Fundarstjóri, góðir fundarmenn

Mér er það ánægjuefni að ávarpa aðalfund ykkar þar sem áformað er að ræða markaðsmál og sameiningu kraftanna. Það er líka mikið ánægjuefni fyrir mig að sitja fund hér á Ísafirði þar sem ferðaþjónustan er ört vaxandi og mikilvægur atvinnuvegur.

Ísafjarðarbær hefur upp á margt að bjóða. Hér varðveitast söluleg og merkileg hús, áhugaverð söfn og Skutulsfjörðurinn er jafn fallegur á sumardegi og í skíðasnjónum að vetrarlagi. Vestfirðir í heild sinni hafa reyndar uppá margt að bjóða og smám saman hafa augu  landsmanna og ferðamanna frá öðrum löndum verið að opnast fyrir þessum áhugaverða landsfjórðungi.

Samgöngumálin og ekki síst vegamálin skipta höfuðmáli varðandi markaðssetningu Vestfjarða sem ferðamannasvæðis og vitanlega skipta þau máli fyrir alla atvinnuvegi. Ég leyfi mér að gera vegamál á Vestfjörðum að sérstöku umtalsefni hér enda góðar samgöngur forsenda framfara á öllum sviðum.

Síðustu árin hefur verið unnið að endurbótum á Djúpvegi og nægir þar að nefna nýbyggingu og lagningu bundins slitlangs á köflum í Mjóafirði og Skötufirði, uppbyggingu vegar um Svínadal og ýmsar endurbætur í Barðastrandasýslum og Ströndum. En uppbyggingunni er hvergi nærri lokið og stærstu verkefnin eru framundan sem er að ljúka uppbyggingu Djúpvegar með brú yfir Mjóafjörð, vegur um Arnkötludal sem fer í útboð á næstunni og vegurinn um Þorskafjörð, Gufufjörð og Djúpafjörð.

Nýlega var úrskurðað um að heimilt væri að leggja um fjöru og að þvera firði í stað þess að fara um erfiða hálsa. Einnig er framundan að ráðast í Óshlíðargöng sem eykur og bætir samgöngur á milli þéttbýliskjarnanna á noraðverðum Vestfjörðum. Með aukinni áherslu á vetrarþjónustu er enn betur búið að samgöngum á landinu öllu.

Áframhaldandi samgöngubætur á Vestfjörðum eru brýnar út frá öllum sjónarhornum. Samgönguáætlun verður lögð fyrir Alþingi um mánaðamót og þar munu menn sjá metnarfull áform um stórátak í vegagerð og öðrum sviðum samgangna. Alþingi hefur þó síðasta orðið um framvindu málsins en ég er sannfærður um að það er vilji fyrir því að auka verulega framlög til vegagerðar á næstu árum.

Fjarskiptamál eru ekki síður mikilvæg í þessum landsfjórðungi. Fyrir hálfum mánuði var skrifað undir verksamning við Símann hf. um að þétta gsm-farsímanetið á Hringveginum og nokkrum fjallvegum, þar á meðal Steingrímsfjarðarheiði. Þessum verksamningi fylgir líka að setja upp sendi í Flatey á Breiðafirði sem þýðir að farsímaþjónustan batnar mjög á stórum köflum á þjóðveginum um Barðastrandasýslur. Þetta er fyrri áfangi í því verki að auka farsímaþjónustuna og síðari áfanga verður netið þétt enn á fjölmörgum stöðum í þjóðvegakerfinu þar á meðal á Gemlufallsheiði og Dynjandisheiði. 

Á næstunni verður einnig boðið út verkefni til að bæta háhraðatengingu víða um land þar sem fjarskiptafyrirtæki hafa ekki séð hag sinn í að bjóða upp á þjónustu. Starfsmenn fjarskiptasjóðs vinna nú að því að taka út þau svæði sem þurfa sérstakan stuðning til að háhraðatengingu verði komið við.
Það er líka vel við eigandi að fjalla um skemmtiferðaskip hér og þá aukningu sem er að verða kringum þjónustuna við þau. Alls höfðu 22 skip viðdvöl hér á Ísafirði í fyrrasumar og næsta sumar er gert ráð fyrir komu 28 skipa með um það bil 18 þúsund gesti. Þjónusta við skemmtiferðaskip og farþega þeirra er mikilvæg búbót. Móttaka farþega frá skemmtiferðaskipum hefur marga snertifleti, skipulagi og sölumennsku, menningu- og listum, land- og mannlífskynningum svo eitthvað sé nefnt. Með vaxandi umsvifum á þessu sviði er nauðsynlegt að við séum tilbúin með innviðina á þessum stöðum, að hafa nægan mannskap til að sinna verkefnum á þessu sviði þegar mest er um að vera. Þetta hafið þið leyst með því að selflytja fólk og farartæki milli landshluta til að anna þörfinni og mér sýnist að með slíkri útsjónarsemi séu ykkur allir vegir færir þegar gestunum fjölgar.

Samgönguráðuneytið hefur undanfarin ár styrkt Ferðamálasamtök Íslands og níu uplýsingamiðstöðvar um allt land með veglegum styrkjum.

Á þessu ári hafa fjárframlög til Ferðamálastofu vegna ferðamálasamtaka landshlutanna hins vegar verið stóraukin og því ekki lengur þörf á aðkomu samgönguráðuneytisins á þessu sviði. Ráðuneytið mun á þessu ári styrkja nokkrar markaðsskrifstofur eins og undanfarin ár en síðan er alls óljóst hvað verður.   Eðlilegt  er að fjárframlög til  skrifstofanna sem og ferðamálasamtakanna komi í auknum mæli frá sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum auk Ferðmálastofu

Ég hef verið ötull talsmaður ferðamálasamtaka landshlutanna allt frá því ég átti aðild að stofnun þeirra fyrstu fyrir aldarfjórðungi. Síðan hefur mikið breyst og miklu meiri þekking orðið til innan fyrirtækjanna til að standa sig í samkeppninni. Hvatinn til að nýta þau fjölmörgu tækifæri sem ný tækni og auðveldara aðgengi að hinum stóra heimi býður upp á hefur vaxið með degi hverjum. Því tel ég ekki úr vegi að staldra við og huga að framtíðarstarfi samtaka sem þessara og hver staða þeirra er í heildarskipulagi ferðaþjónustunnar. Ferðamálasamtök Íslands eiga aðild að ferðamálaráði en í umræðum um frumvarpið á Alþingi fyrir tæpum tveimur árum kom fram að Samband íslenskra sveitarfélaga taldi nauðsynlegt að eiga einnig fulltrúa áfram í ferðamálaráði – Ferðamálasamtök Íslands væru ekki til þess fallin að standa vörð um hagsmuni þeirra á þeim vettvangi og sitja því nú fulltrúar beggja aðila í ráðinu.

Þessu varpa ég fram til umræðu hér og til að lýsa þeirri óskýru stöðu sem ferðamálasamtök landshlutanna hafa hugsanlega gagnvart þeim sem þau ættu að vera í hvað nánustu samstarfi við.

Undirritaður hefur verið nýr samningur milli Íslands, Grænlands og Færeyja um ferðamálasamstarf milli landanna. Samningurinn kallast NATA, North Atlantic Tourism Association. Fulltrúar Íslands í stjórninni eru Áslaug Alfreðsdóttir, Gunnar Sigurðsson og Magnús Oddsson. Með samningnum er stofnaður nýr vettvangur á gömlum grunni til að móta sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Vestur-Norðurlönd og styrkja ýmis verkefni sem efla ferðaþjónustu innan svæðisins.

Markmið NATA er að styrkja, samhæfa og tryggja ferðamálasamstarf á milli landanna. NATA ber að skilgreina sameiginlega hagsmuni og fjalla m.a. um um gæðamál, ýmis samstarfsverkefni og stofna sérstaka vefgátt fyrir ferðaþjónustu á vestnorræna svæðinu. NATA hefur einnig það hlutverk að efla samstarf í markaðsmálum, auglýsa styrki eins og hingað til (SAMIK og FITUR) og að tryggja þróun vestnorrænu ferðakaupstefnunnar, VNTM. NATA verður fjármagnað af stjórnvöldum en einnig er gert ráð fyrir að stjórnin sæki um styrki í ýmsa sjóði.

Rétt er að minnast á að enn er stefnt að því að leggja fram nú á vorþingi lagafrumvarp um að breyta og einfalda leyfisveitingar varðandi rekstur veitinga- og gistihúsa. Hér hafa mjög margir aðilar, til dæmis önnur ráðuneyti og sveitarfélögin, þurft að koma við sögu og málið því verið lengi í undirbúningi. Allir eru þó sammála um að þessu þurfi að sigla í höfn og ég bind enn vonir við að það takist á þessu þingi þótt því ljúki í fyrra lagi í vor vegna kosninga.

Ég vil líka geta um gerð svonefndra hliðarreikninga fyrir ferðaþjónustu á Íslandi sem þið kannist við. Þeir snúast um víðtæka gagnasöfnun um umfang ferðaþjónustu í íslensku efnahagslífi. Samgönguráðuneytið hefur samið við Hagstofu Íslands um verkefnið og veitir til þess sjö milljónum króna. Í fyrstunni er um tilraunaverkefni að ræða sem standa á fram á árið 2008 og mun reynslan skera úr um framhald málsins. Með upptöku hliðarreikninga fæst skýrari mynd af stöðu og mikilvægi ferðaþjónustu sem nýtist stjórnvöldum og einkaaðilum.

Fyrsti áfangi verkefnisins snýst um að afmarka og skilgreina atvinnugreinar sem teljast vera ferðaþjónusta. Í næsta áfanga fer fram gagnaöflun og í framhaldi af því fer fram úrvinnsla. Á fyrsta ársfjórðungi 2008 yrði gefin út lokaskýrsla og tillögur mótaðar um framhald verksins.

Á dagskrá ykkar hér á eftir er að fjalla um markaðsmál, sameiningu kraftanna og upplýsingamiðlun. Ferðaþjónusta á Íslandi er öflug atvinnugrein. Hún á í mikilli samkeppni við ferðaþjónustu í öðrum löndum bæði á sviði móttöku erlendra ferðamanna og á því sviði að laða okkur Íslendinga til ferðalaga um landið í stað þess að fara bara til útlanda í frí. Þessari samkeppni mætum við einmitt með því að sameina kraftana.

 Hvert einstakt fyrirtæki hefur ekki bolmagn til að standa í umfangsmiklu kynningu sem nauðsynleg er til að minna á sig. En með því að fyrirtæki í sama sveitarfélagi, sama byggðarlagi eða í sama landsfjórðungi, sameinist í markaðsmálum er árangurs að vænta.

Að lokum óska ég ykkur góðs gengis hér á fundinum og þakka fyrir mig.