Morgunblaðinu í dag fylgir vandað aukablað um öryggismál sjómanna. Hér á eftir fer ávarp samgönguráðherra sem birt er í því blaði.
Í byrjun síðasta árs ákvað ég að hrinda af stað átaki í öryggismálum sjófarenda. Tæpt ár var þá liðið frá því ég tók við sem samgönguráðherra. Á þeim tíma varð mér ljóst að betur mætti gera í öryggismálum sjófarenda, brýnt var orðið að móta heildstæða stefnu til að vinna eftir. Margir aðilar hafa unnið mikilvægt og gott starf í öryggismálum sjómanna, t.d. stéttarfélög sjómanna, útgerðir, Slysavarnafélagið Landsbjörg og opinberar stofnanir. Mikilvægt er að taka höndum saman og samræma krafta þessara aðila og bæta með því öryggi á sjó enn frekar.
Skipuð var verkefnisstjórn í febrúar 2000 með fulltrúum frá samtökum sjómanna og útgerðar, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Siglingastofnun Íslands og samgöngu-ráðuneyti. Sérstakur starfsmaður var ráðinn til að safna gögnum, vinna úr tillögum, gera rannsóknir og greina upplýsingar. Á heimasíðu Siglingastofnunar Íslands var verkefnið kynnt og var öllum sem láta sig öryggismál sjómanna varða gefinn kostur á að koma skoðunum og tillögum sínum að. Óskað eftir athugasemdum og tillögum frá sjómönnum, útgerðum og öllum sem málið varðar. Tekin voru saman ýmis sjónarmið sem fram hafa komið í skýrslum og almennri umræðu, svo sem í blöðum, tímaritum og á ráðstefnum. Spurningar um öryggismál voru sendar til útgerðarfyrirtækja og sjómanna. Svör bárust frá um 120 starfandi sjómönnum og auk þess komu fram ýmsar aðrar skriflegar og munnlegar athugasemdir. Teknar voru saman upplýsingar úr þeim tilkynningum um slys á sjómönnum sem bárust Tryggingastofnun ríkisins árið 1999. Skoðaðar voru nýlegar sjóslysaskýrslur og rætt var við ýmsa aðila sem hafa góða þekkingu á ákveðnum sviðum öryggismálanna. Verkefnisstjórn skilaði tillögum sínum í lok síðasta árs.
Á grundvelli tillagna verkefnisstjórnar lagði ég fyrr á árinu fyrir Alþingi tillögu til þingsáyktunar um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda. Áætlunin tekur til áranna 2001, 2002 og 2003. Með tillögunni er í fyrsta sinn lagt til að gert verði sérstakt samræmt átak í öryggismálum sjófarenda á grundvelli samþykktar Alþingis. Í tillögunni koma fram þau verkefni sem lagt er til að ráðist verði í og tillaga um fjárveitingar vegna verkefna hvers árs. Tillagan er nú til umfjöllunar á Alþingi. Er þess að vænta að tillagana verði afgreidd fyrir þinglok.
Helstu efni tillögunnar eru eftirfarandi:
* útgerðarmenn og áhöfn bera sameiginlega ábyrgð á því að fyrirkomulag öryggismála um borð sé í góðu horfi.
* megináherslur í öryggismálum þarf að leggja á forvarnir gegn slysum og óhöppum.
* af hálfu hins opinbera fer Siglingastofnun Íslands með öryggismál sjófarenda undir yfirstjórn samgönguráðherra.
* samgönguráðuneyti hafi frumkvæði að því að hlutverk allra sem að öryggismálum sjófarenda koma verði skilgreint og efld verði samvinna og samstarf þeirra aðila.
* Siglingastofnun Íslands geri fyrir hvert ár framkvæmdaáætlun í öryggismálum sjófarenda sem samgönguráðherra staðfesti.
* Opinberar stofnanir og aðrir sem að öryggismálum sjófarenda vinna sendi skýrslu til Siglingastofnunar Íslands fyrir lok hvers árs um fyrirbyggjandi aðgerðir á sviði öryggismála sjófarenda.
* Auka þarf vitund allra sjómanna um slysahættu og um leiðir til að minnka hana.
* Áætlanir þarf að gera um fræðslu og áróður um slysahættu til sjós.
* Bæta þarf slysa- og óhappaskráningu þannig að orsakir þeirra komi fram.
* Auka þarf upplýsingastreymi til sjómanna og allt aðgengi að nauðsynlegum upplýs ingum sem tengjast öryggi þeirra á sjó.
* Auknar öryggiskröfur þarf að gera til búnaðar, tækja og vinnuaðstöðu í skipum.
* Fullnægjandi ástand öryggismála í skipum verður ekki nema áhafnir séu virkar í úrbótum.
* Reglulegt og virkt eftirlit útgerða og áhafna þarf að vera með öryggisþáttum í skipum.
* Tryggja þarf að eftirlit með skipum, opinbert sem á vegum einkaaðila, sé skilvirkt.
* Nauðsynlegt er að reglur um stjórn fiskveiða stuðli einnig að bættu öryggi og aðbúnaði í fiskiskipum.
Að endingu vil ég leggja áherslu á að sjóslys við Ísland eru allt of tíð og verður að leita allra leiða til að fækka þeim. Mikilvægt er að allir leggi sitt af mörkum til að svo megi verða. Ég tel að langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda sé mikilvægt skref að því marki.
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra.