Samgönguráðherra ávarpaði ársfund Hafnasambands sveitarfélaganna sem haldinn er í Neskaupsstað fyrr í dag. Ávarp ráðherra fer hér á eftir.
Ávarp á ársfundi Hafnasambands sveitarfélaga, haldinn í Neskaupsstað 5.október 2001.
Fundarstjóri, ágætu fundarmenn.
Ég vil byrja á því að þakka fyrir tækifærið að fá að vera með ykkur hér á ársfundi Hafnasambandsins, og færa kveðjur úr Samgönguráðuneytinu með þakklæti fyrir ágætt samstarf á árinu frá síðasta ársfundi.
Ég kom fljúgandi hingað í morgun, eftir að hafa komið við á Siglufirði þar sem að við vorum að undirrita samning við Siglufjarðarbæ um rekstur á flugvellinum, en gert er ráð fyrir því að eftir að breytingar hafa orðið á innanlandsfluginu hvað varðar Siglufjörð að bæjaryfirvöld taki við þeirri starfsemi. Með því vil ég leggja áherslu á að færa verkefni til sveitarfélaganna þar sem að samningar nást um það. Þetta er gott samkomulag og ég vænti góðs af þessu fyrirkomulagi. Með sama hætti munum við væntanlega undirrita samning hér í Fjarðarbyggðinni um flugvöllinn hér í dag. Svo fer ég til Reykjavíkur og undirrita samninga við Reykjavíkurhöfn um að þið takið við flugvellinum í Reykjavík – svo maður slái nú aðeins á létta strengi svona í upphafi fundar.
En það er vissulega við hæfi að koma hingað á ársfund Hafnasambandsins í Fjarðarbyggð á Austfjörðum, ekki síst þegar við lítum til þess að væntanlega verða einhverjar allra mestu hafnarframkvæmdir á næstu árum hér á Austurlandi og lít ég þá til fyrirhugaðra framkvæmda við álvershöfn í Reyðarfirði og síðan mikla endurbót og framkvæmd í Seyðisfirði vegna ferjuhafnar. Þetta eru afar mikilvæg áform gerð í þeim tilgangi annars vegar að koma til móts við uppbyggingu stóriðju hér á Austurlandi og svo hins vegar að koma til móts við þá sem reka ferjuna til Seyðisfjarðar, því að ný ferja kemur, eins og þið vitið, innan tíðar og hafnaraðstaðan þarf að hafa batnað. Þannig að það er vissulega ástæða til þess að menn hugi að þessum áformum hér á Hafnasambandsþinginu og taki m.a. tillit til þess í sínum ályktunum.
Nú, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá er það nú þannig að hafnirnar eru að færast meir og meir inn í samkeppnisumhverfið, og það er tímanna tákn – og í rauninni krafa samkeppnisyfirvalda – að við lítum meira til þeirra staðreynda. Það var því í ljósi þess m.a. sem að ég tók ákvörðun um að gefa tiltekið svigrúm í gjaldskránni með hækkun eða lækkun hjá þeim höfnum sem að teldu sig hafa svigrúm til þess. Hins vegar, eins og kom fram hjá formanni Hafnasambandsins, varð ekki nema um 4% hækkun að ræða á almennu gjaldskránni en engu að síður gefið tiltekið svigrúm. Ég hlýt, ekki síst með tilliti til orða formanns Hafnasambandsins, að segja að tími hinna samræmdu gjaldskráa hafnanna er liðinn, og það er algjörlega óboðlegt, að mínu mati, að gera ráð fyrir því að við getum staðið áfram með sama hætti að hækkun á gjaldskrá hafnanna, ein prósentutala á allar hafnir, hvort sem þær eru að skila mjög miklum hagnaði, eðlilega og góðum hagnaði eða hvort hafnirnar eru reknar með halla, eins og mjög margar hafnir eru. Þannig að það er ekki lengur hægt að gera ráð fyrir því, enda kemur það mjög glögglega fram í skýrslunni sem að vitnað var hér til fyrr, að það verður að horfa á þetta með öðrum hætti en þeim en að loka öðru auganu og hækka um ákveðna prósentu á allar hafnir. Það verður að færa þetta inn í það umhverfi og gera þær breytingar að hver höfn taki sína ákvarðanir um gjaldskrárbreytingar í ljósi þess umhverfi sem höfnin starfar í.
En eins og væntanlega verður nú rætt hér betur á fundinum þá er alveg ljóst að staða hafnanna yrði mjög misjöfn og á því þarf auðvitað að taka og við því þarf að bregðast. Það er einmitt í því ljósi sem að við settum af stað vinnu við endurskoðun á hafnalögunum í þeim tilgangi að taka þessi mál nýjum tökum. Hafnalagafrumvarpið, sem raunar er ekki orðið að frumvarpi fyrir þinginu ennþá, er hér til meðferðar og skoðunar og ég vænti þess að fundurinn geti komið með ábendingar til okkar ennþá, því það er ekki búið að slá neinu í lás. Frumvarpið er í rauninni ennþá í vinnslu í ráðuneytinu og ég tek öllum ábendingum og tillögum um breytingar og mun ekki leggja fram frumvarpið fyrr en ég hef farið yfir þær ályktanir sem að frá þinginu koma.
Nú staða hafnanna hefur verið að breytast og hún er allt önnur í dag en hún var fyrir tíu árum. Það eru gerðar miklar kröfur til hafnanna, miklar þjónustukröfur þannig að framleiðnin sem að við sjáum að kemur út úr rekstri hafnanna í dag, hún er allt önnur en var fyrir nokkrum árum m.a. vegna þess að rekstrarkostnaðurinn er meiri og það stafar af auknum kröfum um þjónustu frá höfnunum. Það eru líkar gerðar allt aðrar kröfur en áður var til hafnanna hvað varðar umhverfismálin, eins og þið vitið náttúrulega allra manna best og margar hafnar eru perlur sinna byggða og sú krafa stendur á hafnarstjórnir að miða framkvæmdir í umhverfismálum við það. Þannig að það er á margt að líta í þessu öllu saman.
Forstjóri Siglingastofnunar mun væntanlega hér í dag fara yfir áform sem að hann hefur til meðferðar um framkvæmdir og mat Siglingastofnunar á nauðsynlegum framkvæmdum í framtíðinni,en ég vil bara undirstrika og minna menn á það að framkvæmdir í höfnum þurfa að sjálfsögðu að miða að því að bæta aðstöðu. Hún er víða þannig að það þarf að lagfæra hafnarmannvirki en við megum hins vegar ekki gleyma því að það þurfa að koma tekjur og sumar framkvæmdir gefa kannski engan arð í raun og veru sem auknar tekjur í hafnarsjóðina.
Þær áherslur sem hafa legið að baki að við höfum verið að vinna í breytingum á hafnalögum er fyrst og fremst og kannski ekki síst þessi krafa samkeppnisyfirvalda og markaðarins um að reyna að koma á einhverju samkeppnisumhverfi. En við höfum hins vegar í annan stað þennan vanda við að eiga að við eigum auðvitað takmarkaða fjármuni út úr þessari starfsemi og bættar vegasamgöngur hafa áhrif á hafnarreksturinn og þess vegna er það að ég fagna því sérstaklega hversu vel er tekið undir um áform um samræmda samgönguáætlun. Undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar er unnið að gerð samgönguáætlunar fyrir landið þar sem tekið er á flugvöllum, höfnum og vegum. Það er kannski tímanna tákn að hér eru fulltrúar inni frá Vegagerðinni og Flugmálastjórn auk þess að hér eru að sjálfsögðu menn frá Siglingastofnun eins og venjulega, en við leggju mjög mikla áherslu á það í Samgönguráðuneytinu um þessar mundir að rýna rækilega í hvernig getum við lagt á ráðin um uppbyggingu samgöngþáttanna allra. Um leið og við bætum vegakerfið, hvað eigum við þá að gera í uppbyggingu hafnanna, hvað eigum við að gera í uppbyggingu flugvalla. Ég tel að að með því að taka höndum saman með þessum hætti, þá nýtum við fjármunina betur og getum framkvæmt meira en annars væri.
Það er með sama hætti nauðsynlegt að líta til þess, ekki síst hjá stjórnendum hafnanna, að blessuð auðlindin í sjónum, hún er takmörkuð og áform um aukna afkastagetu í höfnunum er kannski, með framkvæmdum, áform um að ná til sín viðskiptum frá öðrum höfnum að sjálfsögðu. Þannig að þetta er nú allt saman innan þess ramma.
Samkvæmt framkvæmt frumvarpinu sem að þið hafið nú undir höndum og getið skoðað þá er lögð áhersla á það að gera þær breytingar að hafnirnar verði sjálfstæðari og sem rekstrareiningar ráði þær sínum tekjustofnum sjálfar og miði við sinn rekstur, sín áform um uppbyggingu og framkvæmdir. Engu að síður, og það vil ég undirstrika hér, gerum við ráð fyrir því í þessu frumvarpi, að tryggja minnstu höfnunum, sem hafa takmarkaðar tekjur, höfnum sem að liggja nærri auðlindum sjávar og eru nauðsynlegar að sjálfsögðu í byggðarkeðjunni, en verða af eðlilegum ástæðum að hafa ríkisstyrki áfram. Þetta vil ég að komi hér alveg skýrt fram að það er ekki verið að hlaupa, af hálfu ríkins, frá því að styðja við uppbyggingu slíkra hafna.
Ég vil enn og aftur eins og ég gerði í fyrra að minna menn á þá möguleika sem ég sé í því að byggja upp og sameina hafnirnar undir hatti þjónustsvæða hafna. Ég hefði t.d., og segi hiklaust hvar sem er, talið eðlilegt að á Reykjanesinu væri eitt sameiginlegt hafnarsvæði, sameiginlegur rekstur á höfnunum á Reykjanesi, með sama hætti og hægt væri að gera það á Snæfellsnesi, svo maður höggvi nú nærri eigin greni. Þetta þurfa menn að hugsa um á næstunni, að ég tel, í ljósi væntanlegra nýrra hafnarlaga, í ljósi samræmdrar samgönguáætlunar sem mun leggja þær línu, að bætt vegakerfi hlýtur að gera kröfu til þeirra sem að reka hafnirnar, um að þeir hagræði og byggi upp sína þjónustu og sinn rekstur í ljósi breyttra aðstæðna. Ekki síst í ljósi breyttra flutninga um landið.
Ágætu ársfundarfulltrúar, að lokum vil ég síðan nefna það eitt sem að tengist rekstri og starfsemi hafna og áhugasviði þeirra sem að hafnarmálunum koma. Við höfum samkvæmt ályktun Alþingis og síðan núna í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, gert ráð fyrir stórauknum fjármunum til rannsókna og aukinnar áherslu á öryggismál sjófarenda. Það var samþykkt áætlun um öryggismál sjófarenda á síðast þingi og Siglingastofnun er falið það verkefni að vinna að því og fær til þess 15 milljónir á næsta ári. Með sama hætti eru auknir fjármunir til Rannsóknarnefndar sjóslysa. Við viljum með þessu leggja á djúpið í þeim tilgangi að gera allt sem við getum til þess að auka og tryggja öryggi sjófarenda. Og ég skora á forsvarsmenn Hafnasambandsins að taka höndum saman með Siglingastofnun og ráðuneytinu í þessu mikilvæga verkefni.
Þakka ykkur fyrir.