Eftir beiðni forsætisráðherra var vikið frá starfsáætlun þingsin s.l. miðvikudag og haldinn þingfundur í kjördæmaviku þegar þingmenn áttu að vera á fundum í kjördæmunum. Ástæða var að ný ríkisstjórn hafði tekið við og nýr meirihluti á Alþingi krafðist þess með bréfi að gegnið yrði til kosninga um fastanefndir og forseta Alþingis. Við það tækifæri flutti ég eftirfarandi ávarp
Áður en gengið er til dagskrár vil ég bjóða ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur velkomna til starfa og óska ráðherrunum velfarnaðar í mikilvægum störfum þeirra. Ég vona að þeir eigi gott samstarf við Alþingi. Jafnframt þakka ég ráðherrum í ríkisstjórn Geirs H. Haarde fyrir samstarfið og óska þeim alls hins besta. Héðan frá Alþingi sendum við Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, góðar kveðjur.
Mikil umskipti hafa nú orðið í íslenskum stjórnmálum. Ríkisstjórn sem naut stuðnings meira en tveggja þriðju hluta þingmanna hefur sagt af sér og við tekur minnihlutastjórn tveggja flokka. Alþingiskosningar verða í vetrarlok.
Ríkisstjórnir koma og fara, það er hluti af lýðræðinu og þeirri stjórnskipan sem við búum við í landinu. Og kosningar verða eigi síðar en á fjögurra ára fresti. En Alþingi stendur, hvað sem á dynur.
Ég verð að viðurkenna fyrir þingheimi, héðan úr stól forseta Alþingis, að ég hef verið mjög hugsi yfir atburðum síðustu vikna við Alþingishúsið, og er sannarlega ekki einn um það. Veggir þinghússins hafa verið útbíaðir, rúður þess brotnar í tugatali og ruðst hefur verið inn í það með ofbeldi.
Í stjórnarskránni segir að eigi megi raska friði Alþingis né frelsi. Þess vegna hljótum við að harma þessa atburði.
Við höfum mótað okkur leikreglur í samfélaginu á löngum tíma. Þeim má vissulega breyta, en menn verða fara með friði. Annars er voðinn vís. Ég vona í lengstu lög að atburðirnir við Alþingishúsið að undanförnu boði ekki nýja siði í íslenskum stjórnmálum.
Alþingi er hornsteinn íslenskrar stjórnskipunar. Þangað velur íslenska þjóðin sína fulltrúa. Stöndum vörð um Alþingi.