Til að auka ferðalög Kínverja til Íslands er mikilvægt að koma á beinu flugi á milli landanna. Þetta var á meðal þess sem fram kom á fundi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra og Jin Fang formanns ferðamálaráðs Shanghai a fundi þeirra í Shanghai fyrr í dag.
Jin Fang fagnaði sérstaklega miklum viðskiptum Air Atlanta við kínverska samstarfsaðila og því að Icelandair skuli þegar leigja 10 Hainan Airlines þotur.
Fundurinn var haldinn í lok opinberrar heimsóknar samgönguráðherra til Kína en þar hefur hann meðal annars sótt stærstu ferðasýningu í Asíu, sem haldin var í Kunming að þessu sinni og fjögur íslensk ferðaþjónustufyrirtæki tóku þátt í auk Ferðamálaráðs og sendiráðs Íslands í Peking. Sturla Böðvarsson átt að þessu tilefni fundi með ferðamálaráðherra Kína og öðrum framamönnum í kínverskri ferðaþjónustu. Næsta ferðasýning kínverska ferðamálaráðuneytisins verður haldin í Shanghai á næsta ári og er gert ráð fyrir enn fleiri íslensk fyrirtæki taki þátt í henni.