Í síðustu viku var fjallað um það í Fréttablaðinu hversu erfitt það er að loka á persónuníð á netinu. Samkvæmt umfjöllun blaðsins eru Persónuvernd og dómsmálaráðuneyti að skoða leiðir til enn hertari aðgerða til að bæta persónuvernd á netinu. 
Þegar ný fjarskiptalög voru sett  árið 2003  var fjallað sérstaklega um persónuöryggi samfara þessum opna miðli sem netið er. Ég minnist þess að hafa þurft að sæta miklum árásum vegna þess að ég taldi nauðsynlegt að lögfesta þá skyldu að allar tölvur tengdar netum væru skráðar svokallaðri IP-tölu til þess að hægt væri  að rekja það frá hvaða tölvu tiltekin viðskipti gengju eða ef tölvusamskipti væru notuð í óforsvaranlegum eða jafnvel glæpsamlegum tilgangi. Undirritaður var þá sem ráðherra fjarskiptamála vændur um vilja til þess að stunda persónunjósnir og hefta persónufrelsi og jafnvel tjáningafrelsi.
Fróðlegt væri að rifja öll þau skrif upp sem sýna auðvitað að þessi varúðarráðstöfun, að skrá IP-tölur tölvunnar, var nauðsynleg og rétt. Er ég feginn að hafa ekki látið undan þeim kröfum sem komu úr bloggheimum þess tíma um að menn gætu skrifað og stundað viðskipti á netinu án þess að nokkur möguleiki væri til þess að hafa hendur í hári þeirra sem notuðu netið til ólöglegrar framgöngu. En eftir sem áður verður tjáningarfrelsið ekki heft en til staðar eru leiðir  til þess að hafa hendur í hári þeirra sem brjóta lögin. Bloggið á vefmiðlunum hefur umbreytt allri umræðu í samfélaginu og skapað mikla nánd þegar kemur að því að koma á framfæri  skýrum skilaboðium um menn og málefni. Og í flestu tilliti er bloggið jákvætt og virkjar þá sem skrifa skýran texta og eru viljugir að taka opinbera afstöðu.  Með blogginu á netmiðlunum gefst tækifæri til þess að upplýsa hratt, leiðrétta rangfærslur verði mönnum það á að fara með rangt mál og því auðvelt að koma því á framfæri, sem sannara reynist, sem ætti jú að vera megintilgangur þeirra sem eru virkir í þjóðmálaumræðunni.

En það er að finna  mjög dökkar hliðar á þessum miðli þegar blogginu  er beitt með óforsvaranlegum hætti. Það er  ekki hirt um að fara rétt með og það er  ýtt  undir illmælgi og rógburð og réttu máli hallað af áhrifamiklum fjölmiðlamönnum og þekktum bloggurum. Þar gildir að veldur hver á heldur.

Á heimasíðu Ríkisútvarpsins er haldið úti stöðugri auglýsingu á bloggsíðu eins manns. Þar er á ferðinni blogg Egils Helgasonar þáttastjórnanda sem er vistað á vefmiðlinum Eyjunni en er kynnt sérstaklega á vegum RÚV.  Engir aðrir vefmiðlar eru kynntir með þessum hætti á heimasíðu hins óháða ríkisfjölmiðils RÚV. Allt væri þetta gott og blessað ef þessi bloggsíða tengdist eingöngu þeim þáttum sem þessi áhrifamikli fjölmiðlamaður stjórnar hjá RÚV. Á þessari bloggsíðu heldur Egill úti mestu ritsóðasíðu sem þekkist og þar er hann sjálfur fremstur meðal jafningja og ýtir undir stóryrði og sleggjudóma og dregur að nafnlausa skríbenta sem fylgja honum eftir þegar honum tekst „best“ upp í því að ráðast að nafngreindum  mönnum  og skeytir þá hvorki um skömm né heiður þegar hann lætur gamminn geysa.

Egill Helgason er um margt hugmyndaríkur og flinkur þáttastjórnandi.  En hann kann sér ekkert hóf í bloggfærslum sínum og ýtir undir ósómann  sem fylgir með þegar hann skrifar og opnar síðan fyrir umsagnir um það sem hann setur fram. Skrif hans á blogginu eru jafnan mjög ómálefnalegar umsagnir og viðbrögð við því sem er í fréttum. Þar setur hann fram nær undantekningarlaust einhverjar fullyrðingar og oft meiðandi ummæli um nafngreinda menn sem leyfa sér að hafa aðra skoðun en Egill sem bloggar á Eyjunni  í skjóli  RÚV og fer þá lítið fyrir hlutleysi þessa starfsmanns ríkisútvarpsins. Viðbrögðin láta ekki á sér standa eins og sjá má á bloggsíðunni ríkiskynntu. Hvað gengur þeim sómakæru mönnum Páli Magnússyni útvarpsstjóra  og Óðni Jónssyni fréttastjóra til, að láta það viðgangast að starfsmaður RÚV fái slíkan persónulegan aðgang að  síðu RÚV. Hann notar þessa vel auglýstu síðu til þess að þjóna lund sinni gagnvart þeim sem honum er í nöp við einhverra hluta vegna og opnar síðan í gegnum blogg sitt inn á lendur ómálefnalegrar umræðu, rógs og illmælgi í skjóli nafnleyndar.

Málfrelsi og ritfrelsi eru dýrmæt. En öllu frelsi fylgir ábyrgð og því tek ég undir athugasemdir sem koma fram í Fréttablaðinu á dögunum. Það er mikilvægt  að ýta ekki undir ómálefnalega umræðu og persónuníð í umræðum á netinu. Ábyrgð þeirra sem það stunda er mikil.