Eins og oft áður er mikið rætt um nauðsyn þess að byggja upp flutningakerfið í landinu með lagningu betri vega. Jafnframt er litið til þess að slíkar framkvæmdir skapi mikla atvinnu á meðan framkvæmdum stendur. En skortur á fjármagni setur slíkum áformum miklar skorður eins og oft áður. Það þekkir undirritaður vel. Á átta ára  ferli sem samgönguráherra  stóð ég frami  fyrir því að þurfa að fresta framkvæmdum í þágu stöðugleika og til þess að hægt væri að jafna fjárlagahalla. 
Ég hef því ríkan skilning á þröngri stöðu samgönguráðherra til að setja af stað öll þau mörgu verk sem eru á samgönguáætlun og beðið er eftir. Engu að síður hafa orðið miklar framfarir í vegamálum um landið allt síðustu tuttugu árin sem bæta búsetu skilyrði. En það er samt margt ógert við  endurbætur á samgöngukerfinu.


Róbert Marshall vill skoða vegtolla
Það er fróðlegt að lesa viðbrögð Róberts Marshall alþingismanns í fjölmiðlum  við umræðu um að koma af stað framkvæmdum við vegagerð með því að taka upp vegtolla til að fjármagna stórframkvæmdir í vegagerð.

„Mér finnst þessi hugmynd þess virði að hún sé skoðuð,“ segir Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður samgöngunefndar Alþingis, um vegtolla á helstu stofnbrautir.

Róbert Marshall er fyrrverandi aðstoðarmaður samgönguráðherra. Hann ætti að þekkja skýrslur sem unnar voru af sérfræðingum  fyrir samgönguráðuneytið um gjaldtöku og einkaframkvæmdir við gerð umferðarmannvirkja. Í gildandi samgönguáætlun er jafnframt fjallað  um sérstaka fjáröflun til samgönguframkvæmda í ítarlegum kafla og vísað til þess sem undirbúið hafði verið vegna mikilla áforma um gerð samgöngumannvirkja nærri höfuðborginni og raunar víðar, m.a. í formi einkaframkvæmda.
Samgönguáætlun, sem ég lét gera, er enn í gildi og er unnið eftir henni en hún náði yfir  tímabilið 2007 til 2010. Hún var  samþykkt sem ákvörðun Alþingis í marsmánuði árið 2007. Samfylkingin taldi stöðu ríkissjóðs og horfur í efnahagsmálum vera svo góðar vorið 2008 að tilteknum verkum í þessari áætlun  var flýtt  með viðbótarframlögum. Því var fagnað þá og þingmenn Samfylkingarinnar hreyktu sér af  sterkum ríkissjóði sem skapaði skilyrði til þess að hraða framkvæmdum. Þau framlög hafa flest verið skorin niður og nýttust því ekki í framkvæmdir.
Í viðtalinu dregur þingmaðurinn í land þegar kemur að umræðunni um Suðurlandsveg og telur ekki koma til greina að leggja á veggjald líkt því sem er í Hvalfjarðargöngunum. Þingmaðurinn leggur hinsvegar ekki til að þeirri gjaldtöku verði hætt eins og Samfylkingin lofaði fyrir kosningarnar 2007.  Hann telur að til greina komi að taka hóflegt gjald á Suðurlandsvegi, „svo sem hundrað krónur“. Ekki er líklegt að slík gjaldtaka hraði framkvæmdum eða geti staðið undir lántöku vegna risastórra framkvæmda á borð við tvöföldun Suðurlandsvegar.
Samgönguáætlun gerir ráð fyrir nýrri skipan við gjaldtöku

Í gildandi samgönguáætlun var gert ráð fyrir sérstakri fjármögnun við tiltekin verkefni, svo sem byggingu samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll og  breikkun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar með tilheyrandi umferðarmannvirkjum.  Var gert  ráð fyrir að afla fjármuna með beinni gjaldtöku eða svokölluðu skuggagjaldi. 
Í greinargerð með samgönguáætluninni,  í þeim kafla þar sem fjallað er um gjaldtöku af samgöngum, segir:

„Skoðað verði áfram og stefnt að því að taka upp gjaldtöku af samgöngum með tilliti til jafnræðis samgöngugreina og notenda samgangna. Unnið verði að undirbúningi nýrrar skipunar gjaldtöku sem byggð er á nýjustu tækni, þ.m.t. GPS-mælingu, fyrir umferð á vegum.
Unnið var á síðasta áætlunartímabili verkefni á vegum Vegagerðarinnar, Flugmálastjórnar og Siglingastofnunar um jafnræði samgöngugreina hvað gjaldtöku varðar. Verkefnið er unnið af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og fólst í að kanna gjaldtöku og samfélagslegan kostnað sem rekja má beint til hverrar samgöngugreinanna þriggja. Vonast er til að niðurstaða verkefnisins geti skipt verulegu máli fyrir flutningsstefnu framtíðarinnar. Augljóst er að eigi að ná fram betra jafnræði í gjaldtöku milli og innan samgöngugreina þurfa að koma til nýjar gjaldtökuaðferðir, sbr. a-lið hér að framan. Áfram verður fylgst með helstu þróun á þessu sviði á áætlunartímabilinu og þau verkefni unnin sem nauðsynleg eru til þess að ná fram árangri á þessu sviði.
Starfshópur á vegum samgönguráðherra lagði fram drög að stefnumótun um framtíðargjaldtöku í vegakerfinu. Starfshópurinn skilaði skýrslu til ráðherra í febrúar 2005 þar sem grunnur er lagður að stefnumótun um gjaldtöku og einkafjármögnun umferðarmannvirkja næstu árin. Lagði hann til að næstu skref yrðu að kanna möguleika á innleiðingu á nýju gjaldtökukerfi þar sem gjaldtaka mundi taka sérstakt tillit til umhverfis-, umferðaröryggis- og notkunarþátta í vegakerfinu. Ástæða þess er m.a. að núverandi tekjustofn er þverrandi og er hugmynd uppi um að nýtt innheimtukerfi komi í stað núverandi skattlagningar á eldsneyti þar sem gætt verður persónuverndar og jafnræðis við gjaldtöku. Í þessu sambandi hefur Vegagerðin látið þróa miðlægan stjórnbúnað til að ná sjálfvirkt í gögn um eknar vegalengdir úr farartækjum. Ef vilji er til verður þannig unnt að nota kerfið í framtíðinni í stað núverandi þungaskattsmæla í stórum bílum og síðan t.d. í öllum atvinnubílum. Enn fremur mælir ekkert á móti því að kerfið nái yfir allan bílaflotann ef ákveðið verður að taka upp gjaldtöku af umferð sem byggist á framangreindum atriðum. Þessi niðurstaða starfshópsins er enn í fullu gildi og er hér lagt til að unnið verði í samræmi við niðurstöðu hans á áætlunartímabilinu.“Dagur B. og Sundabraut
Áformin í samgönguáætluninni eru skýr og verkefnið sem samgönguráðuneytið fékk er augljóst.
Af svörum þingmannsins er ekki að merkja að hann hafi fylgst með þeirri vinnu um  breytta skipan  gjaldtöku af umferðinni sem samgönguráðuneytinu var falið  með samþykkt samgönguáætlunarinnar. Ekkert hefur bólað á tillögum um breytta tekjuöflun eða tillögur um sérstaka fjármögnun vegna umræddra framkvæmda. Það hefur heldur ekkert bólað á endurskoðun á samgönguáætluninni frá 2007 þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli um að hana skuli endurskoða á tveggja ára fresti.
Samkvæmt lögum er það sérstaklega skipað samgönguráð sem gerir tillögu til ráðherra um breytingar á samgönguáætlun. Ráðherra þarf síðan að leggja þá tillögu fyrir Alþingi til umfjöllunar og afgreiðslu.  Formaður samgönguráðs er Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi. Það er sá sami Dagur sem talaði og talaði um nauðsyn þess að leggja Sundabraut.
Það minnast margir þess, er sá sami Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi,  sagði – á fjölmennum fundi á Akranesi árið 2006 – að af hálfu borgarinnar væri öllu skipulagi vegna Sundabrautar lokið.  Einungis stæði á þáverandi samgönguráðherra að hefja framkvæmdir.
Á þeim fundi öðlaðist hugtakið „dagsatt“ nýja merkingu í mínum huga. Enn bólar ekkert á Sundabraut. Það bólar heldur ekkert á framkvæmdum við tvöföldun Suðurlandsvegar eða Vesturlandsvegar þrátt fyrir að gerður væri samningur við Spöl um undirbúning nauðsynlegra endurbóta á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi. Vert er að geta þess að skipaðir voru sérstakir vinnuhópar í ársbyrjun 2007 til þess að undirbúa framkvæmdir við  breikkun þessara mikilvægu umferðaræða í samræmi við ákvörðun Alþingis. Ekkert bólar á því starfi.
Væntanlega hefur þessum vinnuhópum verið ýtt til hliðar til þess að Róbert Marshall og Dagur B. Eggertsson hefðu næði til þess að tala um áform sín. Ekkert bendir til þess að stjórnarflokkarnir hafi undirbúið fjármögnun  stórframkvæmda  í samgöngumálum. Það verður því áframhaldandi bið eftir þeim.