Að undanförnu hafa bæði Mbl.is og Fréttablaðið birt glefsur úr svarbréfi mínu til Atla Gíslasonar formanns þingnefndarinnar sem fjallað hefur um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Bréf mitt er hluti þeirra þingskjala sem nefndin hefur birt. Vegna fyrirspurna til mín og athugasemda í bloggheimum tel ég rétt að birta bréfið í heild sinni hér á Pressunni þar sem ég hef skrifað undanfarin misseri. Bréfið fer hér á eftir eins og það var sent til þingsins.
Alþingi
Hr. alþingismaður Atli Gíslason
formaður þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis
Alþingishúsinu við Austurvöll
101 Reykjavík
Stykkishólmi, 1. júní 2010,
Með bréfi dagsettu 18. maí s.l. er undirrituðum gefinn kostur á að gera athugasemdir við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem er til umfjöllunar í þingnefnd í samræmi við ákvæði laga nr. 142/2008.
Í upphafi vil ég, í ljósi stöðu minnar sem forseti Alþingis, þegar umrædd löggjöf var sett, gera grein fyrir eftirtöldum atriðum. Allur undirbúningur við gerð frumvarps til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, sem og undirbúningur við skipun Rannsóknarnefndarinnar, var á mínu forræði og á mína ábyrgð sem þáverandi forseti Alþingis. Víðtækt samráð var haft við formenn stjórnmálaflokkanna sem þá sátu á Alþingi og alla fulltrúa í forsætisnefnd Alþingis, en forsætisnefnd samþykkti samhljóða tillögu mína um skipan nefndarinnar. Varð full sátt í þinginu um þá löggjöf sem Rannsóknarnefndin vann síðan eftir og skýrslan byggir á. Það var mitt mat á sínum tíma að Alþingi ætti að hafa forgöngu um skipun rannsóknarnefndarinnar fremur en að ríkisstjórnin stæði fyrir rannsókn og gerð „hvítbókar“ um fall bankanna og tengda atburði. Því varð úr að forseti Alþingis yrði fyrsti flutningsmaður lagafrumvarps um rannsóknina og að forsætisnefnd skipaði rannsóknarnefndina.
Í ljósi þessa aðdraganda málsins er það mér fagnaðarefni hversu rík sátt hefur skapast um starf Rannsóknarnefndarinnar. Eins og við var að búast hafa einhverjar athugasemdir um málsmeðferð, efni og form skýrslunnar komið fram, en skýrslan er mikil að vöxtum, og er þess að vænta að þingnefndin taki þær athugasemdir til sérstakrar umfjöllunar og gæti þess að öll málsmeðferð verði vönduð og réttlát.
Það er auðvelt að vera vitur eftir á
Skýrsla rannsóknanefndar Alþingis fjallar um fordæmalausa atburði í íslensku viðskiptalífi og stjórnsýslu.
Í fyrsta kafla skýrslunnar er undir kafli sem ber yfirskriftina „Horft til baka“ undir liðnum 1.8 á blaðsíðu 30.
Þar segir:
Stundum er sagt að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Aðstaðan er vissulega önnur þegar horft er til baka og tóm hefur gefist til að draga saman og vega og meta gögn og upplýsingar í ljósi þess sem síðar gerðist. Þetta á ekki síst við þegar um er að ræða afdrifaríkar ákvarðanir sem teknar hafa verið við erfiðar aðstæður í kapphlaupi við tímann. Víst er að engin mannanna verk eru fullkomin. Öll erum við í þeirri stöðu að geta séð betur eftir á hvernig rétt hefði verið að bregðast við þegar afleiðingar slíkra ákvarðana eru fram komnar. Við rannsókn eins og þá sem rannsóknarnefnd Alþingis er ætlað að sinna skiptir hinsvegar miklu að upplýsingar sem birtar eru og ályktanir sem af þeim eru dregnar taki sanngjarnt og eðlilegt tillit til þess hverjar voru aðstæður á hverjum tíma og hvað þeir sem að ákvörðunum komu eða sýndu af sér athafnaleysi þekktu til aðstæðna og fyrirliggjandi upplýsinga. Til að gæta sanngirni verður að hafa þetta í huga varðandi efnistök í skýrslunni og þegar sú gagnrýni, sem þar kemur fram, er lesin.
Undirritaður tekur undir hvert orð sem þarna er skrifað og væntir þess að þingnefndin hafi þessi varnaðarorð til hliðsjónar þegar ályktanir eru dregnar af þeim einstöku atburðum sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis gerir grein fyrir.
Aðild samgönguráðherra
Tilefni þess að þingnefndin gefur undirrituðum færi á að senda inn athugasemdir er væntanlega seta í ríkisstjórn sem samgönguráðherra frá vordögum 1999 til 2007.
Á þessu tímabili urðu meiri breytingar á íslensku samfélagi á öllum sviðum en orðið hafa í annann tíma frá stofnun lýðveldisins. Þar má nefna mikla uppbyggingu í skólakerfinu með fjölgun framhaldsskóla og háskólastofnana, efling stofnana í heilbrigðis og félagsþjónustu, stórbætt samgöngukerfi og uppbyggingu í atvinnulífinu sem hefur skapað þúsundir atvinnutækifæra fyrir vel menntað fólk á öllum sviðum. Mest af þeirri framþróun og uppbyggingu stendur og mun nýtast komandi kynslóðum bæði beint og óbeint þrátt fyrir þann stór skaða sem hefur orðið á samfélaginu við hrun bankanna.
Allar ákvarðanir sem teknar voru í samgönguráðuneytinu umrætt tímabil vörðuðu þá málaflokka sem lögum samkvæmt eru á vettvangi þess ráðuneytis. Þar er um að ræða málaflokka sem tengjast verkefnum þeirra stofnana sem undir ráðuneytið heyra. Þar má nefna alla málaflokka sem varða vegagerð, flugvelli og flugumsjón, vita og hafnamál, umferðaröryggismál, öryggismál sjófarenda, flugöryggismál. Þessi mál eru öll njörvuð niður í samgönguáætlun sem er samþykkta af Alþingi. Þá er að nefna fjarskiptamál og ferðamál sem eru skýrt skilgreind í lögum og í fjarskiptaáætlun og ferðamálaáætlun. Þá er vert að nefna Ferðamálasjóð sem var rekinn í tengslum við Ferðamálaráð, en var lagður niður á tímabilinu og samið við lánastofnun um innheimtu eigna sjóðsins í samstarfi við einkavæðingarnefnd og fjármálaráðuneytið.
Tekjur til framkvæmda á sviði samgöngumála voru fjármagnaðar annars vegar af mörkuðum lögbundnum tekjustofnum og hins vegar beinum framlögum af fjárlögum. Ekki var um það að ræða að samgöngumannvirki væru fjármögnuð með stórauknu lánsfjár framboði, sem hefði þar með ýtt undir skuldir ríkisins og aukið eftirspurn á lánsfjármarkaði og valdið enn frekari þenslu.
Á þessu tímabili voru framkvæmdir í samgöngumálum verulegar, en þær voru jafnframt sveiflukenndar frá einu ári til annars vegna þess að framlög til þeirra voru skorin niður þegar þensla í efnahagskerfinu ógnaði markmiðum stjórnvalda í efnahagsmálum. Vert er að minna á að stjórnarandstaðan gerði miklar athugasemdir þegar ríkisstjórnin taldi að lækka ætti ríkisútgjöld til samgöngumála og liggur fyrir að mikill vilji var til þess í öllum flokkum að auka framlög til samgöngumála en staða efnahagsmála varð þar að ráða för því ekki voru margar aðrar fjárfrekar framkvæmdir á vegum ríkisins. Ef tekjur ríkisins hefðu verið auknar og notaðar til framkvæmda hefði það aukið á þensluna og var ekki á bætandi.
Verkefni og skyldur ráðuneytisins voru því ekki tengd fjármálastofnunum sem skýrslan fjallar um né heldur þeim eftirlitsstofnunum sem fóru með eftirlit með fjármálastofnunum og fjármálagjörningum.
Þann tíma sem undirritaður sat í ríkisstjórn voru ekki kynntar þar upplýsingar sem gátu bent til þess að bankarnir væru svo illa reknir að ógnað gæti efnahag þjóðarinnar eins og komið hefur í ljós. Ákvarðanir í ríkisfjármálum á vettvangi samgöngumála voru m.a. byggðar á þjóðahagsáætlun sem var mikilvægur hluti þeirra gagna sem fjárlög hverju sinni voru grundvölluð á. Hið almenna mat á aðstæðum í efnahagsmálum sem hver ráðherra þurfti að taka afstöðu til var ekki síst byggt á mati lánshæfisfyrirtækja á bönkunum og ríkissjóð. Álit alþjóðlegra matsfyrirtækja gaf ekki tilefni til að ætla að sú ógn stafaði af bönkunum sem síðar reyndist raunin.
Niðurstaða undirritaðs er sú að ekkert komi fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem gefi tilefni til frekari skýringa af hálfu undirritaðs.
Mat á stöðunni í lok kjörtímabilsins 2003-2007
Þegar litið er yfir stöðu mála í upphafi kjörtímabilsins efir kosningarnar vorið 2007 blasir við að það var mat ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að staða þjóðarbúsins væri svo sterk að óhætt væri af þeirri ástæðu að draga úr veiðum á helsta nytjastofni okkar og draga þar með saman tekjur þjóðarbúsins. Á þessum tíma var talið rétt og eðlilegt að draga úr veiðum til þess að styrkja fiskistofnana þegar þjóðin hefði efni á því. Þessi ákvörðun var mjög umdeild. Jafnframt voru ríkisútgjöld aukin verulega við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008. Þessar ákvarðanir báru ekki merki þess að hinir nýju ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni teldu stöðuna veika eftir sextán ára stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins. Öðru nær. Þess í stað bentu þessar ákvarðanir eindregið til þess að stjórnvöld hefðu trú á að efnahagsstaðan væri sterk og bankakerfið mundi rétta úr kútnum. Að öðrum kosti hefði ríkisstjórnin sem tók við af þeirri sem undirritaður sat í hlotið að bregðast hart við strax þegar hún tók við. Stjórnkerfið allt virtist grandalaust allt fram á árið 2008 þegar bankarnir hrundu eins og spilaborg.
Eftirlitshlutverk Alþingis
Af skýrslu Rannsóknarnefndarinnar má ljóst vera að styrkja þarf enn frekar eftirlitshlutverk Alþingis. Vert er að minna á að á 135. löggjafarþingi beitti undirritaður sér fyrir því, sem forseti Alþingis, að lögum var breytt í þeim tilgangi að tryggja stöðu þingsins við að halda úti öflugra eftirliti með framkvæmdavaldinu og stofnunum þess. Að tillögu undirritaðs samþykkti forsætisnefnd Alþingis skipun vinnuhóps þriggja lögfræðinga þeirra Bryndísar Hlöðversdóttur, Andra Árnasonar og Ragnhildar Helgadóttur og var þeim ætlaða að skilgreina og gera tillögur til úrbóta varðandi eftirlitshlutverk þingsins. Skilaði vinnuhópurinn viðamikilli skýrslu og tillögum um „Eftirlit Alþingis með framkvæmdavaldinu“ sem vonandi verður höfð til hliðsjónar við enn frekari breytingar á eftirlits hlutverki þingsins.
Helstu lagabreytingar sem gerðar voru á 135. þingi og vörðuðu þingið og eftirlitshlutverk þess voru sem hér segir:
1. Reglulegur þingtími var lengdur í þeim tilgangi að efla starf þingsins og styrkja eftirlitshlutverk þess. Með því að hafa þingfundi í september gafst tækifæri til þess að kalla eftir upplýsingum frá ráðuneytum og stofnunum og bera upp fyrirspurnir til ráðherra og formanna þingnenda vegna mikilvægra mála.
2. Nefndir þingsins voru efldar með fjölgun sérfræðinga og starfsaðstaða nefndanna bætt og eftirlit með störfum ráðherra auðveldað. Sérstök áhersla var lögð á að bæta starfsaðstöðu stjórnarandstöðu þingmanna.
3. Ráðherrum var gert að mæta fyrir þingnefndir og kynna þau mál sem þeir hygðust að flytja á yfirstandandi þingi.
4. Nefndarfundir voru opnaðir fjölmiðlum í þeim tilgangi að auka aðhald með upplýsingagjöf til almennings.
5. Fyrirspurnar tímum í þinginu fjölgað og umræðutími var afmarkaður skýrar í þeim tilgangi að gera umræður markvissari og til þess að nýta tíma þingsins betur.
6. Formenn stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu fengu aðstoðarmenn sem og þingmenn í landsbyggðarkjördæmunum þremur.
Þessar breytingar á þingsköpum og þingeftirliti er rifjað hér upp til þess að minna á nauðsyn þess að tryggja þingeftirlitið. Ber að harma ef þingið hefur verið veikt aftur með vanhugsuðum breytingum.
Öllum má ljóst vera að þjóð og þing þarf að læra af þeim mistökum sem hafa verið gerð og birtast í skýrslunni. Undirritaður hvetur þingmenn til þess að standa fast við bakið á forseta Alþingis í því að styrkja stöðu þingsins hverju sinni og stuðla að því að reglur samfélagsins auðveldi endurreisnina og hvetji til framtaks og framfara. Þjóðin þarfnast uppbyggilegra aðgerða. Þess ber að gæta að orka þings og þjóðar fari ekki öll í upprifjun mistaka og leit að sökudólgum. Öll Þjóðin var meira og minna þáttakandi í þeim leiðangri sem farinn var á fölskum forsendum þeirra sem virðast hafa farið offari og metið ranglega getu sína og þjóðarinnar til að takast á við það verkefni að byggja hér upp alþjóðlega fjármálamiðstöð. Því fór sem fór.
Virðingarfyllst,
Sturla Böðvarsson