Sæll Sigurður.

Eins og oft áður horfði ég í gærkvöld á þáttinn Ísland í dag þar sem þið Agnes Bragadóttir rædduð saman undir styrkri stjórn Svanildar Hólm.

Vegna ummæla þinna í þættinum  um að Alþingi hafi afgreitt sem innansleikjur og eftirhreytur meira en  100 lög á september þinginu tel ég mig knúinn til  að leiðrétta þá fullyrðingu þína. Í lok þinghaldins í september, nánar tiltekið 12. september, var eftirfarandi ræða flutt af fyrsta varaforseta þingsins áður en september þinginu lauk .

,,Hv. alþingismenn. Þá er komið að lokum þessara septemberfunda Alþingis. Á þeim tveimur vikum sem fundirnir hafa staðið hafa níu frumvörp verið afgreidd sem lög. Sex þeirra voru frumvörp sem lögð höfðu verið fram á vetrar- eða vorþingi en samkomulag var um að skoða þau nánar og afgreiða nú í september. Fjögur ný frumvörp voru lögð fram á þessum tveimur vikum og þar af urðu þrjú þeirra að lögum.
Að mínu áliti hefur þetta nýmæli sem septemberfundirnir eru tekist vel til og bætir enn frekar vinnubrögðin hér á Alþingi. Septemberfundirnir urðu líka hvati fyrir þingnefndir til að koma saman í sumar og það oftar en áður og ég vil geta þess að alls voru haldnir 17 nefndarfundir í júlí og ágúst, m.a. til undirbúnings þingstörfum hér í september auk tíðra nefndafunda nú á meðan þingfundir stóðu. Þá vil ég nefna að septemberfundir hafa skapað gott tækifæri til almennrar pólitískrar umræðu hér í þinginu eftir sumarhlé þingsins. Á næstu dögum má búast við fundum nefnda og vettvangsferðum þeirra og jafnframt gefst þingmönnum tækifæri til að huga að undirbúningi fyrir næsta löggjafarþing sem verður sett miðvikudaginn 1. október nk.
Ég lýk máli mínu með því að þakka fyrir hönd okkar forsetanna hv. alþingismönnum fyrir mjög gott samstarf, skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð.“

Eins og sjá má af þessu fer því fjarri að Alþingi hafi afgreitt 100 lög í flaustri eins og þú leyfðir þér að fullyrða. Með ummælum þínum er gerð  tilraun til þess að gera lítið úr Alþingi og jafnframt reynt að réttlæta framgöngu stjórnenda bankanna með því að láta líta svo út að um óvandaða laga setningu hafi verið að ræða.

Hér með er óskað eftir að ummælin verði leiðrétt þegar þið Agnes hittist næst og takið til við að upplýsa þjóðina um mikilsverð málefni. Vænti ég þess að stjórnandi þáttarins veiti leyfi til þess.

Með bestu kveðju,