþjóða okkar.  Það er því sérlega ánægjulegt að þrír valinkunnir fræðimenn frá Danmörku, Noregi og Svíþjóð, urðu við ósk okkar um að greina frá stöðu þessara mála í sínum löndum. Allt eru þetta menn sem hafa mikla þekkingu á þessu sviði. Ég vil því bjóða velkomna hingað þá Fredrik Sejersted lögmann í Osló, Claus Dethlefsen, aðallögfræðing danska þingsins og Ulf Christofferson, aðstoðarskrifstofustjóra sænska þingsins. Það verður mjög áhugavert að kynnast því sem þeir hafa til málanna að leggja hér á eftir.

Um leið og ég segi þessa ráðstefnu setta vil ég fela Ragnhildi Helgadóttur, fyrrverandi forseta neðrideildar Alþingis  og ráðherra, að taka við stjórn fundarins.