Fyrsta bindi bókarinnar Stjórn og sigling skipa – siglingareglur er komið út og afhenti höfundurinn, Guðjón Ármann Eyjólfsson, fyrrverandi skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík, Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra fyrsta eintakið í dag. Bókin er alls 358 blaðsíður.
 










Samgönguráðherra fékk fyrsta eintak bókarinnar Stjórn og sigling skipa afhent í dag.

Sturla Böðvarsson lýsti ánægju sinni með útkomu bókarinnar og sagði mikla þörf fyrir hana og Guðjón Ármann Eyjólfsson þakkaði fyrir stuðning ráðuneytisins og Siglingastofnunar Íslands við útgáfu verksins. Í formála bókarinnar tileinkar höfundurinn bókina íslenskum sjómönnum.

Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri segir í formála sínum að það sé ómetanlegt fyrir íslenska sjómenn að hafa bók sem þessa tiltæka á íslensku þar sem ákvæði gildandi öryggisreglna séu skýrð á aðgengilegan hátt í máli og myndum. Hann sagði að útgáfan hefði verið styrkt með fjármagni frá langtímaáætluninni um öryggi sjófarenda sem samgönguráðherra hefði hrint af stað enda væri bókin mikilvægur þáttur í þeirri áætlun.

Stjórn og sigling skipa fjallar fyrst og fremst um alþjóðasiglingareglur og vaktreglur skipstjórnarmanna. Eru þær útfærðar og útskýrðar með gátlistum. Í bókinni eru, eins og í útgáfum handbóka sjómanna árin 1982 og 1989, kaflar um efni sem allir skipstjórnarmenn þurfa að kunna skil á. Er þar átt við alþjóðlega sjómerkjakerfið, viðvaranir, tilkynningar og fjarskipti, öryggisráðstafanir, merkingar sjórafstrengja, sæsímastrengja og fleira.

Í lok bókarinnar eru alþjóðasiglingareglurnar á íslensku og ensku, en með nýsamþykktum lögum um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd samþykkt um alþjóðareglur til að koma í veg fyrir árekstra á sjó voru alþjóðasiglingareglurnar uppfærðar og þýðing þeirra endurskoðuð í heild sinni.

Höfuðreglur siglingaþjóða Alþjóðasiglingareglurnar hafa í rúmlega 200 ár verið höfuðreglur siglingaþjóða um stjórn og siglingu skipa á höfunum. Meginmarkmið siglingareglnanna er að koma í veg fyrir árekstra á sjó og stuðla að betri og öruggari siglingum og þar með auknu öryggi sæfarenda við hinar margvíslegustu aðstæður, til dæmis siglingar með ratsjá, á þröngum siglingaleiðum, í skipaskurðum og í takmörkuðu skyggni og dimmviðri.

Bókin er undirstöðunámsefni skipstjórnarmanna í siglingareglum og alþjóðavaktreglum og verður notuð sem námsefni í fyrsta stigs og 30 rúmlesta námi.

Jóhann Jónsson, myndlistarmaður í Vestmannaeyjum, teiknaði myndir í bókina og Kristján Sveinsson og Sverrir Konráðsson hafa lesið prófarkir en Kristján sá auk þess um umbrotið.