Góðir gestir,

Við Íslendingar eigum mikið undir því að varðveita umhverfi okkar og ganga þannig um auðlindirnar að þær endurnýist sem sjálfbærar þrátt fyrir nýtingu þeirrar. Hafnirnar eru lykill sjávarbyggðanna að auðlindum hafsins. Því skiptir það miklu máli að umhverfi þeirra og mannvirki beri með sér að snyrtimennska sé í heiðri höfð.

Höfnin í Stykkishólmi er einstök frá náttúrunnar hendi. Starfsmenn hafnarinnar hafa hver á fætur öðrum verið annáluð snyrtimenni, sem hafa lagt metnað sinn í að halda öllu í sem bestu horfi. Bæjaryfirvöld og hafnarstjórn hafa sýnt vilja sinn í verki og haldið vel við mannvirkjum og staðið þann veg að mannvirkjagerð að til fyrirmyndar er. Það fer ekki á milli mála að Stykkishólmshöfn er ein fegursta höfn landsins. Héðan er gert út á auðlindir hafsins og ferðamenn, en ferðaþjónustan er í dag næst stærsta atvinnugrein okkar Íslendinga á eftir sjávarútvegi.

Bláfáninn er alþjóðlegt merki, sem hefur þann tilgang að stuðla að verndun umhverfis smábátahafna og baðstranda. Þeir einir fá Bláfánann, sem leggja sig fram um að bæta umhverfið og auka gæði þjónustunnar.

Í nafni samgönguráðuneytisins vil ég færa Landvernd þakkir fyrir það merkilega framtak að veita höfnum Bláfánann, en slíkt er mikilvæg hvatning. Það er mér jafnframt mikil ánægja að það skuli vera höfnin í Stykkishólmi, sem fyrst hafna hlýtur Bláfánann fyrir framúrskarandi árangur. Það er von mín að Bláfáninn verði útgerðum, sjómönnum og starfsmönnum hafnanna hvatning á þeirri braut að bæta umhverfið og tryggja öryggi hafnarsvæðanna. Hafnirnar eiga að vera perlur hverrar byggðar. Í dag erum við í einni slíkri sem hefur fengið verðskuldaða viðurkenningu.

Ég óska starfsmönnum hafnarinnar og hafnarstjórn til hamingju með Bláfánann.