Sturla Böðvarsson birti þessa grein á vefritinu Pressunni 9. apríl sl.
Björgvin G Sigurðsson fyrrverandi ráðherra  bankamála skrifar grein í vefritið  Pressuna þriðja þessa mánaðar. Hann segir frá því að hann hafi setið opinn fund í samgöngunefnd Alþingis. Þar sat fyrir svörum núverandi samgönguráðherra Kristján L . Möller. Framganga og skýringar samgönguráðherra  á fundinum virðast hafa leitt til þess að  bankamálaráðherrann fyrrverandi  finnur  hjá sér hvöt eftir fundinn til að skýra  ummæli  samgönguráðherra  vegna þeirra framkvæmda á svið samgöngu og fjarskiptamála sem voru til umræðu á opna fundinum í samgöngunefndinni.

Hann talar um sókndjarfan samgönguráðherra. Hann nefnir nokkur mál sem hann telur til marks um verk hins   sókndjarfa ráðherra. Ekkert þeirra mála hefur núverandi samgönguráðherra látið undirbúa eða leitt fram og undirbúið  til ákvörðunar. Öll verkefnin eru í samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun sem undirritaður lét vinna og fékk samþykktar á Alþingi. Hann nefnir framkvæmdir við  breikkun og tvöföldun Suðurlandsvegar sem var samþykkt í samgönguáætlun í mars 2007 en er núna fyrst að koma til skoðunar sem útboðsverk síðar á þessu ári, hann nefnir einnig  Suðurstrandaveg, brú á Hvítá, veg um Lyngdalsheiði, höfn í Bakkafjöru og nýjan Herjólf en öll þessi verk voru undirbúin og sett inn í samgönguáætlun af undirrituðum. Hann nefnir síðan  tengingu tæplega 2000 bæja í dreifbýli við háhraðanetið  sem á að ljúka 2011 samkvæmt nýgerðum samningi við Símann. Það verk mun dragast um nærri fjögur ár frá því sem Fjarskiptaáætlun fyrir tímabilið 2005-2010 gerði ráð fyrir  þrátt fyrir að Fjarskiptasjóður hafi fengið tvöþúsund og fimmhundruð milljónir til að vinna með af söluandvirði Símans.

Það eina sem má þakka samgönguráðherra fyrir er að hafa ekki enn a.m.k. tafið þessi verk meira með seinagangi og dáðleysi. Og hann hefur ekki enn komið því í verk að endurskoða gildandi samgönguáætlun þrátt fyrir að forsendur  hafi breyst heldur gerir hann tilraun til þess að hnoðast áfram með þau verk sem hann vill taka fram fyrir önnur verk án þess að hafa leyfi til þess frá Alþingi sem á að samþykkja breytingar á samgönguáætlun. Opni fundurinn með samgönguráðherra leiddi enn einu sinni í ljós hversu verkasmáir ráðherrar Samfylkingarinna eru. Hafi það verið vilji Björgvins G Sigurðssonar að upplýsa um stórvirki ráðherrans er hann bæði að beita sjálfan sig og lesendur Pressunnar blekkingum. Þau vinnubrögð þekki ég vel frá fyrri tíð þegar Björgvin G Sigurðsson sem þingmaður var í fararbroddi að ræða um tvöföldun Suðurlandsvegar og gera kröfur um að  framkvæmdir hæfust  tafarlaust. Hann sat hinsvegar á annað ár í ríkisstjórninni með samgönguráðherra  án þess að það verkefni, sem hafði verið undirbúið,  kæmist af stað. Það er ekki hægt að halda því fram með rökum að ráðherrar Samfylkingarinnar hafi verið sókndjarfir. Öðru nær.

Samfylkingin er mikilli vörn um þessar mundir. Hún stendur þannig að málum bæði í þinginu og á vettvangi ríkisstjórnar að allt er komið í óefni og vinnubrögðin öll með ólíkindum.  Samfylkingin býr við þá staðreynd  að hafa setið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum sem tók við mjög góðu búi af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Sú ríkisstjórn hafði bæði unnið vel að uppbyggingu innviða  samfélagsins og skapað hér efnað samfélag sem hafði greitt niður skuldir ríkisins. Samfylkingin var hinsvegar  í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum þegar yfir okkur skall bankakreppa sem lagði að velli alla stóru bankana. Samfylkingin á þá fortíð í stjórnarsamstarfi   að hafa hlaupist undan merkjum og svikið samstarfsmenn sína þegar þjóðin hafði mikla þörf fyrir samstöðu og styrk á Alþingi og í stjórnarráðinu. Eftir bankahrunið hafa fjölmargar fjölskyldur lent í vandræðum og orðið fyrir miklu efnahagslegu tjóni. Núverandi stjórnarflokkar leggja sig alla fram við að kenna Sjálfstæðisflokknum um afleiðingar bankakreppunnar og kenna hana stjórnarforystu flokksins og þá væntanlega  samstarfi við Alþýðuflokkinn, Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna. Varla hafa hinir sókndjörfu Alþýðuflokksmenn og Samfylkingarfólk látið Sjálfstæðisflokkinn ráða þau tæplega sex ár sem þessir flokkar störfuðu saman í ríkisstjórn.

Samfylkingin getur ekki vikið sér undan því að hafa verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og ber því  ábyrgð á  viðbrögðum í aðdraganda  bankahrunsins. Það kom í ljós að Samfylkingin er ekki stjórntæk vegna innbyrðis sundrungar og togstreitu. Það voru vissulega mikil mistök að ganga til samstarfs við Samfylkinguna um myndun ríkisstjórnar. Frá fyrsta degi vann Samfylkingin í raun gegn stjórninni og gróf undan ríkisstjórninni sem hún var þátttakandi í. Það var því ekki við góðu að búast. Það má nefna eftirfarandi, en af mörgu er að taka.  • Samfylkingar ráðherrar ríkisstjórnarinnar töluðu gegn íslenska gjaldmiðlinum, töluðu niður krónuna. Þar var fremstur i flokki viðskiptaráðherrann Björgvin G Sigurðsson. Slíkt háttarlag er væntanlega einsdæmi  af hendi ráðherra og hefði auðvitað átt að leiða til þess að forsætisráðherra setti viðkomandi ráðherra  þegar frá störfum.
  • Samfylkingar ráðherrar ríkisstjórnarinnar töluðu gegn stjórnarsáttmálanum með því að byrja fljótlega að klifa á inngöngu í Evrópubandalagið þrátt fyrir að ekki væri gert ráð fyrir því í stjórnarsáttmálanum. Sú framganga skapaði óvissu  og veikti  ríkisstjórnina  þegar mest lá við.
  • Samfylkingarráðherrarnir unnu  eftir hugmyndafræði Borgarnesræðunnar þar sem áhersla var lögð á að halda  verndarhendi yfir þeim útrásarmönnum sem harðast gengu fram og veittu Samfylkingunni skjól.
  • Samfylkingarráðherrarnir  gerðu miklar kröfur um ríkisútgjöld sem gerðu ríkissjóð strax þegar leið á árið 2008  veikari til þess að mæta erfiðari aðstæðum eftir bankahrunið.
  • Samfylkingarráðherrarnir snéru sér að því    strax eftir bankahrunið að koma höggi á samstarfsflokkinn í stað þess að ganga til verka til varnar heimilum og fyrirtækjum. Þeir lögðu mesta áherslu á að koma höggi á samstarfsflokkinn og fórnuðu þannig  hagsmunum þjóðarinnar fyrir stundarhag flokksins.


Allt þetta leiðir nú til þess að Samfylkingin er komin í mikla vörn. Liður í þeirri vörn er að mæra ráðherrana í ríkisstjórninni eins og Björgvin G Sigurðsson gerir í fyrrnefndri Pressugrein.  Er  líklegt að það auki virðingu ráðherra að vekja athygli á því hversu  litlu er komið í verk.