Í morgun var haldinn blaðamannfundur undir yfirskriftinni Bílinn allan heim – enga „varahluti“ á hálendinu!
Ferðamálaráð Íslands gengst fyrir hreinsunarátaki á hálendisvegum landsins:
Bílinn allan heim – enga „varahluti“ á hálendinu!

Dagana 14. ágúst til 1. september nk. gengst Ferðamálaráð Íslands fyrir hreinsun á öllum helstu hálendisvegum landsins. Átakið er framkvæmt undir kjörorðunum „Bílinn allan heim – enga „varahluti“ á hálendinu. Helstu stuðningsaðilar átaksins eru Bílaleiga Akureyrar, Hekla, auglýsingastofan Stíll, VÍS og Olís en framkvæmd þess er í umsjá Ferðamálaráðs.
Hreinsunin fer fram með þeim hætti að starfsmaður frá Ferðamálaráði mun aka á fjórhjóladrifnum bíl um helstu hálendisvegi landsins með stóra kerru aftan í. Bílstjóranum til halds og traust verða vösk ungmenni sem munu tína upp alla „bifreiðaafganga“ sem á vegi þeirra verða. Kerran verður síðan losuð á endurvinnslustöðvum og öðrum viðeigandi stöðum eftir því sem þurfa þykir.

1.300 kílómetrar á 15 dögum

Fyrirhuguð ökuleið er alls 1.300 kílómetrar og er henni skipt í 18 áfanga sem eknir verða á 15 dögum. Átakið hófst í gær, mánudag, og var þá farið um Kaldadal og Uxahryggi. Afrakstur þeirrar hreinsunar mátti sjá á fréttamannafundi, sem Ferðamálráð efndi til í Öskjuhlíð fyrr í dag, en farið var með ruslið í Sorpu þegar að loknum fundinum.
Í dag er ferðinni heitið bæði í Tindfjöll og Þórsmörk og verður ruslið losað á Hvolsvelli annars vegar og Kirkjubæjarklaustri hins vegar. Nákvæma dagskrá hreinsunarinnar má sjá á meðfylgjandi blaði en átakinu lýkur föstudaginn 1. september nk. með hreinsun á veginum að Dettifossi og veginum um Ásbyrgi.

Nauðsynlegt að ganga betur um

Hekla leggur til bílinn og Bílaleiga Akureyrar kerruna sem notuð verða við hreinsunina, Olís leggur til eldsneyti í ferðina, VÍS tryggingarnar á bílinn og kerruna. Einnig styrkir auglýsingastofan Stíll átakið með merkingum á bíl og kerru. Starfsmenn skrifstofu Ferðamálaráðs munu skiptast á um aksturinn og ráðin hafa verið ungmenni til aðstoða við hreinsunina, sem fyrr segir.

Að sögn Elíasar Gíslasonar, forstöðumanns skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri, er rík þörf á að taka til hendinni á hálendisvegum landsins. „Hugmyndin að þessu átaki kviknaði hjá starfsmönnum Ferðamálaráðs við akstur um hálendið í fyrrasumar. Þar er víða að finna dekkjadræsur, púströr, hljóðkúta, drullusokka og fleiri bifreiðaafganga sem minna mann óþyrmilega á nauðsyn þess að ganga betur um. Ég vona að þetta hreinsunarátak verði til þess að vekja fólk til umhugsunar um nauðsyn þess að ganga vel um náttúru landsins og skilja ekki sorp eftir á víðavangi, hvort sem það eru úr sér gengnir bifreiðahlutar eða annað,“ segir hann.

Elías segir að þegar hreinsun verður lokið í haust verði árangurinn metinn og í ljósi þess ákveðið hvort átak sem þetta verði árlegur viðburður í framtíðinni.

Umhverfismál fá aukið vægi

Einnig má geta þess að Ferðamálaráð Íslands hefur að sögn Elíasar í auknum mæli verið að snúa sér að umhverfisþættinum. Þannig hefur um 200 milljónum króna verið varið í þennan málaflokk á undanförnum árum og á þessu ári einu um 40 milljónum króna. Þessir fjármunir hafa einkum farið til úrbóta á fjölsóttum ferðamannastöðum um land allt. Sem dæmi um staði þar sem unnið hefur verið að úrbótum í sumar má nefna Surtshelli, Skógarfoss, Kröflu, Gullfoss, Hraunfossa, Hengifoss, Borgarvirki, Hvítserk, Víðimýrarkirkju og Skaftafell. Þessar framkvæmdir hafa í öllum tilfellum verið unnar í góðri samvinnu við heimamenn á hverjum stað, Vegagerðina, Náttúruvernd ríkisins og eftir aðstæðum Þjóðminjasafnið.

Fréttatilkynning frá Ferðamálaráði Íslands þriðjudaginn 15. ágúst 2000