Í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu 29. júní sl. lýsti borgarstjórinn í Reykjavík þeirri skoðun sinni, sem ekki kom á óvart, að halda ætti samkeppni um skipulag Vatnsmýrarsvæðisins.
Eins og Morgunblaðið greinir frá 2. júlí tók borgarstjórinn einnig afstöðu til framtíðar innanlandsflugsins, en þar segir: ,,Hann lýsti einnig þeirri skoðun sinni að hann teldi að innanlandsflugið myndi flytjast til Keflavíkur.“ Eins og þekkt er hafa staðið deilur um framtíð Reykjavíkurflugvallar, sem var endurbyggður með sérstöku leyfi borgaryfirvalda, eftir að Alþingi hafði samþykkt fjárveitingar til endurbyggingar vallarins í Vatnsmýrinni. Það hefur komið mjög skýrt fram bæði af hálfu flugrekenda og Samtaka ferðaþjónustunnar að innanlandsflugið eigi mikið undir því að Reykjavíkurflugvöllur þjóni fluginu áfram. Og með endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar var mótuð skýr stefna gagnvart innanlandsfluginu af hálfu flugmálayfirvalda.
Morgunblaðið leitaði eftir afstöðu minni til þessara orða borgarstjóra, að innanlandsflugið myndi flytjast til Keflavíkur. Með sama hætti og blaðamaður Morgunblaðsins, og raunar leiðarahöfundur Morgunblaðsins gerir einnig, skil ég orð borgarstjórans þannig að hann telji að reka megi innanlandsflugið auðveldlega frá Keflavík. Í leiðara Morgunblaðsins 1. júlí er vitnað til orða borgarstjórans þar sem hann segir m.a. ,,Ég held að bæði landsbyggðin og ferðaþjónustan muni hagnast á því að boðið verði upp á innanlandsflug beint frá Keflavík.“ Af þessum orðum borgarstjórans verður afstaða hans til innanlandsflugs frá Reykjavíkurflugvelli vart misskilin. Það vekur því furðu þegar hann skrifar sérstaka grein í Morgunblaðið til þess að draga í land og gera viðbrögð mín tortryggileg og spyr: ,,Hvað gengur samgönguráðherra til?“ Borgarstjórinn segir að hann hafi verið að lýsa framtíðarsýn sinni í almennum orðum og reynir síðan að skjóta sér á bak við skoðanir leiðarahöfundar Morgunblaðsins sem vill sjáanlega leggja niður innanlandsflugið frá Reykjavíkurflugvelli. Afstaða blaðsins er raunar byggð á miklum misskilningi sem væri efni í sérstaka grein.
Ég vil vekja athygli borgarstjórans í Reykjavík á því að það er hlutverk samgönguyfirvalda að móta stefnuna um uppbyggingu samgöngumannvirkja. Það verður ekki gert nema í góðu samstarfi við sveitarstjórnir og skipulagsyfirvöld. Með því að leggja fram Samgönguáætlun og fá hana samþykkta á Alþingi hefur samgönguráðherra markað skýra stefnu sem felur m.a. í sér að miðstöð innanlandsflugs verði á Reykjavíkurflugvelli. Ég vil af því tilefni minna á að umhverfisráðherra skipaði nefnd í kjölfar þess að aðalskipulag fyrir borgina var samþykkt. Þeirri nefnd var falið það hlutverk að gera tillögur um landnotkun í Vatnsmýrinni. Í þeirri nefnd, sem er að störfum, eru fulltrúar umhverfisráðherra, borgaryfirvalda og samgönguráðherra. Það er von mín að samkomulag geti tekist um það mikilvæga verkefni að tryggja hagsmuni innanlandsflugsins og þeirra fjölmörgu, sem hafa atvinnu af ferðaþjónustu og flugsamgöngum. Jafnframt þarf að leggja áherslu á öryggisþætti flugsins og að dregið verði úr kennsluflugi á Reykjavíkurflugvelli svo og ferjuflugi til þess að takmarka sem mest þá umferð sem getur með góðu móti nýtt aðra flugvelli.
Að lokum vil ég segja borgarstjóranum að mér gengur ekkert annað til með svörum mínum við spurningum Morgunblaðsins, sem hann vitnar til, en að bregðast hart við og hvetja hann til þess að að kynna sér afstöðu þeirra sem best þekkja til um hina fjölþættu starfsemi á Reykjavíkurflugvelli. Með því er umræðan ekki færð á óeðlilega ,,persónulegt plan“.