Sturla Böðvarsson svarar Guðjóni Jenssyni sem skrifaði í Morgunblaðið 2. janúar um Sundabraut. Ráðherra skýrir hér stöðu málsins en greinin birtist í Morgunblaðinu 3. janúar og fer hér á eftir.

Ég vil í upphafi þakka Guðjóni Jenssyni fyrir að taka málefni Sundabrautar til umræðu í Morgunblaðinu 2. janúar og það er ágætt að fá tækifæri til að skýra stöðuna og leiðrétta misskilning greinarhöfundar.

Í fyrsta lagi er rétt að benda á að framkvæmdir við Sundabraut hafa ekki komist á dagskrá vegna þess að ekki liggur fyrir ákvörðun um legu hennar. Fjárveitingar hafa verið í samgönguáætlun og við ráðstöfun fjármuna vegna sölu Símans var gert ráð fyrir að hluti þeirra væri nýttur til að leggja Sundabrautina. Vegagerðin og borgaryfirvöld hafa til skamms tíma ekki náð niðurstöðu um legu brautarinnar. Mikill undirbúningur hefur þó farið fram, meðal annars lagðar fram hugmyndir um leiðir og þess háttar og þær hafa verið til umfjöllunar í borgarkerfinu, hjá Vegagerðinni og hjá skipulagsyfirvöldum mörg undanfarin ár.

Nýjustu tillögur eftir umfangmikið samráð við íbúa samkvæmt skilyrðum umhverfisráðherra er að leggja í umhverfismat og bera saman svokallaða innri leið og jarðgöng. Jarðgangakosturinn hafði áður verið lagður til hliðar. Samgönguráðherra og Vegagerðin fara hins vegar ekki lengra með málið fyrr en heimildir liggja fyrir um legu brautarinnar og borgaryfirvöld hafa gefið framkvæmda-leyfi.

Í öðru lagi má ítreka á að fjármagn hefur þegar verið tryggt. Hluti þess er fenginn með andvirði af sölu Símans og með því má hefja verkið og síðan yrði viðbótar-fjármögnun fengin í samgönguáætlun. Framkvæmdir við Sundabraut gætu því hafist á morgun ef allt væri til reiðu hvað varðar hönnun, skipulagið og umhverfismál.

Ég er sammála greinarhöfundi að Sundabraut er löngu tímabær framkvæmd. Hún bæði greiðir leið og eykur öryggi. Sundabraut kemur íbúum höfuðborgarsvæðisins til góða og hún kemur ekki síður og í raun fremur til góða íbúum á landsbyggðinni. Það eru því óþarfa áhyggjur hjá greinarhöfundi að telja að samgönguráðherra þurfi að koma úr hópi þingmanna höfuðborgarsvæðisins til þess að tryggja megi eðlilega framvindu framkvæmda við Sundabraut. Rétt er í þessu samhengi að minna á að formenn stjórnarflokkanna eru af höfuðborgarsvæðinu. Má ætla að það mætti tryggja hagsmuni höfuðborgarbúa ef málið er sett í það samhengi sem er auðvitað fullkomlega ómálefnalegt gagnvart þeim og samgöngu-ráðherranum sem hefur hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi.

Samgönguráðherra utan af landi hefur ekki síður skilning á nauðsyn Sundabrautar og þeim kostum sem hún hefur. Þess vegna legg ég áherslu á að nauðsynlegar ákvarðanir um legu brautarinnar verði teknar hið fyrsta svo hrinda megi málinu af stað. Við höfum tryggt fjármagn til Sundabrautar. Nú er  beðið eftir næstu skrefum umhverfismatsins og  ákvörðun um legu brautarinnar og forsvaranlegum tengingum við gatnakerfi borgarinnar.