Ávarp Sturlu Böðvarssonar, samgönguráðherra,
við afhendingu styrkja Menningarráðs Vesturlands.
Safnasvæðinu Görðum, Akranesi, fimmtudaginn 22. febrúar 2007 kl. 17.

Stjórn Menningarráðs, styrkhafar, aðrir góðir gestir.

Við sem störfum að  uppbyggingu ferðaþjónustu hér á landi og kynningu landsins út á við höfum í stórauknum mæli beint sjónum að menningararfinum og menningu líðandi stundar. Er það ekki síst vegna aukinnar kröfu ferðafólks um að kynnast menningu þeirra landa sem það sækir heim en einnig vegna þeirrar viðleitni að skapa meiri tekjur af hverjum ferðamanni og að þeir geti notið þess að fara um landið á öllum tímum árs.

Ferðamálaáætlun til ársins 2015 gerir ráð fyrir því að menning þjóðarinnar verði meðal ráðandi þátta  í þróun íslenskrar ferðaþjónustu og hefur samgönguráðuneytið því í auknum mæli tekið þátt í ýmsum þróunarverkefnum á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Því er það samgönguráðuneytinu mikilvægt og í raun mikill heiður að eiga ásamt menntamálaráðuneytinu aðild að menningarsamningum við Austurland og Vesturland.

Það er einstaklega ánægjulegt að fá nú öðru sinni staðfestingu á þýðingu samningsins hér á Vesturlandi en að þessu sinni mun, ekki síður en í fyrra, styrkja verkefni sem líkleg eru til að höfða til fjöldans. Þó eru engar málamiðlanir á ferð og verkefnin myndu öll sóma sér í hvaða heimsborg sem er.

Sú áhersla sem lögð er á menningarstarf barna og ungmenna er einnig lýsandi fyrir trú Menningarráðsins á framtíðina hér á Vesturlandi.

Það gleður mig að sjá hversu metnaðarfull verkefni hljóta styrk hér í dag og ég hlakka til að sjá áform ykkar verða að veruleika.

STYRKAFHENDINGIN

Ég óska öllum viðstöddum innilega til hamingju með daginn og óska ykkur velfarnaðar í þýðingamiklu starfi ykkar.